Mjólkursamsalan býður sem fyrr upp á fjölbreytt úrval ostakarfa til fyrirtækja og einstaklinga. Í ár verður sú nýjung að boðið er upp á sérhönnun viðskiptavina á Ostakassann vinsæla, sem gerir gjöfina enn persónulegri.

Ostar eiga alltaf við

Litrík og falleg gjafakarfa með íslenskum ostum og sérvöldu meðlæti hefur fyrir löngu fest sig í sessi enda gómsæt og vinsæl gjöf með eindæmum. Fólk vill gera vel við sig um jólin og hittir gjarnan vini og ættingja og þá getur komið sér vel að eiga osta á ostabakkann. „Allar körfurnar frá MS innihalda vinsæla mygluosta úr Dölunum á borð við Camembert, Kastala og Brie. Til viðbótar eru bragðgóðir rjóma- og kryddostar ásamt meðlæti. Eftir því sem körfurnar eru stærri fjölgar ostunum,“ segir Íris Sigurðardóttir, sem hefur yfirumsjón með ostakörfugerðinni hjá MS.

Ostar vinsælir til fyrirtækjagjafa

„Við bjóðum upp á níu staðlaðar ostakörfur í ár. Stærri og veglegri körfurnar innihalda enn fleiri og fjölbreyttari bragðgóða dýrari osta eins og Auði, Gullost og Óðals Tind. Kjöt, sælgæti og ostanasl er einnig að finna í sumum stærri körfunum í ár, en við leggjum sérstaka áherslu á að bjóða upp á breitt úrval í magni og verði svo allir geti fundið gjöf við hæfi,“ segir Íris. Hún bætir því við að vinsældir ostakörfugjafabréfa séu sífellt að aukast en slík gjafabréf gefa viðtakendum tækifæri til að panta körfu og sækja þegar þeim hentar, hvort sem er fyrir jólin eða á nýju ári.

Nýjung frá MS í ár er að bjóða upp á sérhönnun á ostakössum, hvort sem er framan á kassann eða jólakveðja innan á lokið.

Sérhönnun á Ostakössum í boði

Íris vekur athygli á þeirri nýjung í ár að fyrirtæki sem kaupa að lágmarki 30 Ostakassa geta með litlum aukakostnaði látið prenta sína hönnun á umbúðirnar og persónulega kveðju innan á lokin í stað jólakorta, sem vinsælt er að láta pakka með. Ostakassarnir eru afar hentugir til póstflutninga og raðast vel í þeim tilfellum sem fólk er að kaupa margar gjafir og keyra þær út sjálft. Pöntunarfrestur á sérhönnuðum Ostakössum er 15. nóvember en almennt á hefðbundnum körfum er tveggja daga afgreiðslufrestur hið minnsta.

Nýjung fyrir jólin er umhverfisvænni körfur og kassar

Viðskiptavinum býðst að fá ostakörfur úr pappa í stað bastkarfa, en pappakörfurnar og öskjurnar eru umhverfisvænni en bastkörfurnar auk þess sem þær eru framleiddar hér á landi. „Við höfum orðið vör við að fólk veit ekki hvað það á að gera við bastkörfurnar og því höfum við fjölgað pappalausnum, sem auðvelt er að endurvinna,“ bætir Íris við.

Séróskir og viðbætur

„Það er mjög algengt að fyrirtæki vilji bæta vörum eins og víni, bók, jólakveðju eða öðru í körfurnar og það er bara sjálfsagt að verða við því,“ segir Íris. „Það er viðskiptavinum að kostnaðarlausu, það er enginn viðbótarkostnaður bætist við þá vinnu sem því fylgir. Við viljum veita góða þjónustu og þetta er liður í því.

Við bjóðum einnig upp á litla ostahnífaöskjur til að gera körfurnar enn veglegri. Starfsfólk söludeildar MS er boðið og búið að aðstoða viðskiptavini við val á körfum og innihaldi. Þá má einnig benda á að það er í boði að setja saman eigin körfur. Við höfum það að leiðarljósi að í öllum körfunum, óháð stærð þeirra, er hugað sérstaklega vel að fjölbreyttu úrvali osta og meðlætis og að ostarnir parist vel á ostabakka,“ segir Íris.

Ostakörfuverslun

Ostakörfuverslun hefur verið opnuð á vefnum ms.is þar sem nálgast má allar upplýsingar um körfurnar og innihald ásamt því hvernig best er að haga pöntunarferli. Íris segir að ostakörfuverslunin hafi farið í loftið fyrir stuttu og að þegar séu pantanir farnar að berast.

„Það er greinilegt að fólk ætlar að vera snemma á ferðinni með undirbúning jólanna í ár og það er alveg óhætt að mæla með gómsætum ostakörfum í jólapakkann í ár.“ ■