Príma er mest selda kryddið á Íslandi og við seljum það raunar um allan heim,“ segir Gunnar Tryggvi Halldórsson, gæðastjóri Vilko, og tekur dæmi um gómsætt krydd sem nú fer sigurför um heiminn.

„Við fáum fyrirspurnir oft í viku um kartöflukrydd Príma, út á franskar kartöflur. Þá hafa ferðamenn heimsótt Ísland, fengið sér franskar og fundið eitthvað alveg sérstakt sem þeir finna ekki ytra þegar heim er komið. Því hafa þeir samband og panta sér kryddið út,“ upplýsir Gunnar.

Skemmtilegasta sagan inniheldur indversk hjón sem kolféllu fyrir kartöflukryddinu góða.

„Þau settust inn á veitingastað hér á Blönduósi og fengu sér franskar með vel af kartöflukryddi. Þegar þeim var sagt að kryddið væri framleitt í sama bæ komu þau í heimsókn og keyptu sér fimm kíló af kartöflukryddi sem þau tóku með heim til Indlands þar sem öll krydd heimsins verða til,“ segir Kári Kárason, framkvæmdastjóri og brosir.

Krydd sem allir elska

Kryddlína Príma samanstendur af 139 kryddum fyrir matseld og bakstur. Nú fást líka lífræn krydd í verslunum Krónunnar sem er skemmtileg nýjung og mun fara víðar.

„Fram undan er indæll grilltími sumarsins og við grillmennskuna er ómissandi að bragðbæta matinn með nýjum kryddum Príma; Grillborgaranum og Grillmeistaranum. Með nýju grillkryddunum svörum við óskum neytenda um fleiri og grófari kryddblöndur á grillmat og útkoman er ný, fersk og ómótstæðileg blanda,“ segir Kári sem þróar kryddblöndur Príma í góðu samstarfi við birgja fyrirtækisins ytra.

„Í farvatninu eru æðislega spennandi krydd en við blöndum líka gamalgrónar krydduppskriftir enda talsvert um kryddblöndur sem Íslendingar hafa tekið ástfóstri við, eins og sítrónupipar sem er einstaklega vel heppnuð kryddblanda og gott dæmi um krydd sem er sérframleitt eftir okkar uppskrift og óskum,“ útskýrir Gunnar.

Óvænt tilbrigði við krydd Príma verða til hjá fylgjendum fyrirtækisins á samfélagsmiðlum, eins og þetta dúó af piparblöndu og hvítlaukspipar sem gerir kartöflu- og grænmetisrétti að einskærri sælkeraupplifun.

Yfir 300 samlokuuppskriftir

Príma er í góðum tengslum við yfir fjögur þúsund fylgjendur sína á samfélagsmiðlum.

„Þaðan fáum við ríkulegar hugmyndir um kryddnotkun landsmanna og sjáum fólk nota óvæntar kryddblöndur á til dæmis kartöflur og grænmeti. Þá verða til trend og tískusveiflur sem við sjáum fljótt í sölutölum og grillsnapparar nota gjarnan allt önnur krydd en við lögðum upp með en þannig hefur til dæmis komið í ljós að lambakjötskryddið er sturlað gott út á laxinn,“ upplýsir Gunnar sem hefur líka spurt velunnara Príma á samfélagsmiðlum hvaða krydd þeir noti á samlokurnar sínar.

„Við þeirri spurningu fengum við um 300 svör og því eru nú til um 300 uppskriftir af samlokum með Príma-kryddi á einni færslu. Þannig verða til óvænt tvist úr ólíklegustu kryddblöndum, spánnýr vinkill á notkun kryddsins og um leið unaðsleg bragðupplifun þeirra sem njóta.“

Sjá nánar á vilko.is og á Facebook undir Prima krydd.