„Okkur fannst vanta sérverslun með mikið úrval af vönduðum rafhlaupahjólum sem hafa meiri drægni, drifkraf og fjöðrun, og með mikla áherslu á gæði og góða þjónustu við viðskiptavini,“ segir Guðni Kristjánsson, framkvæmdastjóri netverslunarinnar Þruman.is.

Þruman var stofnuð í maí 2019 og sérhæfir sig í hágæða rafhlaupahjólum, en að baki Þrumunnar er Actus, rótgróin heildverslun síðan 2011.

„Þruman.is hefur unnið hug og hjörtu hjólafólks, og virkilega gaman og ánægjulegt hvað allir hafa tekið vel í þetta hjá okkur. Við höfum ekki enn auglýst búðina okkar en höfum þó hreinlega ekki undan. Þeir sem koma til okkar nefna yfirleitt nafn á einhverjum sem hefur verslað við okkur áður, eða að þeim hefur verið bent á okkur, og það skemmtilega er að maður man yfirleitt vel eftir viðskiptavinunum sem þeir nefna, þótt þeir séu orðnir ansi margir,“ segir Guðni kátur.

Kaabo Skywalk­er rafhlaupahjólin eru nett og meðfærileg með drifkraft/vött frá 350 til 1.000W og kosta frá 69.990 krónum.

Rafhlaupahjól sem slá í gegn

Úrval rafhlaupahjóla hjá Þrumunni er mikið og höfðar til allra óháð aldri og kyni. Þar tróna hæst hágæða rafhlaupahjól frá Kaabo, sem er án efa einn af stærstu framleiðendum hágæða rafhlaupahjóla í heiminum, með drægni allt að 150 kílómetra á einni hleðslu.

„Kaabo hefur sent frá sér mörg módel sem hafa orðið algjörir smellir um allan heim og fengið frábæra dóma. Þar má nefna Kaabo Mantis 10-línuna, Wolf Warrior-línuna og Skywalker-línuna. Kaabo hannar og framleiðir sín eigin hjól og selur þau með frábærum árangri í þrjátíu löndum Evrópu, Ameríku og Asíu,“ greinir Guðni frá.

Hann lýsir betur þremur frábærum hlaupahjóla-línum Kaabo.

„Kaabo Skywalker-línan er sérlega flott. Hennar aðalsmerki eru nett og meðfærileg hjól með drifkraft/vött frá 350 til 1.000W og kosta frá 69.990. En þeim mun hærri vött þeim mun meiri drifkraftur, hraði og burðargeta upp brekku.

Mantis 10 er með mjúka fjöðrun og frábæra aksturseiginleika.
Kaabo Mantis-línan er með drifkraft/vött frá 800 til 2x1.000W.

Kaabo Mantis-línan gengur út á mjög mjúka fjöðrun og frábæra aksturseiginleika með drifkraft/vött frá 800 til 2x1.000W og kosta frá 139.990.

Kaabo Wolf Warrior-línan er eitthvað allt annað en sést hefur áður. Hjólið er hannað í svakaleg átök, eða til að komast lengra, hvort sem það er utanvega eða á malbiki. Drifkraftur/vött eru frá 2x1.100 til 2x1.500W og kosta frá 219.990.“

Kaabo Wolf Warrior er rafhlaupahjól sem er hannað í mikil átök og til að komast lengra.

Engin bið eftir verkstæðisvinnu

Þegar rafhlaupahjól eru valin til kaups segir Guðni einkar mikilvægt að kynna sér þjónustuna á bak við kaupin.

„Þá er ekki nóg að verslunin sé að standa sig vel því þjónustuverkstæðið þarf að eiga alla varahluti til svo hægt sé að þjónusta hjólið ef eitthvað kemur upp á. Við höfum heyrt miður skemmtilegar sögur frá viðskiptavinum af fólki sem hefur verið stopp í nokkra mánuði vegna langs biðtíma eftir varahlutum, sem er algjörlega óásættanlegt. Við hjá Þrumunni fjárfestum því í mjög stórum varahlutalager áður en við byrjuðum, til að geta tekist á við tjón og skemmdir sem geta mögulega komið upp á, en hvort við höfum þar skotið aðeins yfir markið og pantað hluti sem munu aldrei fara er svo annað mál og ekki ólíklegt,“ segir Guðni og hlær.

Guðni situr hér glæsilegt og vandað Super Soco-rafmótorhjól sem eru kærkomin og umhverfisvæn nýjung í hjólakosti á Íslandi. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Finna rétta hjólið fyrir alla

Á næstu dögum opnar Þruman sýningarsal í Hátúni 6B. Þar verður hægt að skoða úrval rafhlaupahjóla frá Kaabo og rafmótorhjól frá Super Soco, sem Þruman tók nýlega við á Íslandi. Á sama stað verður hægt að koma og fá græjuna þjónustaða á þjónustuverkstæði Þrumunnar.

„Við erum ákaflega spenntir fyrir Super Soco sem eru mjög vönduð rafmagnsmótorhjól og fást í nokkrum útgáfum sem flest eru götuskráð á blá númer en eitt er skráð á hvítt númer,“ upplýsir Guðni.

Þruman er einnig með ýmsa gagnlega aukahluti og lausnir fyrir rafhlaupahjól, svo sem þjófavörn í mörgum útgáfum, sterka lása, ljós og margt fleira.

„Það er mikilvægt að velja rétta hjólið, en það getur alveg verið snúið þegar maður er að kaupa sitt fyrsta hjól. Þar komum við sterkir inn. Við verjum góðum tíma með fólki og greinum heiðarlega frá því hvað hentar hverjum og einum, en ekki því sem hentar okkar hagsmunum eins og því miður margir gera,“ segir Guðni.

Hann nefnir það helsta sem þarf að hafa í huga við kaupin.

„Það sem fólk hefur yfirleitt klikkað á í kaupum á rafhlaupahjólum eru vöttin eða drifkrafturinn sem þarf til að komast upp brekkur. Við erum jú misþung og notum hjólin við misjafnar aðstæður og þá skiptir þetta miklu máli,“ segir Guðni.

„Annað sem hafa þarf í huga er drægnin á hjólinu, sumsé hvaða vegalengd hjólið þarf að komast á einni hleðslu. Þá skipta fjöðrun og bremsur líka miklu máli þegar notkun á hlaupahjóli er mikil.“

Þruman er til húsa í Hátúni 6B og mun opna þar sýningarsal á allra næstu dögum. Allar nánari upplýsingar á thruman.is og á Facebook-síðu vefverslunarinnar.