Rósbjörg Jónsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt með sérhæfingu á sviði samkeppnishæfni greininga, klasastjórnunar og samfélagslegrar ábyrgðar.

Rósbjörg hefur víðtæka og árangursríka starfsreynslu úr íslensku atvinnulífi. Til að mynda var hún framkvæmdastjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands 2000-2005 og markaðsstjóri Hótel Holts 2005-2010. Á árunum 2011-2016 starfaði Rósbjörg sem ráðgjafi hjá Gekon og á þeim tíma sérhæfði hún sig á sviði klasastjórnunar og gagnkvæms virðisauka (shared value).

Rósbjörg kortlagði og mótaði íslenska ferðaklasann ( 2012-2016), lagði grunninn að alþjóðlegum ráðstefnum sem hafa stutt og eflt íslenskt samfélag, þar á meðal Iceland Geothermal Conference 2013 & 2016 og What Works in Social Progress. Þá leiddi Rósbjörg umsókn Íslands um að fá til landsins WGC2020.

„Ég hef stýrt mínu eigin ráðgjafafélagi, Cognito, frá 2016. Cognitio hefur jafnframt haft veg og vanda að framsetningu Framfaravogarinnar sem metur stöðu sveitarfélaga út frá félagslegum og umhverfislegum þáttum og segir til um hvernig staðan er á þeim svæðum sem skoðuð eru.“

Rósbjörg er fulltrúi SPI, Social Progress Imperative, á Íslandi, en SPI hefur gefur árlega út vísitölu félagslegra framfara (social progress index) á heimsvísu.

Hún sat í stjórn Festu 2016-2018 og situr í stjórn faghóps Stjórnvísi um samfélagsábyrgð og er stjórnarmaður í Kolviði.

Rósbjörg tók við sem framkvæmdastjóri Orkuklasans vorið 2022.

Að sögn Rósbjargar fagnar Orkuklasinn 10 ára starfsafmæli í ár. „Hann var formlega stofnaður 2013, fyrst sem jarðvarmaklasi en útvíkkaði Fókusinn 2018-19 og horfir til jarðhita, vatnsafls, vinds og rafeldsneytis. Orkuklasinn hefur verið brautryðjandi á sviði orkumála þar sem horft er til þverfaglegs samstarfs og haft mikil áhrif ekki síst þegar horft til þess að byggja upp Ísland sem sýningarglugga fyrir endurnýjanlega orku.“

Vel sótt námskeið í vinnustofu Orkuklasans í húsnæði Akademias fyrr í þessum mánuði.
Mynd/Aðsend

Orkuklasinn er þverfaglegur samstarfsvettvangur atvinnulífs, háskólaumhverfis, opinberra aðila, fjárfesta/fjármögnunaraðila og frumkvöðla, sem eiga hagsmuna að gæta varðandi framleiðslu, nýtingu og dreifingu orku og orkutengdrar starfsemi og nær til allrar virðiskeðjunnar.

Að sögn Rósbjargar er leiðarljós vettvangsins er að stuðla að aukinni samvinnu, þekkingarmiðlun og framþróun. Með margvíslegum uppákomum, viðburðum og fræðslu skapi Orkuklasinn félögum sínum aukin tækifæri til frekari verðmætasköpunar með beinum og óbeinum hætti.

„Það er mikilvægt að huga að jafnvægi kynjanna,“ segir Rósbjörg. „Öflugar konur hafa verið að hasla sér völl á sviði orkutengdrar starfsemi og fögnum við því og hvetjum ungar konur til að skapa sér atvinnutækifæri innan greinarinnar því hér eru gríðarleg tækifæri sem eru án landamæra.“

Starfsemi íslenska Orkuklasans hefur að sögn Rósbjargar sjaldan ef nokkurn tímann verið jafn mikilvæg enda klasasamstarf birtingarmynd nýsköpunar og þróunar þar sem heildarhagsmunir séu hafðir að leiðarljósi.

„Klasasamstarf er talið ein áhrifaríkasta leiðin til að knýja áfram framþróun og aukna verðmætasköpun samfélaga og því viljum við sem að þessum vettvangi stöndum leggja okkar af mörkum þegar við tökumst á við áskoranir framtíðarinnar,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir hjá Orkuklasanum.

Tilgangur klasavettvangsins er:

  • Stuðla að aukinni nýsköpun, stofnun sprotafyrirtækja, rannsóknum og þróun
  • Styrkja ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku
  • Stuðla að aukinni verðmætasköpun, þekkingu og færni aðildarfélaga
  • Stuðla að þróun og útflutningi sérhæfðrar vöru og þjónustu og verndun hugverka
  • Efla tengslanet og upplýsingaflæði milli orkugeirans, stjórnvalda og samfélagsins

Margþættur ávinningur

Framtíðarsýn:

Orkutengd starfsemi er grunnur velferðar á Íslandi. Með ábyrgri stjórnun viðheldur og eflir greinin þau lífsgæði sem hér ríkja og tryggir efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar framfarir.

Virðisauki Orkuklasans:

Íslenski orkuklasinn gegnir lykilhlutverki í því að viðhalda lífsgæðum og stuðlar að aukinni samkeppnishæfni félaga sinna með verkefnadrifnu samstarfi þar sem þekking, samvinna og framþróun eru höfð að leiðarljósi.

Með því að draga félaga saman þvert á virðiskeðjuna og á atvinnugreinar er stuðlað að þekkingaryfirfærslu í báðar áttir þar sem tilgangurinn er að stuðla að aukinni framþróun. Framþróun innan félaga, atvinnugreinar og samfélags.

Lykilstarfsemi og markmið:

Hlutverk Orkuklasans er að efla samvinnu þvert á félaga og greinar og hraða mikilvægum úrbótum og breytingum til aukinnar framþróunar í orkutengdri starfsemi. Miklar kröfur eru gerðar á greinina til að ná stórum og mikilvægum markmiðum á sviði loftslagsmála. En þar gegna orkumálin stóru hlutverki. Á sama tíma og áskoranir eru miklar, skapast alla vega tækifæri og mikilvægt að leggjast saman á árarnar þar sem þess er þörf. Með það að leiðarljósi leggur Orkuklasinn áherslu á þrjár víddir í sinni starfsemi á komandi misserum sem allar leiða til aukinnar samvinnu, þekkingar og framþróunar:

  • Nýsköpun og framþróun
  • Alþjóðasamskipti og samvinnu
  • Fræðslu og þjálfun