Vilborg Arna Gissurardóttir þakkar það CTi®-liðbandaspelku frá Össuri að geta klifið fjöll og firnindi eins og ekkert hafi í skorist þrátt fyrir að hafa slitið krossband og þurft að gangast undir aðgerð í fyrra.

„Þetta var bara smá bylta á skíðum og ég datt ekkert illa, en heyrði strax óhugnanlegan smell í hnénu og vissi um leið hvað biði mín,“ segir ævintýrakonan, pólfarinn og fjallaleiðsögumaðurinn Vilborg Arna Gissurardóttir.

Vilborg varð fyrir því óláni í fyrra að slíta krossband og laska sitthvað fleira í hnénu. Fram undan voru mörg stór verkefni og því góð ráð dýr.

„Í samstarfi við Össur og lækninn sem aðstoðaði mig við meiðslin fundum við út að ég gæti haldið mínu striki með því að nota CTi-liðbandaspelku frá Össuri, á meðan ég biði þess að komast í aðgerð. Það reyndist rétt því ég fór um allt með spelkuna góðu, upp á Hvannadalshnjúk, yfir Vatnajökul og fleira,“ segir Vilborg kát.

„Ég hef einstaklega góða reynslu af vörunni. Ég leitaði til Össurar og þau tóku mig strax upp á arma sína. Þjónustan var lausnamiðuð, hlýleg og persónuleg. Ég var tekin í viðtal, svo var mátað, græjað og gert til að finna bestu lausnina, spelkan löguð að mér og öllu fylgt vel eftir. Ég kann líka alltaf vel að meta það þegar mér er ekki bannað að gera hlutina heldur þvert á móti hjálpað til þess.“

Vilborg getur farið hvert sem er með spelkuna frá Össuri og lætur ekkert stoppa sig í krefjandi sporti og útivist. MYND/HÓLMFRÍÐUR VALA SVAVARSDÓTTIR

Spelkan skipti sköpum

CTi-liðbandaspelkan veitti hné Vilborgar mikilvægan stuðning og hélt því stöðugu svo meiðslin yrðu ekki meiri á meðan hún beið þess að komast í aðgerð.

„Spelkan skipti sköpum fyrir mig og án hennar hefði verið útilokað fyrir mig að stunda útivist og hreyfingu eins og ég geri. Nú eru komnir níu mánuðir síðan ég fór í aðgerð og ég hef notað spelkuna áfram, á meðan ég er að vinna mig til baka og ná fullum styrk. Ég stunda krefjandi íþróttir og fætur mínir að mörgu leyti mitt atvinnutæki, svo alltaf þegar ég er að prófa eitthvað nýtt og á meðan ég er að vinna upp sjálfstraustið aftur, að sjá hvað ég get og hvert ég er komin í bataferlinu, nota ég liðbandaspelkuna frá Össuri,“ segir Vilborg.

Hún er á góðri leið með að ná sínum fyrri styrk og færni.

„Ég er nú þegar orðin mjög góð og á endanum verð ég jafn góð og áður en þetta tekur tíma og er þolinmæðisvinna. Ég tek eitt skref í einu og þegar ég er komin með vald á því held ég áfram. Hnéð er orðið nógu sterkt, en þetta snýst um að styrkja vöðva í kringum skaðasvæðið, að þeir séu orðnir nógu sterkir til að halda við og veita hnénu stuðning. Þangað til er liðbandaspelkan ómissandi hjálpartæki, ekki síst í óvægnara sporti þar sem meiri hætta er á að ég meiði mig. Því fylgir svo ákveðið sjálfstraust að vera með hjálpartæki á fætinum. Þá er maður öruggari með að spelkan komi í veg fyrir að eitthvað slæmt gerist og það gerir manni kleift að gera óhikað það sem maður vill gera.“

Vilborg Arna með CTi-liðbandaspelkuna góðu frá Össuri. MYND/HÓLMFRÍÐUR VALA SVAVARSDÓTTIR

Býr á Íslandi og í Slóveníu

Vilborg Arna býr nú í slóvensku Ölpunum með slóvenskum manni sínum og tveimur stjúpsonum.

„Við erum dugleg að hreyfa okkur og gera ýmislegt okkur til ánægju saman og með krökkunum, en svo kem ég reglulega heim til Íslands til að vinna því minn markhópur er hér og fram undan eru ferðir yfir og inn á Vatnajökul og fleiri fjallabröltsferðir. Ég segir stundum að ég njóti þess besta beggja vegna Atlantshafsins, því landslag Alpafjallanna er stórfenglega fagurt og veðrið í Slóveníu geggjað, en svo jafnast ekkert á við íslenska náttúru og bjartar sumarnætur, né dansandi norðurljós á íslenskum himni í vetrarferðum. Vonandi kem ég mun oftar heim þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn.“