„Ég greindist með krabbamein fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var mér sagt að ég gæti sótt hjálp í Ljósið. Ég var hikandi í fyrstu. Ég hélt að Ljósið væri ekki fyrir mig, það væri staður fyrir veikt fólk. Ég ætlaði að fara mína eigin leið í að byggja mig upp. En svo lét ég til leiðast og mætti á staðinn og þá opnaðist fyrir mér ótrúlegur heimur,“ segir Ebba Áslaug.

„Það var tekið mjög vel á móti mér og ég komst að því að þarna var ýmislegt spennandi í boði. Mér leið strax vel þar. Það var iðjuþjálfi sem tók á móti mér og fór yfir málin með mér. Ég fór í þrekmælingu og fékk strax æfingaprógramm til þess að fylgja. Ég hef stundað líkamsræktina í Ljósinu í eitt og hálft ár og ég verð að segja að það er besta líkamsræktin sem ég hef prófað. Það eru fjölbreyttir tímar í boði til dæmis jóga og þrekæfingar og allir æfa á sínum forsendum. Það er enginn að derra sig og sperra.“

Ebba Áslaug segir margt meira í boði í Ljósinu en líkamsrækt. Hún hafi til dæmis farið á leirnámskeið þrátt fyrir að hafa aldrei verið mikil handverkskona og fannst það mjög gaman.

„Í Ljósinu er hægt að gleyma sér í góðum félagsskap. Þar fær maður líka alls kyns fræðslu bæði sem varðar veikindin og um praktísk mál eins og að fara aftur til vinnu eftir veikindaleyfi. Í ljósinu er mikill mannauður. Þar eru iðjuþjálfar, markþjálfar, sjúkraþjálfar, íþróttafræðingar og fleira. Nálgunin við endurhæfinguna er jákvæð. Það er ekki verið að horfa til þess hvað er að þér heldur er horft á hvernig þú getur styrkt þig og byggt þig upp. Ég held að það sé galdurinn við það hvað Ljósið er gott. Þér líður ekki eins og þú sért veikur í Ljósinu, heldur hefur þú eitthvað að gera, eitthvað að gefa og heilmikið að segja. Það eru allir svo jákvæðir þar og stemningin er heimilisleg og notaleg. Þangað er gott að koma og þar er gott að vera. Mér þykir mjög vænt um Ljósið,“ segir hún.

„Svo verð ég að minnast á matinn þar. Hann er rosalega góður, ég vissi ekki að grænmetisfæði gæti verið svona gott fyrr en ég kom í Ljósið, þar er boðið upp á grænmetisrétt í hádeginu alla daga. Ég var farin að hlakka til að koma þangað og smakka það sem var í matinn.“

Vill gefa til baka með hlaupinu

Ástæðan fyrir því að Ebba Áslaug hefur ákveðið að hlaupa fyrir Ljósið í Reykjavíkurmaraþoninu í ár er að hún vill gefa til baka til Ljóssins.

„Ég er að ljúka endurhæfingu í ágúst og með þessu móti vil ég þakka fyrir mig. Mig langar að gefa eitthvað til baka. Ég tel mig vera búna að fá svo góðan stuðning þar. Ég held að ekki síður en lyfjameðferð og læknishjálp eigi það stóran þátt í batanum að hafa farið í endurhæfingu í Ljósinu,“ segir hún.

Dóttir Ebbu Áslaugar, Kristín Nanna, ætlar að hlaupa með henni í Reykjavíkurmaraþoninu.

„Maður fer ekki í gegnum svona krabbameinsmeðferð einn og þess vegna þykir mér mjög vænt um að dóttir mín ætli að hlaupa með mér. Ég á líka yngri dóttur sem heitir Halldóra Elín og hún ætlar að vera aðalstuðningsmaðurinn á hliðarlínunni með pabba sínum meðan við erum að hlaupa. Þannig að við erum að gera þetta saman fjölskyldan,“ segir Ebba Áslaug.

Ebba Áslaug hefur æft fyrir maraþonið með fámennum en góðmennum hlaupahópi í Ljósinu.

„Það hefur verið hlaupahópur í Ljósinu síðan í vor. Þar er til dæmis ein vinkona mín sem hefur aldrei hlaupið áður. Hún hefur verið að taka þetta af mjög mikilli festu og æfa vel. Hún hleypur líka í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Hana langaði svo mikið til að hlaupa fyrir Ljósið og hefði kannski ekki byrjað að hlaupa annars,“ segir hún.

„Svo er er annar hlaupavinur minn í Ljósinu sem er að líka fara að taka þátt í maraþoninu. Hann hefur hlaupið úti um allt. Bæði hérlendis og erlendis og hefur alveg brennandi áhuga. Hann smitar mjög mikið út frá sér og er mjög hvetjandi. Við erum aðallega búin að vera þrjú í þessum hlaupahópi. Við erum með þjálfara sem heitir Guðrún Erla Þorvarðardóttir. Hún er mikil hlaupadrottning og fyrirmynd sem passar vel upp á okkur. Það hefur myndast góð stemning í þessum hópi.“

Hvetjandi andi í Ljósinu.

Ebba Áslaug er ekki nýgræðingur í hlaupum. Hún hefur hlaupið maraþon tvisvar sinnum, síðast árið 2011. En síðan þá hefur hún ekkert verið í hlaupaþjálfun.

„Ég vil meina að líkamsræktin í Ljósinu hafi verið góður undirbúningur fyrir hlaupið. Það er ofboðslega hvetjandi andi í Ljósinu. Það er auðvitað stór áskorun að greinast með krabbamein, en þú gleymir því svolítið þegar þú ert þarna,“ segir hún.

„Ég vil hvetja alla sem greinast með krabbamein til að fara í Ljósið. Það er svo gott að hitta fólk í svipuðum sporum. Það eru ekki endilega allir sem fara í Ljósið, sumir hugsa kannski eins og ég hugsaði fyrst: Þetta er ekkert fyrir mig. En ég vil hvetja alla til að fara og kynna sér málin. Þarna er unnið magnað starf og ýmislegt spennandi í boði. Ég er ótrúlega þakklát fyrir Ljósið og hlakka til að hlaupa fyrir það og gefa þannig til baka og þakka fyrir mig.“

Hægt er að heita á mæðgurnar hér.