„Fyrsta netverslun S4S var stofnuð árið 2011 með opnun Skór.is, þar sem allar skóverslanir okkar sameinast í eina öfluga netverslun. Síðan þá hefur ýmislegt breyst. Árið 2014 opnuðum við AIR búðina í Smáralind og samhliða því AIR.‌is sem er með Nike vörumerkið og árið 2017 sameinumst við Ellingsen og opnum þá Ellingsen.is. Nýjasta viðbótin er svo Rafhjolasetur.is,“ segir Ásdís Jörundsdóttir, rekstrarstjóri Netverslana S4S.

„Við erum með vörur sem henta öllum og allir þurfa. Við erum með skó á alla fjölskylduna, alhliða íþrótta- og útivistarfatnað og fjölbreytt úrval af rafhjólum og ferðatækjum eins og Buggy-bílum, vélsleðum og fjórhjólum,“ segir Ásdís.

Notendavænar breytingar

„Árið 2020 var mjög stórt hjá okkur í netversluninni en salan tæplega þrefaldaðist í því ástandi sem skapaðist. Segja má að netverslanirnar hafi farið úr því að vera sýningarsalir viðskiptavina sem síðan komu í verslanir og keyptu það sem þeir höfðu þegar valið, yfir í að vera viðbót við verslanir okkar, þar sem fólk kláraði kaupin. Við sáum mikil tækifæri í þessu og settum því enn meiri áherslu á þróun netverslananna og höfum í raun endurhugsað netverslanir okkar frá grunni. Við opnuðum nýja síðu fyrr á árinu, rafhjólasetur.is, og erum núna að vinna að nýjum síðum frá grunni fyrir allar netverslanir okkar, auk þess að bæta við síðunni BRP.is, sem eru ferðatækin í Ellingsen.

BRP hefur verið partur af Ellingsen.is en við ætlum núna að gefa því sitt vægi á síðu sem er hönnuð fyrir tækjasölu. Þannig að rafhjoasetur.is og BRP.is eru nýjustu börnin okkar. Nýju síðurnar eru unnar upp á nýtt frá grunni, þær eru notendavænni og léttari í viðmóti. Við erum líka að vinna að vildarklúbbi sem við viljum koma í gagnið sem fyrst og munum þá tengja hann við verslanirnar okkar sem eru alls fjórtán, auk fjögurra netverslana núna.“

Ennþá hraðari afgreiðsla

„Þá erum við að fara að flytja, netverslunina sjálfa, en í lok sumars munum við opna nýja Steinar Waage verslun í Smáralind. Þar verða þá höfuðstöðvar netverslunarinnar sem nú er til húsa í Grafarholti. Það að vera inni í verslunarmiðstöðinni mun flýta afgreiðslu netpantana umtalsvert en það er eitt af því sem okkur langar mjög mikið að gera, að auka þjónustuna og bjóða upp á afhendingu pantana eins fljótt og mögulegt er en við finnum að kröfurnar um hraðari afgreiðslu eru að verða sífellt meiri.“

„Við erum líka að vinna að nýju birgðakerfi sem hjálpar okkur við afgreiðslu á pöntunum af því að við erum ekki með einn miðlægan lager, heldur er hver verslun með sinn lager sem kerfi netverslunar leitar í. Við erum að sækja vörurnar á 16 lagera í dag en nýja kerfið mun hraða afgreiðslu til muna.“

Ásdís segir mikið um að vera hjá S4S þessa dagana.

Fjölbreyttar afhendingarleiðir

Viðskiptavinir geta valið á milli ólíkra afhendingarleiða eftir því hvað hentar hverjum og einum. „Við hófum nýlega samstarf við Dropp sem er með 17 afhendingarstaði um allan bæ sem og sjö úti á landi en þeir sjá líka um heimsendingar á höfuðborgarsvæðinu. Pósturinn sér um að keyra út fyrir okkur utan höfuðborgarsvæðisins og þá erum við að nota póstboxin sem hafa verið mjög vinsæl undanfarið.

Svo er auðvitað hægt að sækja í verslanirnar til okkar. Við viljum bjóða fólki upp á fjölbreytta valkosti og eins minna á að það er hægt að fá sent til dæmis í vinnuna ef það hentar. Ég er ekki viss um að það séu allir sem kveikja á því að það er hægt að velja um að fá sendinguna á vinnustaðinn sem getur verið þægilegt fyrir marga.“

Þá er lítið mál að skila eða skipta. „Við erum með 14 daga endurgreiðslufrest og það er auðvelt að skila til okkar eða fá skipt. Bráðum munum við bjóða upp á heimsendingu þegar verið er að skipta vöru.“

Spennandi tækninýjungar

Ásdís segir að miklar tækninýjungar séu fyrirhugaðar en fyrirtækið hafi til dæmis þróað gjafakort sín mikið á síðustu mánuðum. „Við erum afar stolt af þeirri þróun sem gjafakortin okkar hafa verið í, en núna eru þau með fulla virkni í netverslun auk þess sem hægt er að setja þau inn í snjallsímaveski í bæði Android- og Apple-símum, greiða með þeirri lausn og fylgjast með innistæðunni í rauntíma.

Þetta er eitthvað sem ég veit ekki til þess að hafi verið gert áður og við erum ákaflega spennt fyrir þessu. Við erum búin að vera með þetta í maganum lengi en í byrjun þessa mánaðar náðum við að leysa öll tæknileg mál og lausnin leit dagsins ljós og virkar,“ segir Ásdís.

„Næsta skref er að koma inneignarnótunum í símana líka, þannig að enginn muni glata því fé sem hann á hjá okkur. Þá er það líka markmiðið hjá okkur að þegar þú kemur inn í verslanir okkar pípir síminn þinn og lætur þig vita ef þú átt inneign hjá okkur, en gjafakortin og inneignarnóturnar okkar er hægt að nýta í öllum okkar verslunum. Það er mjög týpískt að labba inn í búð, kaupa eitthvað og fatta svo þegar þú ert að labba út að þú hafir átt inneign eða gjafakort uppi í skápnum heima, það viljum við koma í veg fyrir.“

Þjónusta við allt landið

S4S leggur þá áherslu á að veita viðskiptavinum þjónustu óháð búsetu. „Við erum með eina Ellingsen-verslun á Akureyri og svo er netverslunin úti um allt land. Við reynum að þjónusta fólk sama hvar það er á landinu en sem dæmi má nefna að þegar það eru tilboð í verslunarmiðstöðvunum þá bjóðum við á sama tíma upp á sömu tilboð á netinu þannig að þeir sem ekki komast geti líka nýtt sér tilboðin.“

Ljóst er að það er nóg um að vera hjá S4S. „Það eru miklar breytingar hjá okkur þessa dagana og að mörgu að huga. Við erum með ólíka hópa viðskiptavina á öllum aldri og það er ákveðin ögrun fyrir okkur að mæta væntingum allra en við tökum verkefninu fagnandi,“ segir Ásdís.