Markmið stjórnvalda í loftslagsmálum eru metnaðarfull og gegnir flutningskerfi raforku stóru hlutverki við að ná markmiðum Íslands varðandi Parísarsamkomulagið. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum er safn 50 aðgerða þar sem orkuskipti eru mikilvægur þáttur.

„Við hjá Landsneti erum meðvituð um þá ábyrgð sem okkar hlutverk er hvað varðar orkuskipti og viljum ekki bara standa okkur í eigin kolefnisvinnu, heldur verða til þess að fleiri fyrirtæki og landið í heild nái árangri,“ segir Engilráð Ósk Einarsdóttir, verkefnastjóri gæðamála og samfélagsábyrgðar hjá Landsneti.

„Ein af forsendum þess að við getum farið í orkuskipti hér á landi er aukin flutningsgeta. Í grænbók um orkumál sem kynnt var í mars 2022 komu fram sex sviðsmyndir þar sem kemur fram hversu mikla umfram orku mun þurfa í orkuskipti. Flutningskerfið okkar í dag er fulllestað, því höfum við verið að leggja áherslu á að uppfæra kerfið og þannig gera það tilbúið fyrir orkuskiptin. Aukin eftirspurn fylgir orkuskiptum og því mikilvægt að geta flutt orkuna á sem hagkvæmastan hátt. Við uppbyggingu, rekstur og viðhald mannvirkja er tekið tillit til landslags og verndun náttúru á hverjum stað. Mikilvægt er að huga að náttúruvernd samhliða framkvæmdum, að þekkja áhrifin sem starfsemi okkar hefur á umhverfi okkar,“ segir Engilráð.

Kolefnishlutlaust Landsnet 2030

Engilráð segir að Landsnet hafi sett sér stefnu í samfélagsábyrgð og umhverfisstefnu.

„Í þessum stefnum eru skilgreindar áherslur okkar og markmið ásamt helstu verkefnum. Helsta verkefnið okkar er að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2030. Það þýðir að binding kolefnis verður að minnsta kosti jafn mikil og losun þess. Til að ná þessu markmiði höfum við gert aðgerðaáætlun þar sem tekið er tillit til fjölmarga þátta í starfsemi fyrirtækisins og við sett okkur tölusett markmið á hvern þátt. Við erum jafnframt með öflugt umbótastarf, markmið að lágmarka umhverfisáhrif í rekstri fyrirtækisins og vinna með umhverfisatvik. Ávallt er unnið í því að gera betur í dag en í gær enda umbótastarf mjög mikilvægt í starfsemi Landsnets. Við erum með vottað umhverfisstjórnunarkerfi,“ segir Engilráð.

„Árlega greinum við frá kolefnisspori okkar þar sem rekstrinum hefur verið skipt upp í beina og óbeina losun. Í útreikningum á kolefnisspori okkar eru teknir losunarþættir sem falla til við starfsemina. Losunarþættir fyrirtækisins hafa verið greindir og skipt upp í umfang 1, 2 og 3 eftir því hvort um beina losun er að ræða, eða óbeina. Fylgst er með öllum losunarþáttum í græna bókhaldinu okkar, langtíma- og skammtímamarkmið sett og umbætur eru gerðar reglulega,“ segir Engilráð.

Losunarbókhald frábrugðið

Hún segir að losunarbókhald Landsnets sé nokkuð frábrugðið því hjá öðrum fyrirtækjum.

„Sem dæmi um óbeina losun eru flutningstöp en rúmlega 2% tapast af þeirri raforku sem er sett inn í kerfið á leiðinni til notenda. Þessi tala mun að öllu líkindum hækka með aukinni orkunýtingu og því mikilvægt að unnið sé að styrkingu kerfisins samhliða. Með því að draga úr orkusóun þá aukum við nýtingu á endurnýjanlegri orkuauðlind þjóðarinnar og getum við sem samfélag skipt út jarðefnaeldsneyti fyrir raforku.

Helsta uppspretta beinnar losunar hjá Landsneti er vegna leka á SF6-gasi en það er gas sem er notað sem einangrunarmiðill í rafbúnaði í tengivirki. Þar sem Landsnet hefur sett sér kolefnishlutleysisstefnu þá spilar gasið stórt hlutverk. Í innkaupum á búnaði er það reiknað inn í kolefnisverð og borin saman verðtilboð með tilliti til þess. Jafnframt hefur nýsköpun og þróun á tengibúnaði verið mikil og höfum við hjá Landsneti verið að fylgjast með þróun á nýjum lausnum án SF6 gass sem einangrunarmiðils. Aðrir losunarþættir eru, líkt og hjá öðrum fyrirtækjum, til dæmis eldsneyti á bíla og úrgangur,“ segir Engilráð og bætir við:

„Auknar tækninýjungar, stöðugar umbætur og styrking á flutningskerfinu mun leiða til minnkunar á kolefnisspori okkar hjá Landsneti og við erum nær því að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum ásamt Parísarsamkomulaginu.“