Nýsköpunarsjóður námsmanna var stofnaður árið 1992 með 10 milljóna króna framlagi en síðan hefur hann vaxið jafnt og þétt. Margar hugmyndir hafa verið þróaðar og verkefnin orðið að framúrskarandi fyrirtækjum.

„Þetta er mjög mikilvægur og frábær sjóður,“ segir Þorgerður Eva Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís. „Það hefur sýnt sig að þeir sem sækja um í Nýsköpunarsjóð námsmanna halda gjarnan áfram að þróa hugmyndir sínar, fá frekari styrki bæði innan lands og utan. Mörg af helstu nýsköpunarfyrirtækjunum á Íslandi fengu í upphafi styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sjóðurinn var stofnaður 1992 með tíu milljóna króna framlagi en síðan hefur hann vaxið jafnt og þétt,“ segir Þorgerður.

„Stjórnvöld og Reykjavíkurborg hafa séð sér hag í því að styrkja sjóðinn á erfiðum tímum í samfélaginu þegar erfitt hefur verið fyrir stúdenta að fá sumarvinnu. Það var bætt myndarlega í sjóðinn 2008 og aftur árið 2020 og árið 2023 er framlag í sjóðinn um 350 milljónir en á því miður að lækka hann niður í 80 milljónir 2024. Ég vona samt innilega að það komi ekki til þess því það er svo mikilvægt að námsmenn geti unnið á sumrin við störf sem tengjast þeirra námi og að ungir vísindamenn hafi vettvang til að blómstra við sína fræðimennsku. Það sýnir augljóslega mikil eftirspurn í sjóðinn, sem fer sívaxandi,“ segir hún.

Markmið sjóðsins og áherslur

„Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknar- og þróunarverkefni. Verkefni eru unnin yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Hámarksstyrkur fyrir hvern námsmann er þrír mánuðir. Það er lögð áhersla á að hafa góða breidd við val á verkefnum og að þau nái yfir sem flest fræðasvið. Sömuleiðis viljum við að verkefnin séu um allt land en ekki einskorðuð við höfuðborgarsvæðið.

Umsóknirnar fara í gegnum mjög faglegt matsferli og unnið er með þær eins og alla aðra rannsóknarstyrki þótt upphæðirnar séu ekki mjög háar á hvern námsmann. Umsjónarmaður verkefnis sér til þess að það sé unnið á réttum tíma og er námsmanni innan handar. Að hausti skila námsmenn lokaskýrslu um framvindu og niðurstöðum verkefnisins,“ upplýsir Þorgerður.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands veitt í 26 ár

„Stjórn sjóðsins tilnefnir árlega 5-6 verkefni, sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis, til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Aðeins eitt verkefni getur hlotið sjálf Forsetaverðlaunin. Verðlaunin voru fyrst veitt í ársbyrjun 1996 og hafa síðan verið veitt á ári hverju við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Mörg dæmi eru um að nýsköpunarverkefni hafi velt af stað viðameiri þróunarverkefnum innan fyrirtækja. Ungt fólk er oft djarft og frjótt í hugsun og fyrirtæki hafa verið tilbúin til að fjárfesta í hagkvæmnisathugun með aðstoð Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Oft eru það áhugasömustu námsmennirnir sem sækjast eftir vinnu við rannsóknir á sumrin.

Vinna á vegum Nýsköpunarsjóðs hefur verið vettvangur fyrirtækja til að mynda tengsl við nemendur og oft hafa þau tengsl leitt til atvinnutilboða að námi loknu. Sjóðurinn er því einnig ákjósanlegur vettvangur fyrir nemendur til að kynnast framsæknustu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Umsjónarmenn verkefna hjá fyrirtækjum og stofnunum sækja um að fá til sín námsmenn með launum frá nýsköpunarsjóði. Sækja þarf um hjá Rannís sem fer með alla umsýslu.“

Umsóknarfrestur úr Nýsköpunarsjóði til að sækja um launaða námsmenn fyrir sumarið 2023 er til 6. febrúar klukkan 15.