Að sögn Erlu Símonardóttur, stofnanda Quarter, hefur þörfin fyrir þjónustu af þessu tagi alltaf verið til staðar þó hún hafi aukist síðastliðin ár. „Að mínu mati er ástæðan tvíþætt, það er hraði og yfirsýn. Atvinnuumhverfið í dag er hraðara og allt þarf að vera á hreinu mun fyrr. Þjóðfélagið er líka að breytast með aukinni heilsuvitund og styttingu vinnuvikunnar.

Þjónusta Quarter er hentugur kostur fyrir framkvæmdastjóra í litlu fyrirtæki sem hefur margt á sinni könnu. Við aðstoðum meðal annars við áætlanagerð, greiningar, stofnun fyrirtækja, val á fjárhagskerfum og uppsetningu þeirra, tiltekt í eldra bókhaldi, ráðgjöf um fjármögnun og samskipti við fjármálastofnanir vegna slíks. Mín reynsla er sú að viðskiptavinir vilja hafa aðila í þessu með yfirsýn, sem er einmitt það sem við bjóðum. Við erum eins konar „one stop shop“ í öllu sem við kemur fjármálum lítilla og stækkandi fyrirtækja.“

Lítið verður stórt

Quarter er ekki gamalt fyrirtæki en að baki liggur gríðarleg reynsla og margra ára þekking. „Á einu starfsári höfum við tekið við fjármálaþjónustu fimm fyrirtækja og sífellt fleiri bætast í hópinn. Markmiðið er að kynnast hverju og einu fyrirtæki og sérþörfum þess og er ætlunin að stofna til langtímasambands. Lausnir okkar henta best minni fyrirtækjum sem eru ekki enn komin á það stig að ráða inn fjármálastjóra í fullt starf. Okkar þjónusta er hagkvæmari og markmiðið er að brúa bilið fyrir viðskiptavini frá því að reka lítið fyrirtæki yfir í að taka af skarið og stækka.“

Skilvirkni og beinn aðgangur

„Við leggjum mikið upp úr því að spara viðskiptavinum tíma og auka skilvirkni. Þá kappkostum við að fjármál viðskiptavina okkar verði eins lítið vesen fyrir stjórnendur fyrirtækjanna og hægt er. Við kennum stjórnendum áhrifaríkar aðferðir sem spara tíma í bókhaldsvinnu og fleiru. Í þjónustu okkar notumst við mikið við rafrænan samskiptamáta til þess að minnka óþarfa skutl, sem er sérstaklega mikilvægt um þessar mundir. Einnig notum við nýjustu fjárhagskerfi til þess að setja upp beinan aðgang að bókhaldsupplýsingum og sjálfvirkum skýrslum fyrirtækja. Þessu fyrirkomulagi fylgja margir kostir eins og hraður svartími ásamt beinum aðgangi líkt og viðskiptavinurinn væri sjálfur með fjármálastjóra eða deild.“

Markmiðið er svo að halda reglulega ókeypis námskeið og ráðgjafartíma á netinu. Fyrir þá sem vilja fylgjast með þeim er gott að fara inn á heimasíðu Quarter, quarter.is, og skrá sig á póstlistann.