„Það er alltaf rífandi stemning í Melabúðinni. Við vorum byrjaðir í þorramatnum fyrir áramótin og þegar það er svona kalt í veðri finnst fólki mjög gott að fá þorramatinn. Undirbúningurinn hefur í sjálfu sér ekki verið langur. Við byrjuðum fljótlega í desember í jólatraffíkinni að huga að þessu með magn og tegundir og passa upp á að gleyma engu. Svo rúllar þetta bara af vana,“ segir Pétur Alan Guðmundsson, annar eigenda Melabúðarinnar.

Melabúðin er rótgróin fjölskylduverslun. Guðmundur Júlíusson og Katrín Stella Briem tóku við rekstri Melabúðarinnar árið 1979 og í dag reka synir þeirra, þeir Pétur og Snorri, verslunina. Pétur segir verslunina vera fjölskyldufyrirtæki sem hafi frábært starfsfólk og yndislega viðskiptavini, sem vita að þeir ganga að gæðunum vísum.

„Hjá okkur í Melabúðinni er aðalmálið að við nostrum aðeins við þorramatinn og svo getur fólk valið sér sjálft hvað það vill fá úr kjötborðinu. Viðskiptavinirnir eru ánægðir með að geta valið sjálfir eftir tegundum.“

Ekkert skrítið á boðstólum

Spurður hvað sé til af þorramat í kjötborðinu segir Pétur: „Við erum með allan pakkann. Við erum með heit og köld svið, soðna lifrarpylsu og blóðmör, kalda og súra, súra hrútspunga, lundabagga, bringur, hákarl, hvalrengi, nýja og súra sviðasultu, magál, nýja og súra grísasultu, hangikjöt, rófustöppu, kartöflumús, síld, rúgbrauð, flatbrauð og bara allt þetta venjulega í þorramatnum. Það er ekkert skrítið á boðstólum eins og selshreifar eða annað slíkt. Það er liðin tíð,“ segir Pétur.

Hann segir að það henti fólki vel að geta valið sér þorramatinn úr kjötborðinu í stað þess að vera með tilbúna þorrabakka.

„Það eru til dæmis ekki allir sem vilja frá bringukolla og fólk getur bara tekið það sem það vill fá. Fólk er mjög hrifið af þessu,“ segir kaupmaðurinn á horninu en eitt af gildum Melabúðarinnar er að leggja áherslu á persónulega þjónustu og vera með breitt vöruúrval.

„Við tökum mest af okkar þorramat frá Sláturfélagi Suðurlands en svo nostrum við aðeins við hann til að gera hann að okkar hætti. Við leggjum ekki í súr en notum okkar „trix“ til þess að gera matinn virkilega ljúffengan. Við erum með Fjallalambs svið og slátur sem er þekkt fyrir gæði. Sviðin eru verkuð á gamla mátann og slátrið er alvöru gott slátur,“ segir Pétur.

Pétur segir að bóndadagurinn sé afar stór söludagur í Melabúðinni og það ríki ávallt stuð og stemning í búðinni á þeim degi.

Gaman að gefa krökkunum að smakka

„Bóndadagurinn hefur alltaf verið mjög stór hjá okkur. Fólk kemur og kaupir í lítil sem stór þorrablót og jafnvel pantar matinn í þorrablót. Við lánum fólki trogin en það eru margir sem koma og kaupa fyrir sín litlu heimaþorrablót og þá tekur það allt sem þarf og rúgbrauð, harðfisk, síld og fleira með. Þá getur fólk keypt tilbúna rófustöppu eða kartöflumús en sumir velja að gera það sjálfir. Svo er gaman að segja frá því yngri krakkar úr skólunum og leikskólunum hafa verið að koma til okkar þar sem þau fá að skoða matinn og smakka hann. Þar eru nú sjaldnast komnir fordómarnir. Þau er mjög spennt fyrir þessu og það er gaman að gefa þeim að smakka,“ segir Pétur.

Er eitthvað eitt vinsælla í þorramatnum en annað?

„Hrútspungar og hvalur er mjög vinsælt og svo kemur þetta dæmigerða sem er ekki súrt, eins og hangikjöt og sviðasulta. Margir segjast borða þorramat en þá er það jafnvel bara hangikjöt og sviðasulta sem okkur mörgum finnst ekki vera alveg þorramatur en er gott út af fyrir sig,“ segir Pétur.

Hann segir að yngsta fólkið sé ekki mikið fyrir það að borða þorramat og það sé alveg eðlilegt. „Ég var sjálfur svona. Ég borðaði ekki þorramat áður. Mér fannst lyktin af honum ekki góð en svo var ég að fylla á þorraborðið, ákvað að prófa og sé eftir að hafa ekki byrjað fyrr og finnst hann í dag vera virkilega góður. Mér finnst frábært að fá þorramat á þessum tíma árs fyrir utan það að fitan er holl og góð. Fólk tengir svona veður eins og hefur verið undanfarnar vikur við þorramat og við fáum mikla orku við að innbyrða hann.“

Stóru þorrablótin sem hafa verið í dvala undanfarin ár vegna Covid eru nú komin á fullt og til að mynda héldu KR-ingar fjölmennt þorrablót um síðustu helgi. Spurður hvort þetta breyti einhverju fyrir hann og Melabúðina segir Pétur:

„Já og nei. Þessi stóru þorrablót hafa ekki verið á dagskránni undanfarin ár en litlu þorrablótin héldu áfram. Margir fara kannski bara einu sinni til tvisvar og fá sér þorramat en aðrir espast upp og þá koma þeir til okkar og fá sér jafnvel til að hafa í fötu, kaupa mysu með og geyma í ísskápnum eða kaupa bara fyrir kvöldmatinn. Svo eru litlir hópar að hittast. Það voru til dæmis tíu karlar, allir yfir sjötugt, sem pöntuðu hjá okkur þorramat til að hafa á þorrablóti en það mátti ekkert vera súrt. Ég var hissa á því,“ segir Pétur og hlær.

„Með aldrinum held ég að við þróumst meira út í það að borða þorramat. Kannski minna á yngri árum en svo kemur þetta. Við þroskumst öll. Ég tala þar út frá minni reynslu. Ég laumaði mér í að smakka þennan mat og mér finnst til dæmis lundabaggar og bringukollar æðislegir. Þeir eru mitt uppáhald.“

Þorri allra landsmanna með okkur

Pétur segist reikna með ys og þys í Melabúðinni í dag á sjálfan bóndadaginn en hann er þrautreyndur í bransanum og hefur staðið vaktina í Melabúðinni í yfir 40 ár.

„Það er alltaf gríðarleg stemning í búðinni á þessum degi. Það er snillingur hjá okkur sem heitir því þjóðlega nafni Þorri en hann var valinn einu sinni Þorri allra landsmanna og ber nafn með rentu. Það myndast mikil stemning í búðinni á þessum degi svo það þarf ekki uppákomur út af fyrir sig. Við gefum fólki að smakka hákarl og súrmat og við sem erum að vinna í versluninni erum á tánum og sinnum kúnnum okkar sem allra best.“

Melabúðin er að Hagamel 39. Sími: 551-0224. Sjá nánar á melabudin.is. og á Facebook-síðu Melabúðarinnar.

Pétur segir að það henti fólki vel að geta valið sér þorramatinn úr kjötborðinu í stað þess að vera með tilbúna þorrabakka.
Lifrarpylsa, blóðmör og lundabaggar eru herramannsmatur og úrvalið af þorramat í Melabúðinni er glæsilegt.