Ásdís Halldórsdóttir íþróttafræðingur er forstöðumaður Heilsu og vellíðunar hjá Sóltúni Heima sem sérhæfir sig í heimaþjónustu og heilsueflingu eldri borgara. Ásdís segir að heilsuefling hafi mikið að segja fyrir fólk sem er farið að eldast, sérstaklega er mikilvægt að gera styrktar- og jafnvægisæfingar þar sem jafnvægisskynið minnkar með aldrinum. „Við erum búin að byggja upp mjög öfluga heilsueflingu og höfum verið að þjálfa hópa sem hefur gefist mjög vel. Með styrktarþjálfun getur fólk aukið styrk sinn og jafnvægi auk þess að minnka hættu á falli. Þetta er eitt það besta sem fólk getur gert til að halda góðri heilsu og lífsgæðum. Við erum með flottan tækjasal þar sem boðið er upp á æfingar undir leiðsögn þjálfara,“ segir Ásdís.

Hún bendir á að einn hópurinn, Kraftajötnar, samanstandi af hressum körlum á aldrinum 67-92 ára. „Konur eru í öðrum hópi sem nefnist Kjarnakonur og þær hittast tvisvar í viku eins og karlarnir og gera styrktar- og jafnvægisæfingar ásamt góðum teygjum. Síðan erum við með þriðja hópinn, Morgunhana, sem er blandaður hópur karla og kvenna. Að síðustu má nefna Vatnaliljur sem eru í vatnsleikfimi. Það hentar sumum mun betur að gera æfingar í vatni. Það er til dæmis auðvelt að hoppa í sundi,“ segir Ásdís og bætir við að allir hóparnir kynnist vel og með þeim skapist skemmtilegur félagsskapur sem mörgum er dýrmætur. „Þetta eru litlir hópar og við höldum vel utan um hvern og einn. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir að vera með okkur,“ segir hún. „Eftir hvern tíma sest fólkið niður, spjallar saman og fær sér kaffi.“

Anna Þóra Árnadóttir sem er sjötug hefur stundað æfingar hjá Kjarnakonum. „Þessar æfingar hafa sannarlega verið til bóta bæði andlega og líkamlega,“ segir hún. „Þetta er annar veturinn minn í þessum hópi og það eru ekki bara æfingarnar sem hafa gert mér gott heldur einnig félagsskapurinn. Hópurinn samanstendur af skemmtilegum konum og ég get mælt hundrað prósent með þessu. Ég hef alltaf stundað leikfimi og útiveru en ég þurfti að styrkja bakið og þessar æfingar með Kjarnakonum hafa hjálpa mér mikið.“

Sóltún Heima býður einnig víðtæka heimaþjónustu. „Við getum boðið upp á allt það sem fólk þarfnast þegar það er komið á efri árin, til dæmis regluleg innlit eða aðstoð við hvers konar hluti, til dæmis böðun eða aðstoð við matmálstíma. Við höfum fengið frábær viðbrögð og ánægju með þjónustuna okkar. Allt okkar starfsfólk talar íslensku,“ segir Ásdís og bendir á að Sóltún Heima bjóði einnig upp á heimahreyfingu. „Þá förum við heim til þeirra sem eiga erfitt með að fara úr húsi. Kerfið er byggt á einstöku æfingakerfi frá Danmörku með markvissum styrktaræfingum sérstaklega fyrir aldraða. Reynslan hefur sýnt að þær skila auknum styrk og bættu jafnvægi.“

Sóltún Heima býður upp á fjóra líkamsræktarhópa, þeir nefnast Morgunhanar, Kraftajötnar, Kjarnakonur og Vatnaliljur. Styrktarþjálfunin fer fram í íþróttahúsi ÍFR, Hátúni 14, en vatnsleikfimin í Mörkinni við Suðurlandsbraut.

Heilsuhóparnir fara af stað 7. janúar og skráning er hafin. Upplýsingar og skráning á heimasíðunni www.soltunheima.is, soltunheima@soltunheima.is eða síma 5631400.