Dagar eru leiðandi fyrirtæki á sviði fasteignaumsjónar og bjóða upp á fjölbreytta þjónustu á því sviði. Hjá Dögum starfa um 750 manns á starfsstöðvum víðs vegar um landið. Sigrún Þormóðsdóttir er sviðsstjóri ræstingasviðs Daga og situr í framkvæmdaráði fyrirtækisins. Hún kom nýverið til starfa hjá fyrirtækinu og ber ábyrgð á stærsta tekjusviði fyrirtækisins og segir heimsfaraldurinn hafa opnað á ýmis tækifæri fyrir framsækin fyrirtæki.

„Heimsfaraldurinn hefur reynst krefjandi fyrir fyrirtæki í landinu og við höfum orðið vör við að þjónustuframboð okkar hefur fengið byr undir báða vængi á því tímabili. Það hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi þess að skapa og viðhalda heilbrigðu og aðlaðandi vinnuumhverfi,“ segir Sigrún.
Þarfir fyrirtækja og stofnana hafa tekið miklum breytingum á síðastliðnum árum, meðal annars með aukinni fjarvinnu og netverslun. Samhliða erum við sem starfsfólk og neytendur líka að meta upp á nýtt mikilvægi þess að eiga öruggan og aðlaðandi vettvang til að hitta annað fólk, upplifa og eiga í samskiptum augliti til auglitis. Í framtíðinni skiptir æ meira máli að vinnustaðurinn sé aðlaðandi og gefandi og að öryggi starfsmanna og viðskiptavina sé tryggt. Dagar mæta þessari þróun með því að bjóða upp á hentugar lausnir fyrir fyrirtæki sem hækkar þjónustustig þeirra til starfsfólks og viðskiptavina.

Rétt samsett teymi og fræðslumál lykillinn að árangri

Sigríður Héðinsdóttir, starfsmannastjóri fyrirtækisins, bætir hér við: „Við trúum því að lykillinn að árangri liggi í fjölbreytileika starfsfólks okkar og reynslu í að mæta þörfum viðskiptavina með rétt samsettu teymi. Þar hefur áhersla okkar á fræðslumál spilað stórt hlutverk. Við erum þar að auki meðvituð um mikilvægi þess að ólíkur bakgrunnur, viðhorf og fjölþætt reynsla endurspeglist í stjórnun fyrirtækisins.“

Áherslur Daga síðastliðin ár hafa þróast með breyttu starfsumhverfi og endurspeglast þær í samsetningu starfsmannahópsins. Fyrirtækið hefur mótað sér skýra stefnu í fræðslumálum og er á spennandi vegferð í stafrænum fræðslumálum. „Með markvissum skrefum í stafrænum fræðslumálum erum við að byggja ofan á reynslu okkar af staðbundinni þjálfun og sjáum fyrir okkur að gera fræðsluna persónulegri og haga að þörfum starfsmanna í enn frekari mæli,“ segir Sigríður.

Afstaða með umhverfinu

Agata T. Siek er gæðastjóri Daga og situr í framkvæmdaráði fyrirtækisins. Hún hefur það hlutverk að tryggja að gæðaferlum fyrirtækisins sé fylgt eftir og að starfsmenn fyrirtækisins fái rétta þjálfun frá fyrsta degi. „Við lítum svo á að það sé á ábyrgð fyrirtækja að tryggja viðeigandi fræðslu starfsmanna og þar af leiðandi öryggi þeirra og framþróun.
Við trúum því líka að til þess að tryggja árangursríkar aðgerðir þegar kemur að umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð þá sé mikilvægast að vera einlæg og láta verkin tala.“

Dagar hafa síðan 2013 verið meðlimir að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, og hefur ræstingarþjónusta fyrirtækisins verið vottuð með umhverfisvottun Svansins síðan 2009. Síðastliðin ár hefur mikil áhersla verið lögð á umhverfisvæna efnisnotkun og fræðslumál í þessum málaflokki en fyrirtækið hefur sett sér markmið um að ganga enn lengra í umhverfismálum. „Kolefnisspor ökutækja er stórt hlutfall af vistspori okkar þar sem að starfsfólk okkar þarf að komast á milli staða um land allt. Við höfum séð að ef ekkert er að gert þá muni kolefnissporið vaxa umtalsvert á næstu árum og teljum við það ekki ásættanlegan valkost. Þess vegna höfum við sett okkur það markmið að héðan í frá munum við einungis fjárfesta í rafdrifnum bílum þegar endurnýja á ökutæki fyrirtækisins.“