Rangárþing eystra er sannkölluð útivistarparadís. Þar er hægt að stunda fjölbreytta útivist. Allt frá léttum fjölskyldugöngum til krefjandi jöklaferða.

Helgi Jóhannesson, lögmaður og göngugarpur með meiru, þekkir svæðið eins og lófann á sér enda hefur Fljótshlíðin verið hans annað heimili síðastliðin 20 ár. „Innan sveitarfélagsins eru glæsileg fjöll og jöklar, fallegir fossar, einstök fjara og náttúruperlan Þórsmörk svo eitthvað sé nefnt. Hér eru einnig fjölmargir fallegir viðkomustaðir sem hægt er að heimsækja á bílum, hjólum eða vélsleðum að vetri til,“ segir Helgi.

Veturnir eru algerlega jafnheillandi og sumrin í Rangárþingi eystra. Hér má sjá tvo fjallaskíðaiðkendur á Eyjafjallajökli.

Þríhyrningur með fimm toppa

Að sögn Helga er fjallið Þríhyrningur í uppáhaldi hjá honum þegar kemur að styttri gönguferðum. „Fjallið stendur á milli Fljótshlíðar og Rangárvalla og sést víða að, enda er víðsýnt þaðan. Fjallið er 678 metra hátt. Hækkunin frá fjallsrótum upp á topp er um 500 metrar og tekur gangan upp um 1-1,5 tímar. Gangan er því svipuð að lengd og erfiðleikastigi og að ganga upp að Steini í Esju sem margir þekkja. Af fjallinu er mjög víðsýnt á góðum degi. Þar blasa við Eyjafjallajökull, Mýrdalsjökull, Tindfjallajökull, Hekla, Vestmannaeyjar og Landeyjarnar svo eitthvað sé nefnt.

Gaman er að lengja gönguna þegar upp er komið og ganga á alla tinda fjallsins en þeir eru í raun fimm þrátt fyrir nafn fjallsins. Reikna má með að slík hringganga taki um klukkutíma til viðbótar við áðurnefndan uppgöngutíma,“ segir Helgi.

Útsýnið er fagurt af toppi Þríhyrnings.

Fjölbreyttar og frægar gönguleiðir

„Annað fjall eða fell sem vert er að nefna er Stóri-Dímon á Markarfljótsaurum og er mjög skemmtilegt og létt að ganga á það. Fjallið er ekki nema 178 metra hátt og því vel viðráðanlegt fyrir bæði börn og fullorðna. Greinilegur göngustígur er upp á fjallið og þaðan er víðsýnt yfir Markarfljótsaura, auk þess sem Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull, Tindfjöll og Þríhyrningur blasa þar við.

Svæðið er ríkt af fallegum gönguleiðum og af þeim er Fimmvörðuháls ein sú frægasta.

Af öðrum gönguleiðum í sveitarfélaginu má nefna hina einstöku leið yfir Fimmvörðuháls, það er frá Skógum yfir í Þórsmörk milli Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls. Leiðin er afar falleg, um 25 kílómetrar. löng og því hentug dagganga. Þá eru að sjálfsögðu góðar og fallegar gönguleiðir af ýmsu tagi í Þórsmörk sjálfri. Ekki má svo gleyma fjallaskíðamöguleikunum í Rangárþingi eystra en á Eyjafjallajökli og Tindfjallajökli eru frábærar aðstæður til fjallaskíðaiðkunar.

Þetta er allt einungis brotabrot af því sem Rangárþing eystra hefur upp á að bjóða í útivist og göngum,“ segir Helgi.