Ég lærði fyrst dáleiðslu í Skotlandi árið 2009. Hafði lengi haft áhuga en þarna fann ég loks dáleiðslunámskeið og tíma til að fara á það. Það var frábær reynsla að kynnast dáleiðslunni. Alla tíð síðan hefur dáleiðslumeðferð átt hug minn allan.

Ég hef síðan sótt mér þekkingu og reynslu víða, ekki síst til Roy Hunter og dr. Edwin Yager, og ég hef sífellt endurbætt þær meðferðir sem ég hef notað,“ segir Ingibergur.

„Nokkur undanfarin ár hef ég náð ótrúlega góðum árangri í meðferðarstarfi og hef sameinað öflugustu meðferðirnar í eina meðferð. Ég kom svo fram í sjónvarpsþættinum „Undir yfirborðið“ þar sem fjallað var um dáleiðslumeðferð á Hringbraut haustið 2019 sem vakti svo mikla athygli að bókunum rigndi inn hjá mér. Ég þurfti fljótlega að loka fyrir nýjar bókanir en er enn að vinna úr biðlistanum sem varð til. Mér fannst ég þurfa að bregðast við þessari miklu þörf fyrir meðferðardáleiðslu og í lok nóvember í fyrra útskrifaði ég 16 nýja klíníska dáleiðendur sem ég kenndi hugræna endurforritun. Námskeiðið tókst svo vel að þau eru öll byrjuð að starfa við meðferðardáleiðslu, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi. Núna er von til þess að hægt sé að anna betur eftirspurninni eftir meðferð.“

Oft gerast kraftaverk

Ingibergur heldur áfram: „Meðferðarstarfið sjálft er mjög krefjandi en um leið mjög gefandi. Dáleiðandinn fer í léttan trans með þeim dáleidda og í þessum sameiginlega transi gerast oft kraftaverk.

Hugræn endurforritun tekur á mörgum sviðum persónuleikans. Fyrst og fremst er unnið með hinum innbyggða lækni sem við öll höfum. Neikvæð afrit af öðru fólki sem tala til meðferðarþegans í huganum eru fjarlægð og unnið með persónuþáttunum sem skiptast á um að vera „ég“,“ segir Ingibergur.

„Það verða oft ótrúlegar breytingar á fólki þegar það losnar við orsakir vandamálanna. Mjög margir tala um að þeir hafi öðlast nýtt líf.“

Hverjir geta lært dáleiðslu?

Aðspurður um hvers konar fólk geti lært dáleiðslu og orðið góðir meðferðardáleiðarar segir Ingibergur: „Þau sem koma í Dáleiðsluskóla Íslands eru fjölbreyttur hópur. Flestir eru á miðjum aldri, fólk með lífsreynslu. Stærsti hópurinn er hjúkrunarfræðingar, kennarar, félagsráðgjafar, sjúkraþjálfarar, nuddarar og aðrir sem vinna með fólk, en einnig fólk úr mörgum öðrum geirum þjóðfélagsins. Fólk sem vill hjálpa sjálfum sér og öðrum.

Námskeiðin eru mjög skemmtileg þótt þau séu krefjandi og hópurinn þjappast fljótt saman, enda skiptast á kennsla og æfingar þar sem nemendur dáleiða hver annan oft á dag. Ég segi stundum að við skilum mun betri útgáfum þessara einstaklinga út í þjóðfélagið eftir námskeiðin en þeim sem komu. Ég tel að allir okkar nemendur séu sammála um það.

Það er virkilega gaman að vinna með þeim sem koma á námskeiðin okkar. Ég hlakka til næsta grunnnámskeiðs, sem hefst 19. febrúar! Við komumst vel frá COVID-19 í fyrra með því að leigja stærri sal og áttum auðvelt með að fara eftir öllum sóttvarnareglum. Núna erum við með reynslu í þeim málum. Það er hægt að bóka námskeiðið á dáleiðsla.is.“

Axel Bragason segir þekkingu á dáleiðslu hafa breytt verulega nálgun sinni við iðkendur í starfi sínu sem íþróttaþjálfari. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Ef þú getur ekki orðið meistari í huganum er ólíklegt að þú verðir það í raun…

Axel Bragason er sjúkraþjálfari, íþróttaþjálfari og klínískur dáleiðandi auk þess að vera kennari hjá Dáleiðsluskóla Íslands.

Oft er hugurinn og hugarfar helsta hindrun þess að iðkendur nái hámarksárangri í sinni íþrótt, eða bara í lífinu yfirleitt. Þetta er okkur löngu ljóst, en þó er þessari hlið þjálfunar almennt ábótavant,“ segir Axel.

„Vissulega hefur orðið vakning í þessum málaflokki undanfarin ár og margt íþróttafólk leitar sér nú aðstoðar með hugarfar sitt með einum eða öðrum hætti, í þeim tilgangi að bæta árangur sinn.

Íþróttasálfræðingar hafa verið duglegir að sinna þessum einstaklingum og hópum, en það sem vantar að mínu mati upp á er þekking þjálfara á því hvernig hugurinn raunverulega virkar og hvernig má efla hugræna færni iðkenda og hugarfar. Einnig að þekkja það sem ber að varast í samskiptum við iðkendur. Ekki síst þegar iðkendur eru ungir og hafa takmarkaða gagnrýna hugsun. Þar er ábyrgð þjálfara mikil,“ heldur Axel áfram.

„Það breyttist verulega mikið hjá mér sjálfum sem þjálfara eftir að ég kynntist aðferðum dáleiðslunnar og þeim kenningum sem þar liggja að baki. Margar þjálfarafyrirmyndir sem ég hafði í mínum huga hurfu þaðan í kjölfarið og nálgun mín við iðkendur í dag er önnur en hún var.Ekki það að maður sé að dáleiða iðkendur lon og don á æfingum og það sé aðalmálið, heldur frekar að maður noti dáleiðsluþekkinguna til að efla iðkendur á jákvæðan og árangursríkan hátt.

Einnig nota ég dáleiðslu til að auka áhrif skynmyndaþjálfunar og annarra aðferða hugrænnar þjálfunar minna iðkenda og annarra sem til mín leita.

Dáleiðsla er einnig gagnleg þegar iðkandi á við einhvers konar frammi­stöðu­kvíða eða ótta að etja. Eða jafnvel til að finna falin hugræn vandamál sem hafa neikvæð áhrif á iðkandann og takmarkandi áhrif á frammistöðu hans.

Oft má sjá mjög dramatískar breytingar á iðkendum eftir dáleiðslumeðferð og gæti ég nefnt ótal dæmi þess.Gildir þá einu hvort verið er að tala um ungt, upprennandi íþróttafólk, atvinnu- eða áhugafólk.“

Álfheiður vonar að meðferðardáleiðsla verði nýtt betur í heilbrigðiskerfinu. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Gríðarlega öflug og hraðvirk verkfæri

Álfheiður Eva Óladóttir starfar sem klínískur dáleiðandi á eigin meðferðarstofu

„Ég hef alltaf haft áhuga á huganum og sálarlífi fólks og lærði sálfræði í Háskóla Íslands. Áhuginn á dáleiðslumeðferð vaknaði snemma en það var þó fyrir hálfgerða tilviljun að ég fór á námskeið í meðferðardáleiðslu hjá Dáleiðsluskóla Íslands í byrjun árs 2018,“ segir Álfheiður.

„Upphaflega hafði ég áhuga á að nota þessar aðferðir til eigin sjálfseflingar. Þegar ég kynntist dáleiðslunni fann ég fljótt að ég vildi ekki síst nota hana til að hjálpa öðrum. Ég upplifði þetta sem ákveðna köllun, ég yrði að fara í frekara nám og þjálfun og miðla þessari þekkingu áfram. Það varð ekki aftur snúið. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu gríðarlega öflug og hraðvirk þessi verkfæri eru og hvað það er hægt að nota þau á víðtækan hátt,“ heldur Álfheiður áfram.

„Ég hef persónulega fengið bata af ýmsum kvillum sem hafa hrjáð mig í gegnum tíðina, meðal annars losnaði ég alveg við vefjagigt. Einnig hef ég upplifað merkilegar og jákvæðar breytingar á sjálfri mér síðustu ár sem ég tengi alfarið við meðferðardáleiðslu. Mín skoðun er að það ætti að nýta þessar aðferðir víða innan heilbrigðiskerfisins og ég vona að vaxandi þekking og umræða um möguleika meðferðardáleiðslu muni ryðja þá braut.Í dag rek ég eigin stofu og tek á móti fólki með ýmis vandamál af sálrænum og sálvefrænum toga. Vandamálin eru eins fjölbreytt og þau eru mörg og ég hef virkilega notið þess að geta aðstoðað fólk til að ná betri líðan og bættum lífsgæðum.

Ég hef meðal annars unnið talsvert með fælni og kvíða. Mín reynsla er að meðferðardáleiðsla sé mjög góður valkostur í þeim efnum og það eru fjölmörg dæmi þess að einstaklingar hafa fengið verulegan bata af kvíða og fælni af ýmsum toga.

Ég hef einnig kennt á grunnnámskeiði Dáleiðsluskóla Íslands. Það hefur verið mjög lærdómsríkt og gefandi að kynnast öllum þessum frábæru nemendum og geta kynnt áhrifamátt og möguleika dáleiðslunnar fyrir þeim.“


Hægt er að bóka meðferðartíma hjá Álfheiði Evu á síðunni daleidsla.is/medferd.

Gísli Freyr Eggertsson flutti stofu sína á netið. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Dáleiðir í gegnum netið

Gísli Freyr Eggertsson er klínískur dáleiðandi og kennari við Dáleiðsluskóla Íslands.

„Það er svo magnað að í dag þarftu ekki einu sinni að fara út úr húsi til að fá dáleiðslutíma. Tæknin er orðin svo góð að það að sitja heima hjá sér í sínum uppáhaldsstól með síma og láta dáleiða sig getur verið jafn áhrifaríkt og að mæta á stofu hjá dáleiðara.“ segir Gísli Freyr hjá Verbis dáleiðslu sem, eftir að COVID kom upp, flutti sína stofu yfir á netið með góðum árangri.

„Mér fannst náttúrulega ekkert annað koma til greina eins og staðan var orðin. Raunin er svo að árangurinn er mjög svipaður og áður, helsti munurinn er sá að fólk þarf ekki að gera sér ferð til að komast á staðinn. Ég hef verið að fá fólk með alls konar vandamál eins og reykingar, lítið sjálfstraust og ofnæmi fyrir köttum og hundum svo dæmi séu tekin.“

Gísli hefur verið að læra dáleiðslu í um tuttugu ár og hefur lært hjá nokkrum af helstu dáleiðurum og meðferðardáleiðsluaðilum samtímans. Hann hjálpar einstaklingum að ná fram breytingum með aðstoð dáleiðslunnar.

„Dáleiðslan er fyrst og fremst verkfæri til að ná sambandi við undirvitundina og ná fram þeim breytingum sem meðferðarþeginn vill ná fram. Öllum okkar viðbrögðum er stjórnað af undirvitundinni og ef við breytum viðbrögðunum þá er vandamálið ekki til staðar lengur,“ segir Gísli Freyr.

Hann heldur áfram: „Dáleiðsla er jafn öflug í gegnum netið og skjáinn og þegar þú hittir fólk í eigin persónu. Ég þurfti alveg að venjast þessu aðeins en síðan hefur þetta ekki verið neitt mál. Fólki líður líka vel heima hjá sér, það er ekki á einhverjum ókunnugum stað og ekkert vandamál að finna út hvernig það á að koma sér á staðinn.“Gísli segir að einfalt sé að panta tíma.„Þú einfaldlega ferð á heimasíðuna, verbisdaleidsla.is, og velur lausan tíma og þegar kemur að honum þá hittumst við á net­spjalls­forritinu Zoom. Það er líka hægt að panta frían samtalstíma fyrst ef vill.“