„Það var í mars sem Jose átti erindi við hjartalækni og fer þá í blóðprufu þar sem PSA-gildi benda til mögulegs krabbameins í blöðruhálskirtli. Hann var einkennalaus með öllu en var næst kallaður á fund Rafns Hilmarssonar þvagfæraskurðlæknis sem greindi okkur frá því að Jose væri með 2. stigs krabbamein í blöðruhálskirtli. Það voru tíðindi sem var erfitt að meðtaka og slógu Jose strax út af laginu, ekki síst þar sem tvær systur hans féllu ungar frá úr krabbameini. Orðið krabbamein olli því mikilli skelfingu hjá mínum manni,“ greinir Laila frá.

Á læknafundinum með Rafni urðu hjónin eðlilega felmtri slegin.

„Ég gleðst enn yfir því að hafa fylgt Jose á þennan fund. Rafn læknir var nærgætinn, yfirvegaður og yndislegur í alla staði, en það breytti ekki því að Jose varð ómóttækilegur fyrir öllu sem fram fór á fundinum, nema þeirri staðreynd að hann værir með krabbamein. Sjálf var ég líka í áfalli því fréttirnar komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég sá hvað Jose var brugðið og ákvað að taka flugfreyjuna á þetta strax og setja súrefnisgrímuna á mig áður en ég hjálpaði Jose,“ segir Laila.

Okkar mesta gæfa

Laila segir fæsta vita hvers þeir eigi að spyrja lækna um á stundu sem þessari.

„Ég þekkti Guðmund G. Hauksson, framkvæmdastjóra Framfarar, af öðrum vettvangi og vissi að hann hefði gengið í gegnum það sama, en á sama tíma vissi ég ekki af tilvist Framfarar né Bláa trefilsins. Ég ákvað samdægurs að hafa samband við Guðmund og þar vorum við bara gripin strax. Það er að mínu mati okkar mesta gæfa, að hafa fengið ráðgjöf, stuðning og leiðsögn frá aðila sem gat uppfrætt okkur um næstu skref og þjónustu. Undir eins fékk ég mikið af upplýsingum sem ég gat unnið úr og smám saman gefið manninum mínum þegar ég sá að hann varð móttækilegur fyrir því.“

Önnur heillastjarna sem Laila segir hafa verið yfir þeim hjónum eru góð vinahjón.

„Konan hafði greinst með brjóstakrabbamein og tók minn mann strax í gjörgæslu, kynnti hann fyrir Ljósinu og þar hjálpaði mikið að þau gátu talað um sameiginlega reynslu, á meðan ég og maðurinn hennar gátum rætt málin sem aðstandendur.“

Laila fær ekki nógsamlega þakkað stuðninginn frá Framför.

„Það sem stendur upp úr er að mér finnst ég aldrei hrædd. Það er ónotalegt að vera haldin þeirri tilfinningu, en nú þegar ég hef fengið þennan ótrúlega fallega stuðning og ráðgjöf hjá Framför veit ég að allt verður í lagi. Ég vildi bara óska að allir á þessari vegferð sæktust eftir ráðgjöf Framfarar, því það skiptir sköpum í veikinda- og bataferlinu. Okkur var bara pakkað inn í bómull og ég vildi að allir væru jafn lánsamir.“

Væri bæði skelkaðri og týndari

Allir sem greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein og aðstandendur þeirra geta leitað til Framfarar.

„Við fórum strax í ráðgjafarviðtal og höfum alltaf farið saman: ég hef aldrei sent Jose einan. Við hittum bæði Guðmund og Þráin Þorvaldsson og fengum reynslusögur og betri útskýringar á mörgu sem ég hafði ekki rænu á að spyrja um á læknafundinum, né hefði Jose getað borið sig eftir björginni sjálfur þá, eins og hann var á sig kominn. Ég sá fljótt hvað þetta gerði Jose gott, sem og samskiptin við vinahjónin sem voru í sömu sporum og Rafn lækni sem hélt líka fallega utan um okkur. Ég hvet því alla sem eru í þessum sporum til að leita allrar aðstoðar sem er í boði og það sem fyrst. Sjálf hefði ég verið mun skelkaðri og týndari, hefði ég ekki strax fengið þetta mikla og góða utanumhald. Nú lítum við Jose á krabbameinið sem verkefni sem þarf að takast á við og vitum að lífslíkur eru góðar. Engu að síður þarf að vera vakandi fyrir því að finna meinið og vera meðvitaður um það, en allt gerir þetta að verkum að við eigum auðveldara með að takast á við verkefnið og vitaskuld er ekkert annað í boði,“ segir Laila.

Jose hefur ekki enn þurft að fara í aðgerð vegna krabbameinsins en ákveðið var að hann færi fyrstu sex mánuðina í virkt eftirlit.

„Jose er líkamlega hress en á auðvitað sínar erfiðu stundir, eins og gefur að skilja. Hann gerir sér grein fyrir að PSA-gildin geta hækkað á einu augnabliki og að þá þurfi að grípa til aðgerðar, og þá tökumst við á við það. Við vitum nákvæmlega út á hvað þetta gengur og höfum fengið dýrmætan aðlögunartíma í virka eftirlitinu og með stuðningi Framfarar. Við erum ótrúlega lánsöm,“ segir Laila. ■