Hugmyndin að því að skrifa um mömmu mína kviknaði í dánarferli hennar. Hún lést með óvenjulegum hætti og í framhaldinu þurfti ég að vinna mig út úr þeirri lífsreynslu. Ég byrjaði að skrifa fyrir sjálfa mig og það stóð ekki til að gefa það efni út enda fannst mér ég lengi vel svo hörð við mömmu og koma sjálf svo illa út að ég gæti ekki sýnt þetta nokkrum manni. Tilgangurinn var fyrst og fremst að fara í gegnum tilfinningar mínar og reyna að skilja dauða mömmu út frá lífi hennar, hvernig þessi 85 ár sem hún lifði leiddu til þeirra 45 daga sem það tók hana að deyja. Mamma var óvenjuleg manneskja, hún lifði og dó á sínum forsendum og eftir sínu höfði. Hún var mjög opinská með ákvörðun sína og síðustu dagarnir hennar voru ekki líkir neinu sem ég hef kynnst,“ segir Sæunn, sem er sálgreinir og notar reynslu sína og menntun til að skilja móður sína.

„Mamma var litrík og skemmtileg en hún var líka ófyrirsjáanleg og erfið. Hún tók oft ákvarðanir sem komu okkur dætrum hennar úr jafnvægi, eins og til dæmis að fara frá okkur. Hún misnotaði áfengi og ég reyni að skilja ástæður þess. Ég er ekki þeirrar skoðunar að um sé að ræða líffræðilegan eða meðfæddan sjúkdóm heldur leita ég skýringa í lífsreynslu fólks á að það misnotar efni til að breyta skynjun sinni og líðan,“ segir hún.

Móðir Sæunnar var níunda í röð fimmtán systkina og það hafði að mati Sæunnar áhrif á mótun persónu hennar. „Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem eignast svo mörg börn og líka þeirra sem eru í stórum systkinahópi. Við mamma vorum mjög nánar og ég skynjaði sterkt að þessi glæsilega og hæfileikaríka manneskja glímdi alla tíð við mikla höfnunartilfinningu sem ég rek til barnæsku hennar,“ segir Sæunn, sem áður hefur skrifað bækurnar Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi, Árin sem enginn man og Fyrstu 1000 dagarnir.

Sterkar tilfinningar

Þegar hún er spurð hvernig það hafi verið að opinbera líf sitt og tilfinningar með því að skrifa svona opinskáa bók segir hún það ekki hafa verið auðvelt. „Enda tók það mig tólf ár að koma bókinni frá mér. Auðvitað var það stór ákvörðun að birta þessi skrif en þegar öllu var á botninn hvolft fannst mér sagan áhugaverð. Hvort sem ég vinn með einstaklinga eða foreldra og ung börn er ég alltaf að skoða áhrif barnæskunnar. Með sögu okkar mömmu langaði mig að setja fræðilegt efni í persónulegt samhengi,“ segir Sæunn. Hún segir að sem barn hafi hún oft skammast sín fyrir móður sína því að hún hafi verið svo öðruvísi en hún geri það ekki lengur.

„Ég var oft sár og reið út í mömmu, en mér fannst líka undurvænt um hana og þeim tilfinningum fann ég sterkt fyrir þegar ég fór að rýna í og rifja upp söguna hennar.“

Bókin hefur vakið verðskuldaða athygli, enda er ekkert dregið undan. „Ég hef fengið rosalega sterk viðbrögð, jafnvel frá bláókunnugu fólki, sem segir að eftir lesturinn skilji það sína eigin foreldra og sjálft sig betur. Ég geng mjög nærri mömmu í bókinni en líka sjálfri mér, öðruvísi hefði ekki haft neinn tilgang með að skrifa hana.“