Segja má að á árinu 2020 hafi stafræn þróun verið á fimmföldum hraða miðað við undanfarin ár. Þjónustuveitendur hafa þurft að mæta nýjum áskorunum til að geta áfram veitt viðskiptavinum sínum þjónustu sem áður krafðist þess að þeir kæmu í eigin persónu til að undirrita ýmis skjöl. Í dag hafa flestir Íslendingar sjálfir prófað að undirrita skjöl rafrænt og þar með getað sleppt óþarfa ferðalögum. Kröfur neytenda til þjónustu hafa aukist í takt við þessar breytingar þannig að þeim finnst ekki lengur sjálfsagt að þurfa að mæta eitthvert þegar rafrænar undirskriftir eru orðnar almennari. Rafrænar undirskriftir eru að verða „standardinn“ í því hvernig fyrirtæki eiga viðskipti sín á milli og gera þeim einnig kleift að veita viðskiptavinum sínum betri þjónustu.

Dokobit er hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar lausnir fyrir rafrænar undirskriftir og fleiri traustþjónustur. Á síðustu árum hefur uppbygging félagsins verið hröð og viðskiptin nánast fimmfölduðust á síðasta ári. Félagið er núna með skrifstofur í fjórum löndum, styður við rafræn skilríki frá 14 löndum í Evrópu og yfir milljón skjöl eru undirrituð rafrænt með Dokobit í hverjum mánuði.

„Með rafrænum undirskriftum geta fyrirtæki veitt viðskiptavinum sínum þægilegri og betri þjónustu en áður,“ segir Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi. „Rafrænar undirskriftir eru ekki einungis þægilegri, þær eru einnig öruggari en handritaðar undirskriftir, þar sem erfiðara er að falsa og eiga við þær.“

Dokobit styður Auðkenni appið

„Hingað til hafa Íslendingar notað rafræn skilríki á SIM kortum og snjallkortum, en fljótlega munu neytendur sjá nýja kynslóð af rafrænum skilríkjum í appi, Auðkenni appinu, sem Dokobit mun styðja að fullu,“ segir Ólafur Páll. „Dokobit styður nú þegar þessi form skilríkja og því verður einfalt fyrir þjónustuveitendur að innleiða þessi nýju skilríki inn í sínar eigin stafrænu lausnir.

Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi og Ragna Klara Magnúsdóttir, yfirmaður sölu og markaðsmála Dokobit á Íslandi, eru spennt fyrir þeim miklu breytingum á rafrænum skilríkjum sem eru framundan. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Lausnin byggir á tækni sem kölluð er „split-key technology“ sem þýðir að aðeins hluti einkalykilsins í rafrænu skilríkjunum er á handtækjum notenda og þess vegna ekki jafn mikil áhætta fólgin í að þurfa að treysta á fullkomna varðveislu skilríkjanna,“ útskýrir Ólafur Páll. „Með þessari tækni geta rafræn skilríki á þessu formi mætt kröfum laga fyrir „öruggan undirskriftarbúnað“ (e. QSCD – Qualified Signature Creation Device) í samræmi við lög nr. 55/2019 (eIDAS).

Fyrir neytendur þýðir þetta að þeir geta fljótlega sótt sér app í símann sinn eða spjaldtölvu og haft uppsett samtímis á fleiri en einu tæki. Í staðinn fyrir að slá inn símanúmer til að auðkenna sig nota þeir kennitölu til að innskrá sig hjá ýmsum þjónustuveitendum,“ segir Ólafur Páll. „Notkun þjónustunnar er einnig áreiðanlegri og hraðari í appi, þar sem ekki eru lengur notuð SMS skilaboð fyrir samskipti við rafrænu skilríkin.

Námsmenn og aðrir Íslendingar sem eru búsettir erlendis þurfa heldur ekki lengur að vera með íslensk símanúmer til þess að geta nálgast bankaþjónustu, opinbera þjónustu og fleira og erlendir stjórnarmenn í íslenskum fyrirtækjum geta á einfaldari hátt undirritað samþykktir og önnur viðskiptaskjöl með fullgildum rafrænum undirskriftum án þess að hafa íslenskt símanúmer,“ bendir Ólafur Páll á. „Öll þessi uppbygging mun gera Ísland samkeppnishæfara og einfalda örugg, alþjóðleg viðskipti.“

Með vefþjónustu Dokobit geta þjónustuveitendur á einfaldan hátt innleitt app skilríkin í sínar eigin stafrænu lausnir til að auka öryggi og bæta upplifun notenda.

Hvað er rafræn undirskrift?

„Í grunninn er rafræn undirskrift rafrænt fingrafar sem notað er til að tengja á sannanlegan hátt rafrænu undirskriftina við þann sem skrifar undir. Hægt er að undirrita skjöl rafrænt á hvaða formi sem er, en algengast er að nota PDF skjöl,“ útskýrir Ólafur Páll. „Fullgildar rafrænar undirskriftir verja skjölin á þann hátt að ekki er hægt að breyta innihaldi þeirra eftir að þau hafa verið undirrituð. Ef skjölunum yrði breytt yrði það auðmerkjanlegt þar sem undirskriftirnar brotna.“

Appið frá Dokobit sendir tilkynningu í símann þegar undirskrift er lokið. MYND/AÐSEND

Eru rafrænar undirskriftir löglegar?

„Fullgildar, rafrænar undirskriftir hafa sömu réttaráhrif og handritaðar undirskriftir samkvæmt lögum númer 55/2019,“ segir Ólafur Páll. „Lögin eru innleiðing á Evrópureglugerð númer 910/2014 sem oftast er nefnd eIDAS reglugerðin. Sömu lög tryggja jafnframt að ekki megi neita að fullgild, rafræn undirskrift fái réttaráhrif af þeirri einu ástæðu að hún sé á rafrænu formi.

Dómstólar eru í dag byrjaðir að móttaka rafrænt undirrituð og innsigluð skjöl af ýmsum gerðum. Kaupsamninga, lánasamninga, þjónustusamninga, ráðningarsamninga, umboð, uppsagnarbréf, ársreikninga fyrirtækja hjá endurskoðendum, breytingar á samþykktum félaga, samþykktir á tilboðum, stefnur og greinargerðir lögmanna og ýmislegt fleira,“ segir Ólafur Páll.

eIDAS vottun Dokobit

„Dokobit er með eIDAS vottun sem fullgildur traustþjónustuveitandi í samræmi við lög númer 55/2019 fyrir fullgildar, rafrænar undirskriftir og fleiri traustþjónustur,“ segir Ólafur Páll. „Með vottuninni er staðfest að lausnir Dokobit mæta öllum tæknilegum og lagalegum kröfum sem gerðar eru til fullgildrar traustþjónustu. Dokobit er skráð á EU TSL traustlista hjá ESB sem fullgildur traustþjónustuveitandi. Vottunin tryggir áreiðanleika og réttaráhrif undirskrifta frá Dokobit.

Þjónustuveitendur á Íslandi hafa á aðdáunarverðan hátt mætt miklum áskorunum á árinu með aðlögunarhæfni og tileinkað sér nýjar aðferðir og lausnir til þess að bjóða þjónustu sína. Hugarfar og kröfur neytenda eru einnig búnar að breytast og aldrei áður höfum við haft ríkisstjórn sem setur jafn mikið vægi í nýsköpun eins og í dag, sem hefur sýnt sig í fjölda aðgerða. Miðað við þá stefnu sem við höfum sett okkur held ég að næsta ár eigi eftir að verða sérstaklega spennandi og það er margt í vinnslu í okkar smiðjum sem ég hlakka til að sjá verða að veruleika á árinu,“ segir Ólafur Páll að lokum.


Hægt er að nálgast upplýsingar um lausnir Dokobit á vefnum www.dokobit.is.