Kjötkompaní var opnað fimm mínútum eftir „Guð blessi Ísland“,“ segir Jón Örn. „Þetta var rétt eftir hrun og vinir okkar og fjölskylda héldu að við værum nú endanlega gengin af göflunum,“ bætir hann við.

Jón Örn segir að hann hafi lengi gælt við hugmyndina um að stofna verslun af þessu tagi. Hann var sannfærður um að það væri eftirspurn til staðar. „Hugmyndin að svona verslun var búin að vera lengi að krauma í kollinum á mér og ég var viss um að svona verslun vantaði í flóruna hér á landi,“ segir Jón.

Hann virðist hafa hitt naglann á höfuðið en það sem hófst sem tveggja manna framtak er nú orðið að ríflega 40 manna veldi þar sem fagmennskan ræður ríkjum. „Við byrjuðum tveir á bak við kjötborðið en í dag erum við með rúmlega 40 starfsmenn,“ segir Jón Örn.

Fagmennskan í fyrirrúmi

Hann segir helstu ástæðuna fyrir velgengni fyrirtækisins liggja í vönduðum vinnubrögðum og fagmennsku starfsmannahópsins. „Það er alveg ljóst að þetta væri ekki hægt nema að vera með frábært starfsfólk innan okkar raða og við erum mjög stolt af þeirri fagmennsku sem við höfum í okkar starfsmannahópi,“ segir Jón Örn hreykinn.

Jón Örn segir ríka áherslu lagða á vönduð vinnubrögð þegar kemur að meðhöndlun afurða. Hann segir sérstöðu fyrirtækisins felast í því hvernig þau meðhöndla afurðirnar og því hvernig vörurnar eru keyptar inn. „Sérstaða okkar er til dæmis meðhöndlun okkar á þeim kjötvörum sem við bjóðum upp á ásamt því hvað við erum vandlát í gæðum á þeim kjötvörum sem við kaupum inn daglega,“ segir Jón Örn. Hann segir þau gefa sér góðan tíma í að undirbúa kjötið áður en viðskiptavinum gefst kostur á að kaupa það. „Nautakjötið sem við erum að kaupa inn í dag setjum við ekki í sölu fyrr en eftir 4 til 5 vikur,“ segir hann.

Jón Örn Stefánsson, eigandi Kjötkompanís, segist meta árangur fyrirtækisins út frá ánægju og endurkomu viðskiptavina. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Lágmark að steikin fái að hanga í 25 daga

Jón Örn segir að huga þurfi að mörgu við val á kjöti. Hann segir mikilvægt að gæta þess að kjötið sé vel fitusprengt þegar nautakjöt er keypt. Þá sé lykilatriði að spyrja afgreiðslumanneskjuna hvað steikin sé búin að hanga lengi. „Þegar þú ferð í kjötbúðina til að kaupa þér nautasteikina þá áttu alltaf að spyrja þann sem afgreiðir þig hvað steikin sé búin að fá að hanga lengi,“ segir hann. Og ef það stendur á svörum, þá sé hreinlega best að láta sig hverfa. „Ef afgreiðslumaðurinn getur ekki svarað því, þá ertu ekki á rétta staðnum. Svörin sem þú vilt fá að heyra eru að steikin sé búin að fá að hanga í lágmark 25 daga,“ segir Jón Örn.

Wellington vinsæl

Jón Örn segir ýmislegt breytast í rekstrinum eftir árstíðum. Núna sé mest um grillmat og grillpakka en með haustinu og lækkandi sól fer allt að snúast um jólin. „Það hefur skapast mikil hefð fyrir Wellington-nautalundinni um jólin og áramótin hjá okkur og er því undirbúningur strax farinn af stað fyrir það ásamt fleiri vinsælum vöruliðum um hátíðirnar eins og til dæmis paté-gerðin,“ segir Jón Örn.

„Eins eru jólahlaðborðin okkar sem við seljum tilbúin frá okkur beint á veisluborðið alltaf jafn vinsæl.“

Veisluþjónusta og tilbúnir réttir

Kjötkompaní býður einnig upp á vandaða veisluþjónustu fyrir öll tilefni og segir Jón Örn að smáréttahlaðborðin njóti mestra vinsælda. Hann segir enn fremur að þau séu að bjóða upp á sífellt meira úrval af tilbúnum réttum á borð við súpur og lasagna en einnig er hægt að nálgast réttina í verslunum Krónunnar og henta þeir sérlega vel í amstri hversdagsins.

Hjónin Jón Örn Stefánsson og Hildur Guðmundsdóttir.

Ítalskar gæðavörur beint frá Toscana

Kjötkompaní býður einnig upp á einstakt úrval af ekta ítölskum sælkeravörum á borð við jómfrúarolíur, pasta, ólífur og pastasósur sem koma beint frá Toscana á Ítalíu.

Þessi millilandaviðskipti byrjuðu fyrir þremur árum eftir að þau komust í kynni við fyrirtækið Savitar sem staðsett er í Toscana. „Þeir tóku okkur opnum örmum og aðstoðuðu okkur að leita uppi allar þær hágæða vörur sem við vildum og höfum nú í boði í verslunum okkar beint frá Toscana,“ segir Jón Örn. Metnaðarfullir áhugakokkar og aðrir geta því stólað á það að vörurnar sem Kjötkompaní býður upp á séu í hæsta mögulega gæðaflokki, enda eru þær valdar inn af mikilli kostgæfni.

Smáréttirnir eru alltaf vinsælir að sögn Jóns.

Fögnuður og freistandi tilboð

Í tilefni tíu ára afmælis Kjötkompanís verður efnt til hátíðarhalda núna á föstudag og laugardag, 16. og 17. ágúst nánar tiltekið. Kokkarnir munu standa vaktina við grillið fyrir framan verslunina í Hafnarfirði og gestum og gangandi gefst kostur á að gæða sér á ljúffengu góðgæti af ýmsum gerðum. Þá verða tilboð af ýmsu tagi á boðstólum í báðum verslunum frá fimmtudegi til laugardags og eru áhugasamir eindregið hvattir til að gera sér ferð í verslanirnar og skoða úrvalið. „Það verður fullt af flottum tilboðum í gangi hjá okkur um helgina og kokkarnir okkar verða með grillin logandi fyrir utan verslunina og gefa smakk af alls kyns kræsingum,“ segir Jón Örn.

Kjötkompaní býður meðal annars upp á ítalskar gæðavörur sem koma beint frá Toscana.

Þakklæti efst í huga

Þegar Jón Örn lítur yfir farinn veg segir hann undanfarinn áratug hafa verið frábæran og að þakklæti í garð fastakúnna sé honum efst í huga. Hann segir þau meta árangurinn út frá tryggð viðskiptavina sem margir komi aftur og aftur. „Okkar mælikvarði á það hvernig við erum að standa okkur er þegar við sjáum sama fólkið koma til okkar aftur.“ Hann segir fólk meðvitað um gæði vörunnar og að það sé jafnframt hvatning til þess að gera enn betur. „Fólk er vel meðvitað um gæði vörunnar og það hjálpar okkur í því að reyna að gera betur í dag en í gær,“ segir Jón Örn. Hann er bjartsýnn á framhaldið og segir markmið fyrirtækisins skýr. „Árin eiga svo bara vonandi eftir að verða mörg í viðbót og okkar verkefni verður fyrst og fremst að standa okkur í gæðum, þjónustu og vöruþróun fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Jón Örn bjartsýnn.