Kathiravan Narayanan, kallaður Kathir, er yfirmaður á framleiðslusviði Alvotech. Hann hefur starfað hjá Alvotech í tæp fimm ár, en hann flutti hingað til lands með konu sinni og dóttur og hjónin hafa eignast einn son hér á landi.

„Ég valdi starfið hjá Alvotech fram yfir góð störf sem mér buðust í öðrum löndum og mér hefur aldrei dottið í hug að skipta um starf vegna þess að Alvotech kemur einstaklega vel fram við starfsfólkið sitt. Allir starfsmenn vinna saman að sama markmiði og ef það koma upp einhver vandræði eru þau alltaf leyst hratt og vel. Þetta er gott fyrirtæki með gott skipulag og gott starfsfólk,“ segir Kathir. „Alvotech tekur líka mjög vel á móti erlendu starfsfólki eins og mér og hefur hjálpað okkur mikið við að ná fótfestu í íslensku samfélagi. Þegar ég byrjaði hjá fyrirtækinu var bara einn annar starfsmaður sem kom frá Indlandi en nú eru nokkrir tugir okkar að starfa hér.“

Alvotech vinnur hratt og vel

„Undir mér starfa 140 manns á framleiðslusviði. Við framleiðum líftæknilyfjahliðstæður, en það eru lyf sem eru hliðstæður við líftæknilyf sem eru að missa einkaleyfið,“ segir Kathir. „Við tölum um hliðstæðulyf því þegar um er að ræða líftæknilyf þá er aldrei hægt að gera nákvæma eftirlíkingu, en lyfið uppfyllir nákvæmlega sömu kröfur um virkni, gæði og öryggi og frumlyfið. Alvotech er eina líftæknilyfjafyrirtækið á Íslandi sem sinnir þessari sérhæfðu framleiðslu, en líftæknilyf eru búin til í lífverum eins og örverum eða frumum og þau ræktuð í sérstökum ræktunartönkum. Próteinin sem frumurnar framleiða eru svo hreinsuð og þeim komið fyrir í viðeigandi lyfjaformum sem henta til meðferðar á sjúklingum.

Við erum með nokkur slík lyf í vinnslu sem eru á mismunandi stigum þróunarferilisins, en byggt á reynslu minni þá er Alvotech hraðara og betra en samkeppnin í að koma lyfjunum á markað,“ segir Kathir. „En Alvotech er með öflugan hóp starfsmanna með yfirgripsmikla reynslu og þekkingu og skilvirka ferla sem styðja við hraða ákvörðunartöku.“

Hörð samkeppni á markaðnum

„Líftæknilyf eru sértækari en þessi hefðbundnu smásameindalyf sem við þekkjum flest. Sem dæmi má nefna lyf sem geta komið að gagni í krabbameinsmeðferð og drepa ekki heilbrigðar frumur um leið og þau drepa krabbameinsfrumur, líkt og gerist í hefðbundinni krabbameinsmeðferð,“ útskýrir Kathir. „Þannig geta þessi lyf verið betri fyrir bæði heilsu og bata fólks. Verðlagið á líftæknilyfjum er hins vegar yfirleitt hátt, en lækkar þegar hliðstæðulyf eins og okkar fara á markað, sem gerir fleirum kleift að nýta sér þau.

Það er hörð samkeppni á þessu sviði og því er mikilvægt að vinna hratt, bæði til að ná góðri markaðshlutdeild þegar einkaleyfi renna út og nýjar líftæknilyfjahliðstæður koma á markað og líka til að auka aðgengi fyrir sjúklinga að góðum lyfjum og draga úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og sjúklinga,“ segir Kathir. „Nýsköpun er vitaskuld afar mikilvæg, en það þarf skapandi og gagnrýna hugsun til að finna leiðir til að draga úr kostnaði og auka framleiðni. Með góðri nýsköpun tryggir fyrirtækið sér betri og stöðugri markaðsstöðu.

Það þarf alltaf að taka smá áhættu til að fara nýjar leiðir, en nýsköpun er í sjálfu sér ekki áhættusöm,“ segir Kathir. „Það er bara með nýjum og skapandi hugmyndum sem hægt verður að veita fleira fólki aðgengi að þessum lyfjum á viðráðanlegu verði og veita fleiri sjúklingum þá meðferð sem þeir þurfa.“

Þurfti að byggja upp þekkingu

„Helsta áskorunin við að byggja upp líftæknilyfjafyrirtæki á Íslandi var að mannauður á ýmsum sviðum iðnaðarins er takmarkaður hér á landi. En Alvotech hefur dregið mikið af sérfræðiþekkingu til landsins og þessir sérfræðingar hafa lagt mikið af mörkum við að koma á öflugu þjálfunarprógrammi innan fyrirtækisins og byggja þannig þekkingu innanlands. Fyrirtækið vinnur jafnframt náið með háskólunum hér í að efla rannsóknir og nám í líftækni, svo það er líka verið að rækta þennan þekkingargrundvöll hér innanlands,“ segir Kathir. „Það var því án efa erfitt að fara af stað til að byrja með, en í dag er kominn góður grunnur fyrir líftæknifyrirtæki hér á landi.

Það hefði auðvitað verið hægt að byggja þessa starfsemi upp í öðru landi og það hefði ef til vill verið auðveldara og ódýrara, en það var sterkur vilji til að byggja upp þessa þekkingu og iðnað hér,“ segir Kathir. „Nú hefur fyrirtækið skapað sér gott orðspor svo þegar laus störf eru auglýst sækjast erlendir sérfræðingar eftir þeim. Menningin hér dregur fólk að og lífsgæði eru góð á Íslandi og því vill fólk koma hingað til starfa.

Aðalástæðan fyrir því að það hefur gengið svo vel að draga erlenda sérfræðinga hingað er samt sú að Alvotech kemur svo vel fram við okkur og vegna þess hve vel Íslendingar taka okkur,“ segir Kathir. „Það hefur verið áskorun fyrir fólk sem kemur hingað frá Indlandi að venjast veðráttunni og dagsbirtunni, en vegna þess hve vel er tekið á móti fólki hér hafa langflestir verið mjög ánægðir hér og starfsmannaveltan er lág miðað við önnur svipuð fyrirtæki.“

Auðveldar Indverjum að aðlaga sig að nýju landi og lífsháttum

Kathir hefur leikið stórt hlutverk í að laða erlenda sérfræðinga hingað frá Indlandi. Hann hefur haldið mjög vel utan um þennan hóp og lagt sig fram við að gera aðlögun þeirra auðveldari, bæði í vinnu og einkalífi.

„Ég kom að stofnun samtaka Indverja á Íslandi því þau voru ekki til staðar þegar ég flutti hingað. Það eru margar áskoranir sem fylgja því að flytja til nýs lands og þó að Alvotech hafi stutt mig af krafti frá íslensku sjónarhorni eru Indverjar að nokkru leyti með aðrar þarfir og lífshætti en Íslendingar og við stofnuðum samtökin til að hjálpa öðrum indverskum innflytjendum við þessa þætti og að komast inn í samfélagið,“ segir Kathir. „Það eru til dæmis margir makar heimavinnandi og við vildum sjá til þess að þetta fólk hefði tengsl við aðra indverska innflytjendur og samfélagið í heild. Alvotech hefur svo stutt okkur og verið duglegt við að skipuleggja viðburði fyrir þetta fólk. Þessi samtök hafa vaxið hratt og með hjálp þeirra er orðið miklu auðveldara fyrir indverska innflytjendur að setjast hér að.“

Kathir átti meðal annars þátt í að stofna krikket-lið hér á landi, sem heitir Vesturbær Volcanos.

„Það kom mörgum Indverjum á óvart að hér væri spilað krikket, en það á sér sögu sem nær allt til fimmta áratugs síðustu aldar, en hefur ekki þróast mikið hér. Ég hitti mann sem var frá sama hluta Indlands og ég sem býr hér á landi og starfar með sprotafyrirtækjum og við fórum að ræða saman um krikket,“ segir Kathir. „Svo ræddi ég það við Alvotech hvort það væri ekki ráð að styðja krikketið á Íslandi, ekki síst til að gefa fjölskyldum eitthvað til að gera saman og gefa starfsfólkinu góða ástæðu til að fara út úr húsi og hitta aðra, sem getur stundum verið áskorun fyrir Indverja, sem eru vanir allt öðru loftslagi. Yfirmenn hjá Alvotech voru spenntir fyrir hugmyndinni og ákváðu að styrkja liðið, og við lentum í öðru sæti í íslensku deildinni í fyrra.“