„Við erum tiltölulega nýbyrjaðar og erum lítið fyrirtæki. Við leggjum áherslu á persónulega þjónustu á þessum vettvangi,“ segir Guðný.
Þær kynntust í gegnum sameiginlega vinkonu. „Við erum ólíkar, með ólíkan bakgrunn og erum ólíkar persónur en við vinnum vel saman. Það er eins og við höfum alltaf þekkst. Það er svo dýrmæt vinátta. Maður heldur ekki að maður geti eignast svona góðan vin þegar maður er fullorðinn,“ segir Gréta.
Dýrmæt lífs- og starfsreynsla
Óhætt er að fullyrða að Guðný búi yfir mikilli reynslu. „Ég hef bakgrunn úr ýmsu og er búin að vera í heilbrigðiskerfinu frá því 1972. Ég er bæði hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og svo er ég líka djákni. Ég hef verið að þjóna lífinu alla mína tíð. Núna er ég komin á þennan endann, maður er orðinn þroskaður starfsmaður,“ segir Guðný og hlær.
„Reynslan sem Guðný er með er ekkert lítið verðmæti inn í lífið,“ segir Gréta sem er ekki síður reynslumikil. „Ég á fjögur börn, tíu barnabörn og sama gamla manninn síðan ég var nítján ára,“ segir hún og skellir upp úr.
„Ég menntaði mig sem hársnyrtir þegar ég var yngri og hef réttindi sem slíkur. Þetta fylgir því náttúrulega, snyrting og það nýtist mér vel í þessu starfi í dag. Ég er líka búin að fara í gegnum listnám og er lærður leirsmiður. En ég vona að þegar upp verður staðið verði mín minnst fyrir að vera góð mamma því það er það sem hefur skipt mig mestu máli í lífinu. Það eru þessi börn sem ég á, þetta barnalán. Annað skiptir mig minna máli.“
Fyrirtæki með stórt hjarta
Gréta segir mikið þakklæti fylgja starfi útfararstjóra. „Sagan á bak við hverja manneskju sem kveður, hún er svo stór. Skarðið sem hver og einn skilur eftir. Manni þykir vænt um að vera treyst fyrir þessu starfi, það er ekkert sjálfsagt.“
Þjónusta af þessu tagi sé afar persónuleg. „Við höfum einsett okkur að vera mjög persónulegar í okkar störfum og höldum þétt utan um fólkið okkar. Við lítum mikið eftir smáatriðum og að fagurfræðin og virðingin sé sýnileg. Við erum lítið fyrirtæki en með stórt hjarta. Við leggjum allt okkar í þetta. Það sem við erum að bjóða fram er í rauninni bara við sjálfar,“ segir Gréta.
„Auðvitað erum við með öll tæki og tól sem til þarf en við erum ekki með neina yfirbyggingu. Við bjóðum fólki að koma heim til okkar eða förum heim til syrgjenda. Bara hvað sem hentar hverjum og einum. Sumum finnst erfitt að fara út af heimilinu á meðan öðrum finnst gott að komast í annað umhverfi.“
Hvert orð hefur þýðingu
Guðný segir nauðsynlegt að vera meðvituð um sitt hlutverk. „Við leggjum mesta áherslu á að þjóna fallega og vera til staðar en standa samt á hliðarlínunni. Við erum ekki í neinu aðalhlutverki. Þetta er svipað eins og í yfirsetu í fæðingu. Þar er maður til hliðar en hefur samt stjórn á öllu sem er að gerast.“
Þá sé afar brýnt að sýna nærgætni. „Þetta er viðkvæm þjónusta, það má segja að það þurfi að vanda sig mikið. Þetta er svolítið eins og með konurnar sem eru nýbúnar að eiga, þegar maður hefur sagt eitthvað um barnið þá muna þær það oft alla ævi. Það þarf dálítið að gæta orða sinna. Orð eru svo mikilvæg í þessum aðstæðum af því að fólk er svo opið. Eitt orð getur verið endalaust dýrmætt eða særandi.“
Gréta tekur undir og segir mikilvægt að geta lesið í fólk og aðstæður. „Við þurfum að geta hlustað á fólk og líka heyrt það sem er ekki sagt. Við erum þarna til að leiða fólk og láta daginn, þrátt fyrir allt, vera í minningunni fallegan.“
Hægt er að hafa samand á borgutfor.is.
Netfang: borg@borgutfor.is.
Sími: 869 7522 eða 770 0188.