Iceland Innovation Week er ný hátíð sem var sett á laggirnar til að sýna fjölbreytileika nýsköpunar hér á landi. ,,Hátíðin er markaðsgluggi nýsköpunar út á við. Við leggjum áherslu á nýsköpun jafnt í stærri sem minni fyrirtækjum. Fólk telur mögulega að það sé ekkert mikið að gerast í nýsköpun hjá stærstu fyrirtækjunum en það er fjarri sanni. Það er einmitt bullandi nýsköpun og alls konar spennandi verkefni í gangi. Hátíðin er vettvangur til þess að sýna fram á það,“ segir Melkorka.

Yfir áttatíu viðburðir

,,Á hátíðinni verða mörg þeirra flottu sprotafyrirtækja sem við eigum hér heima með viðburð. Sömuleiðis eru nokkur erlend nýsköpunarfyrirtæki að halda viðburði. Það er frítt inn á flestalla þessa viðburði og þeir eru aðgengilegir öllum. Almenningur getur komið og notið þess sem boðið er upp á en alls eru þetta yfir 80 viðburðir frá nær jafnmörgum samstarfsaðilum. Þeir eru allt frá því að vera mjög léttir og skemmtilegir upp í alvarlegri hluti sem skipta samt svo miklu máli fyrir okkar daglega líf,“ segir Melkorka enn fremur og bætir við að þetta sé allt frá frumkvöðlasjósundi í Nauthólsvík yfir í byltingarkennd ný gervihné frá Össuri og allt þar á milli. Hægt er að kynna sér alla viðburði hátíðarinnar á heimasíðunni innovationweek.is.

,,Mörg stærstu fyrirtæki landsins eru með okkur og get ég þar nefnt Haga, Marel, Össur, Brim, Samkaup, VÍS, Landsvirkjun auk margra fleiri og yfir í pínulítil frumkvöðlafyriræki sem eru að gera frábæra hluti. Sum af þessum litlu fyrirtækjum voru jafnvel stofnuð á þessu ári.“

Alþjóðleg nýsköpun

Melkorka og Edda hafa starfað lengi í umhverfi nýsköpunar. Þær unnu báðar hjá Iceland Startups sem í dag heitir Klak. Þar stýrðu þær ýmsum verkefnum fyrir sprotafyrirtæki. Starf þeirra náði langt út fyrir landsteinana enda er hugsjónin sú að gera nýsköpunarvikuna alþjóðlega. ,,Öll Norðurlöndin eru með nýsköpunarhátíðir sem eru mjög vel sóttar og þar ber hæst að nefna hátíðina SLUSH í Finnlandi sem íslensk sprotafyrirtæki hafa sótt í áraraðir. Nú snúum við dæminu við og finnum fyrir miklum áhuga erlendis frá á hátíðinni hér heima,“ segir Melkorka.

Hátíðin hefur vaxið mikið í ár og það er ótrúlega gaman að sjá hversu mörg íslensk fyrirtæki vilja taka þátt, segja þær Edda og Melkorka.Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/?SIGTRYGGUR ARI

,,Okkur fannst vanta svona hátíð hér á landi en undirbúningur hófst korter í Covid. Við settum fyrstu hátíðina í Grósku á iðnaðarsvæði þar sem forseti Íslands var meðal gesta auk ráðherra. Þetta var sama dag og hörðustu samkomutakmarkanir skullu á þjóðinni. Hátíðin var því öll rafræn það árið. Næsta ár á eftir náðum við að halda nokkra viðburði en mest allt var einnig á netinu árið 2021. Núna er hátíðin loksins að springa út og við getum gert það sem upphaflega stóð til. Við viljum vera Iceland Airwaves fyrir nýsköpunarheiminn. Sýn okkar Eddu er að fólk geti komið á ,,Off Venue“ og uppgötvað stjörnur framtíðarinnar á þessu sviði. Hátíðin hefur vaxið mikið í ár og það er ótrúlega gaman að sjá hversu mörg íslensk fyrirtæki vilja taka þátt. Við værum ekkert án þeirra,“ segir hún og bætir við að á sama tíma séu þær að finna verulega mikinn áhuga erlendis frá.

,,Hingað eru að koma erlendir frumkvöðlar, fjárfestar og fólk úr nýsköpunarheiminum frá Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og víðar. Mér finnst því hátíðin vera komin til að vera. Ísland er að stimpla sig inn á nýsköpunarsenuna með hátíð sem þessa. Þetta er alþjóðleg hátíð og heimasíðan okkar er á ensku en það er lykillinn að því að fá erlenda gesti,“ segir Melkorka og bendir á að mörg lítil sprotafyrirtæki verði með alls kyns ,,happy hour“.

Margt spennandi á dagskrá

Hátíðin sjálf er líka með nokkra skipulagða viðburði á sínum vegum en setning verður í Grósku kl. 9 á mánudagsmorgun. Forstjórar og nýsköpunarsérfræðingar munu koma fram og segja sögur tengdar nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Á miðvikudaginn verðum við með viðburð sem heitir Ok, bye. Þetta er nokkurs konar loftslagsleikhús sem hátíðin vinnur í samstarfi við Davíð Stefánsson, frumkvöðul og fjárfesti. Á viðburðinum verða heimsklassa frumkvöðlar og fjárfestar í loftslagsmálum ásamt listafólki á sviði. Þetta verður síðan sett í ákveðinn listrænan búning, klárlega nýstárlegur og einstakur viðburður. Um kvöldið höldum við Nordic Startup Awards sem er nokkurs konar óskarshátíð fyrir norrænu sprotasenuna. Frumkvöðlar alls staðar af Norðurlöndum munu mæta og keppa um titilinn Sproti ársins og frumkvöðull ársins svo fátt eitt sé nefnt.“

Edda segir að það eigi margt eftir að koma fólki á óvart á Iceland Innovation Week. ,,Þarna er verið að sýna alla þá grósku sem á sér stað í nýsköpun og það er margt mjög forvitnilegt. Til dæmis ætla Marel og Brim að bjóða fólki að heimsækja nýja verksmiðju úti á Granda þar sem vélmenni taka að sér störfin. Háskóli Íslands úthlutar nýsköpunar- og vísindaverðlaunum og Ríkiskaup standa fyrir degi opinberrar nýsköpunar. Þetta verður því sérstaklega fjölbreytt hátíð.“

Góður stuðningur

Melkorka segir að stuðningur sem hátíðin hefur fengið frá stjórnvöldum hafi skipt miklu máli. ,,Bæði nýsköpunarráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa stutt okkur sem við erum þakklátar fyrir því verkefnið hefði aldrei orðið svona stórt ef sá stuðningur hefði ekki komið til. Nýsköpun er ekki einhver ein atvinnugrein heldur liggur þvert á allar greinar atvinnulífsins. Það vita allir að skapandi hugsun er lykillinn að því að leiða okkur út úr loftslagsvandanum. Mjög margt jákvætt er að gerast í þeim málum sem þarf að verða sjáanlegt. Það verður gaman að varpa ljósi á þessar lausnir sem er verið að vinna að nú þegar. Einnig má nefna lausnir á sviði orku, heilsu, fjártækni og margt fleira spennandi. Hátíðin mun endurspegla þessa miklu breidd,“ segir Melkorka, sem er lærður dansari og danshöfundur, en nýsköpun varð henni afar hugleikin þegar hún kláraði nám í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.

,,Mér fannst heillandi að tengja saman frumkvöðulinn og listamanninn. Í grunninn eru þessir tveir aðilar ekkert ólíkir. Skapandi aðilar sem þurfa að sanna sig. Ég held að það sé þessi sköpunarkraftur sem heilli bæði mig og Eddu. Það er svo frábært að kynnast öllum þeim sem leysa vandamálin en tala ekki bara um þau.“