Hugmyndin að vélinni kviknaði þegar ég var staddur á veitingastað og sá fólk borga fyrir matinn með seðlum, spritta síðan hendurnar með því að snerta sömu sprittbrúsapumpu og aðrir og taka að því búnu upp símann sinn sem í flestum tilvikum er stútfullur af bakteríum,“ segir frumkvöðullinn Alexander Aron Valtýsson sem hannað hefur snertilausa sótthreinsivél vegna COVID-19.

„Þetta örlagaríka kvöld á veitingastaðnum blöstu við mér þrjú vandamál sem mér fannst þurfa að finna lausn á. Það fyrsta var að fólk borgar fyrir vörur og þjónustu með skítugum seðlum sem fara manna á milli, næsta vandamál var að fólk þarf að handleika sömu sprittbrúsa og sprittpumpur og allir aðrir, og þriðja vandamálið var að eftir sótthreinsun fer fólk beint í símann sinn og fær þá á sig allar bakteríurnar og jafnvel kórónaveiruna aftur, því sannað hefur verið að veiran getur lifað dögum saman á dauðu yfirborði.“

AKO-sótthreinsivélin er sannkallað augnayndi, úr vönduðu gleri og fallegu, sterku áli. Með henni er loks hægt að sótthreinsa hendur og handhæga hluti án snertingar. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Sótthreinsað án snertingar

Alexander Aron beið ekki boðanna heldur fór strax í hugmyndavinnu fyrir nýju sótthreinsivélina sem sótthreinsar seðla, kort, bíllykla, síma og hvað eina sem þarfnast sótthreinsunar en ekki síst hendur, án þess að snertingar sé þörf.

„Ég fann á netinu vélar sem gáfu frá sér ilm á tímastilli og kom þar auga á tækifæri til að fullskapa sótthreinsivélina. Ég byrjaði á að hanna breytingu á samskonar vél, sendi svo út fyrirspurn til framleiðandans og þar tók við langt ferli þar til við gátum búið til snertilausa sótthreinsivél sem er fullkomin fyrir aðstæðurnar sem við lifum í dag,“ upplýsir Alexander, sem lét framleiða AKO-sótthreinsivélina í upphafi heimsfaraldursins, en framleiðsluferlið tafðist um tíma.

„Með sótthreinsivélinni er komin lausn við öllum þremur vandamálunum því með henni er hægt að sótthreinsa allt mögulegt án þess að koma við sprittbrúsa. Á vélinni er innrauður skynjari sem setur skammtara í gang þegar hann skynjar hreyfingu og sprautar þá sótthreinsivökva upp í loftið í svokallað mistur sem notað er til að sótthreinsa hendur, seðla, síma, kort, bíllykla og fleira,“ segir Alexander.

Vélinni fylgir líka hleðslutæki en hægt er að nota hana í 500 skipti áður en hlaða þarf batteríið á ný.

„Með sótthreinsivélinni nýtist spritt betur en ella og ekkert fer á borðið eins og gerist og gengur úr mörgum sprittbrúsum. Vélin tekur 80 millílítra af spritti og auðvelt er að fylla á hana aftur. Í henni er bómullarkjarni sem færir sprittið úr glasinu upp í vélina sjálfa og fylgja tveir bómullarkjarnar með í kaupunum, en skipt er um hann á þriggja til fjögurra mánaða fresti,“ útskýrir Alexander.

Alexander Aron er ánægður með útkomu og viðtökur uppfinningar sinnar en fyrsta sendingin seldist upp á tveimur dögum. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Fyrsta sending seldist upp

Sótthreinsivél Alexanders Arons er einkar glæsileg og sómir sér vel hvar sem er.

„Ég er mjög ánægður með útkomuna, gæðin eru einstök og þriggja ára ábyrgð fylgir vélinni. Ég lagði mikið upp úr traustum gæðum og fallegu útliti og er vélin úr vönduðu gleri og sterku áli. Í upphafi sá ég fyrir mér að sótthreinsivélin ætti heima hjá hverjum gjaldkera í bönkum og eiginlega öllum sem taka á móti viðskiptavinum dagsdaglega en vélin er líka frábær fyrir heimili. Hún kemur alls staðar að góðum notum, hún kemur í stað sprittbrúsa og getur staðið sem fegursta heimilisprýði í forstofu og setur hvarvetna snyrtilegan og skemmtilegan brag á umhverfið,“ upplýsir Alexander Aron.

Viðtökur við sótthreinsivél Alexanders Arons hafa verið stórkostlegar.

„Fyrsta sending seldist upp á tveimur dögum og nú þegar hafa veitingastaðir, hárgreiðslustofur og banki pantað vélar fyrir starfsemi sína úr næstu sendingu sem kemur til landsins í næstu viku. Fyrir mig, sem ungan frumkvöðul, er ótrúlega gaman að upplifa svo góðar viðtökur við minni fyrstu nýsköpun. Hún er íslenskt hugvit frá A til Ö og þeir sem hafa þegar tekið AKO-sótthreinsivélina í notkun eru ánægðir með virkni hennar og glæsilegt útlit,“ segir Alexander, sem frá unga aldri hefur verið bæði hugmyndaríkur og lausnamiðaður.

„Ég er frumkvöðull að eðlisfari og hef í gegnum tíðina verið með alls konar pælingar en ekki látið verkin tala fyrr en nú, að ég lét hugmynd mína verða að veruleika. Útkoman og viðtökurnar fóru fram úr mínum vonum og mér er ekkert að vanbúnaði að halda áfram. Ég er ekki nema 24 ára og hef allt lífið fyrir mér að koma með enn fleiri uppfinningar sem gagnast vonandi sem flestum.“

AKO-snertilausu sótthreinsivélina er nú hægt að nálgast á heimasíðunni ako.is, og með því að senda tölvupóst á netfangið info@ako.is.