Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum. Svansmerkið er lífsferilsmerki sem þýðir að í allri viðmiðaþróun er leitast við að hanna kröfur sem taka á öllum lífsferli vörunnar eða þjónustunnar sem um ræðir.

Kröfur Svansins tryggja að vottuð vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna, með því að:

• skoða allan lífsferilinn og skilgreina helstu umhverfisþætti

• setja strangar kröfur um helstu umhverfisþætti sem skilgreindir hafa verið svo sem; efnainnihald og notkun skaðlegra efna, flokkun og lágmörkun úrgangs, orku- og vatnsnotkun, og gæði og endingu

• passa að þekkt hormónaraskandi og ofnæmis- eða krabbameinsvaldandi efni séu ekki notuð

• herða kröfurnar reglulega þannig að Svansvottaðar vörur og þjónusta séu í stöðugri þróun

Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður norræni Svanurinn að hafa mótað sértækar kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk. Í dag eru viðmiðaflokkarnir 59 talsins. Svanurinn er umhverfismerki af Týpu 1 samkvæmt ISO 14024 umhverfisvottunarstaðlinum og er einn af stofnmeðlimum Global Ecolabelling Network.

Í dag þekkja tæplega 90% Íslendinga Svaninn samkvæmt nýlegri neytendakönnun. Þekkingin hefur aukist mjög hratt síðustu ár og er nú á pari við hin Norðurlöndin. Svansvottun er fyrst og fremst skýr og metnaðarfull leið fyrir fyrirtæki að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið með kerfisbundnum hætti.

Svanurinn gerir ríkar umhverfiskröfur til þeirra sem sækjast eftir Svansvottun og þeim kröfum þarf að viðhalda til að missa ekki vottunina. Svanurinn er líka sterkt verkfæri til þess að skapa sér sérstöðu á samkeppnismarkaði.

Sú ímyndarsköpun sem fylgir Svansvottun getur laðað að sér ekki einungis nýjan kúnnahóp heldur einnig starfsfólk sem hefur metnað fyrir umhverfismálum. Svanurinn getur því verið leið til þess að auka skilning á umhverfisþáttum rekstursins sem hefur yfirleitt í för með sér rekstrarsparnað þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari