Áður var verksmiðjan starfandi í Helguvík, eða frá árinu 1998. Á undanförnum árum hefur starfsemin á Grundartanga tekið miklum breytingum, undir stjórn Brynju Silness framkvæmdastjóra. Mikil vinna hefur verið lögð í framþróun, bestun framleiðsluferla og öryggi á starfsstað. Þetta hefur skilað bættri nýtingu endurvinnsluferla og gert verksmiðjuna að enn öruggari starfsstað fyrir þá sem þar starfa.

„Fyrirtækið er nýsköpunarfyrirtæki í stöðugri þróun. Við gerum ríkar kröfur til bæði umhverfis- og öryggismála, en það má með vissu segja að Alur álvinnsla hafi mætt þeim kröfum og gott betur,“ segir Brynja.

Árlega tekur fyrirtækið á móti 7 þúsund tonnum af álgjalli til endurvinnslu frá álverum landsins.

„Úr þessu eru framleidd um 3.300 tonn af áli, sem fara til baka inn í framleiðsluferli álveranna. Alur hefur samkvæmt starfsleyfi heimild til að taka á móti 15.000 tonnum árlega og horft er til þess að nýta þær heimildir enn betur í framtíðinni,“ upplýsir Brynja.

Alur álvinnsla er nýsköpunar­fyrirtæki í stöðugri þróun. Það tekur árlega við 7.000 tonnum af álgjalli til endurvinnslu frá álverum landsins. MYND/BIG

Best vaktaða iðnaðarsvæðið

Ál er dýrmætur málmur og ávinningur endurvinnslu ótvíræður.

„Orkuþörf endurvinnslu nemur aðeins 5 prósentum af þeirri orku sem þarf við frumframleiðslu áls. Álið heldur öllum sínum gæðum við endurvinnsluferlið og eru engin takmörk fyrir því hversu oft er hægt að endurvinna það. Eitt tonn af endurunnu áli sparar um tvö tonn af súráli og 1,65 tonna losun koltvísýrings (CO2). Á heimsmælikvarða sparar því endurvinnsla áls meira en 100 milljóna tonna losun á koltvísýringi árlega,“ greinir Brynja frá.

Alur álvinnsla framleiðir árlega um 3.300 tonn af áli sem fara aftur til baka inn í framleiðsluferli álveranna. MYND/BIG

Samhliða uppbyggingu í verksmiðjunni á Grundartanga hefur verið unnið að úrbótum í umhverfismálum hjá Al álvinnslu.

„Við fjárfestum í búnaði sem tryggir að álagnir skili sér í endurvinnsluferilinn og hámarkar nýtingu þess efnis sem unnið er með. Bættir ferlar hafa minnkað úrgang. Einnig hefur fyrirtækið komið upp flokkunarkerfi sorps í samstarfi við Terru,“ segir Brynja.

Alur álvinnsla tilheyrir sameiginlegri umhverfisvöktun fyrirtækja á iðnaðarsvæði Grundartanga í Hvalfirði.

„Svæðið er eitt best vaktaða svæði á landinu en umhverfisvöktunin nær yfir 100 mæliþætti í lofti, á sjó og ferskvatni, húsdýrum og gróðri í og við Hvalfjörð. Tilgangurinn er að ganga úr skugga um að starfsemi fyrirtækja á Grundartanga hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið,“ útskýrir Brynja. n

Nánari upplýsingar um vöktun er að finna á vef Als álvinnslu, alur.‌is, og á vef Umhverfisstofnunar, ust.‌is.

Ál er dýrmætur málmur. Á heimsmælikvarða sparar endurvinnsla áls meira ein 100 milljón tonna losun á koltvísýringi. MYND/BIG