Rannís styður þekkingarsamfélagið á mörgum sviðum. Meðal þeirra er Nýsköpunarsjóður námsmanna sem hefur veitt háskólanemum í grunn- og meistaranámi tækifæri til rannsókna- og þróunarvinnu í samstarfi við fagaðila. Greiðslur til sjóðsins hafa hækkað mikið á undanförnum árum. Ríkið leggur sjóðnum til 325 milljónir og Reykjavíkurborg 30 milljónir.

„Yfir 300 nemendur fá árlega stuðning til að vinna að áhugaverðum verkefnum en í fyrra voru umsækjendur um eitt þúsund þannig að þetta getur verið heilmikil samkeppni,“ segir Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðsstjóri hjá Rannís. „Í upphafi var styrkurinn 10 milljónir en fór upp í 80 milljónir í fjármálahruninu 2008 en þá var mikið atvinnuleysi hjá stúdentum. Aftur hækkaði styrkurinn þegar heimsfaraldurinn skall á 2020 og þá sem einn af aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar. Þá fékk sjóðurinn mjög aukið fjármagn og vonandi er það komið til að vera því eftirspurnin er mikil,“ segir Ágúst.

Umsóknarfrestur til að sækja um styrk fyrir sumarið 2022 er til 7. febrúar. Sækja þarf um hjá Rannís sem fer með alla umsýslu. Að sögn Ágústs eru árlega tilnefnd sjö fyrirmyndarverkefni og er höfundum þeirra boðið á Bessastaði. Eitt þeirra hlýtur síðan Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.

„Við lögðum fram könnun með lokaskýrslum nema 2021 og spurðum hvort stúdentar hefðu fengið atvinnutækifæri eftir verkefnið og það voru um 34 prósent nema,“ segir Rakel Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Ágúst bætir við að það hafi komið þeim ánægjulega á óvart. „Þetta voru annað hvort verkefni sem nemarnir lögðu til eða fyrirtæki komu með til þeirra,“ segir Rakel en sjóðurinn hefur komið við sögu í fjölmörgum háskóla- og sprotaverkefnum í gegnum árin.

Hér eru nokkur dæmi um fyrirtæki sem hafa verið að taka til sín nemendur í gegnum sjóðinn:

  • Genki Instruments
  • Algalíf
  • Nox Medical
  • Optit og Showdeck
  • Kara Connect
  • GeoSilica
Árlega eru tilnefnd sjö fyrirmyndarverkefni og er höfundum þeirra boðið á Bessastaði. Eitt þeirra hlýtur síðan Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands, upplýsa þau Ágúst og Rakel.Serbl_Myndatexti:FRÉTTABLAÐIÐ/Serbl_Myndatexti:ANTON BRINK

„Mörg árangursrík verkefni hafa sprottið upp hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna, til dæmis tók hún Alma Dóra verkefnið sitt áfram og bjó til podcastið „Konur í nýsköpun“. Einnig er gaman að nefna fyrirtækið Krakkakropp sem fékk styrk úr sjóðnum sumarið 2021. Styrkurinn gerði þeim kleift að taka verkefnið lengra og eru þau komin með fjárfesta, búin að fá fyrirtækjastyrk úr Fræ hjá Tækniþróunarsjóði og búin að taka þátt í tveimur viðskiptahröðlum,“ upplýsir Rakel.

„Við höfum alltaf lagt áherslu á að hafa góða breidd við val á verkefnum, að þau nái yfir sem flest fræðasvið. Sömuleiðis viljum við að verkefnin séu um allt land en ekki einskorðuð við Reykjavík,“ segir Ágúst og Rakel bætir við að það séu fimm stjórnarmeðlimir sem séu í valnefnd auk sex fagráða frá mismunandi sviðum.

„Umsóknirnar fara í gegnum mjög faglegt matsferli og unnið er með þær eins og alla aðra rannsóknarstyrki þótt upphæðirnar séu ekki mjög háar á hvern. Hver nemandi fær 340 þúsund á mánuði í þrjá mánuði til að sinna verkefnum í sumar. Umsjónarmaður er með verkefninu sem sér til þess að það sé unnið á réttum tíma og er nemanda innan handar. Lokagreiðsla styrksins er greidd þegar verkefni er skilað,“ segir Rakel og er afar fátítt að styrkþegar ljúki ekki við verkefni sitt. Ágúst bendir á að umtalsverður fjöldi styrkja fari til fyrirtækja eða opinberra stofnana sem taka á móti nemandanum. „Stór hluti er líka eingöngu unninn í háskólum eða í tengslum við þá. Þetta má þó ekki vera hluti af lokaverkefni nemandans.“

Þau segjast vonast til þess að svipaður fjöldi sæki um núna og á síðasta ári. Í fyrra hlutu sex verkefni tilnefningar en tilkynnt verður um verðlaunahafa á Bessastöðum um mánaðamótin. „Það var mikil vinna að fara yfir verkefni síðasta árs og erfitt að velja úr þeim sem bárust því mörg voru mjög góð,“ segir Rakel. Ágúst segir að sjóðurinn skapi sumarvinnu fyrir 300 stúdenta. „Við erum að fá mikið fyrir styrkina, bæði í mannauði, hugmyndum og reynslu. Þetta er því góð fjárfesting.“

Skúli Helgason kom að stofnun Nýsköpunarsjóðs námsmanna árið 1992.

Frumkvöðlastarf 1992

Skúli Helgason borgarfulltrúi situr í stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem fulltrúi Reykjavíkurborgar. Hann átti stóran hlut í því að stofna sjóðinn á sínum tíma. „Ég var þá ungur maður í Stúdentaráði í Háskólanum fyrir Röskvu, en við rákum meðal annars atvinnumiðlun námsmanna. Um vorið 1992 þurrkaðist út allt framboð sumarstarfa fyrir stúdenta í Háskólanum. Það var mjög dramatískt því venjulega komu atvinnuboðin á vorin eins og lóan. Á þessum tíma var niðursveifla í efnahagslífinu og engin störf í boði. Við veltum fyrir okkur hvað væri hægt að gera til að mæta þessu atvinnuleysi. Ég lagði fram tillögu fyrir hönd Röskvu um að settur yrði á fót rannsóknastyrktarsjóður. Við fengum það samþykkt hjá Stúdentaráði og í framhaldinu fórum við í leiðangur til að reyna að fjármagna sjóðinn og fá stuðning ríkisstjórnarinnar,“ segir Skúli og bætir því við að þetta hafi gengið nokkuð vel.

„Eftir nokkra fundi með forsætisráðherra og öðrum ráðherrum hringdi félagsmálaráðherra í mig. Það var Jóhanna Sigurðardóttir sem spurði hvað við teldum að þyrfti mikið fjármagn til að koma sjóðnum á laggirnar. Við töldum að 10 milljónir myndu hjálpa mikið og Jóhanna fékk það samþykkt hjá ríkisstjórninni. Eftir þetta var sjóðurinn vistaður hjá menntamálaráðuneytinu sem var eðlilegt og haldið utan um hann fyrstu árin,“ segir Skúli. „Ég var sjálfur í fyrstu stjórninni ásamt Þorsteini Inga Sigfússyni sem nú er látinn og fleiri góðum mönnum en fljótlega fengum við fyrirtæki í lið með okkur ásamt sveitarfélögum. Borgin steig kröftuglega inn í þetta samstarf og hefur verið með síðan. Það er mjög gaman að sjá hvernig sjóðurinn hefur þróast og fjárveitingarnar hækkað.“

Skúli segist ekki hafa átt von á því að sjóðurinn yrði svona öflugur 30 árum síðar. „Mig óraði ekki fyrir því. Okkur fannst það mjög spennandi hugmynd að námsmenn gætu unnið á sumrin við störf sem tengdust þeirra námi. Þeir hljóta að vera orðnir þúsundir sem hafa aflað sér dýrmætrar reynslu í gegnum sjóðinn. Það er sömuleiðis frábært að veita verðlaun frá forseta Íslands í lokin og hefur það aukið veg sjóðsins mikið ásamt því að verkefnin fá meiri umfjöllun. Þarna hafa orðið til ýmsar góðar hugmyndir sem leitt hafa af sér góðar viðskiptahugmyndir.“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir þingmaður er formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðsins.

Mikilvægur sjóður

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðsins. Hún var spurð af hverju sjóðurinn væri svona mikilvægur. „Nýsköpunarsjóður námsmanna skiptir miklu máli fyrir háskólanema til að þróa sínar hugmyndir, nýja sýn og auka þekkingu Það eru margir samkeppnissjóðir til á Íslandi sem styrka nýsköpunarverkefni en í mörgum tilvikum hafa nemendur ekki tækifæri til að mæta þeim kröfum sem þeir sjóðir setja til þess að hljóta styrk. Því er mikilvægt að til staðar sé sjóður sem veitir nemendum sérstaklega tækifæri,“ svarar hún.

„Stjórnvöld hafa áttað sig betur á mikilvægi nýsköpunar fyrir samfélagið síðustu árin. Því var það stórt skref sem ríkisstjórnin tók þegar ákveðið var að styrkja sérstaklega Nýsköpunarsjóð námsmanna árið 2020. Sá styrkur var veittur vegna átaks sem ríkisstjórnin fór í til að auka atvinnusköpun háskólanema vegna aukins atvinnuleysis í þeim hópi í kjölfarið á því að heimsfaraldur Covid-19 skall á. Fjárveiting ríkisstjórnarinnar margfaldaði stærð sjóðsins og umsóknir til sjóðsins voru mun fleiri en síðustu ár. Þetta veitti því mun fleiri nemendum tækifæri á að koma sínum hugmyndum í þróun,“ útskýrir Lilja.

Hún segist hafa heyrt fyrst af sjóðnum þegar hún var í menntaskóla. „Ég er mjög ánægð með það hve mikið hann hefur stækkað og þróast. Þau verkefni sem hlotið hafa styrk hafa mörg hver stækkað enn frekar og orðið að fyrirtækjum eða leitt til aukinnar þekkingar á ýmsum sviðum samfélagsins. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur veitt háskólanemum tækifæri og það skiptir máli.“

Árið 2020 hlaut Halldór Bjarki Ólafsson, nemi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, verðlaunin fyrir verkefnið Tengsl óeðlilegs blóðhags við bráða fylgikvilla og langtíma útkomu eftir skurðaðgerðir. Leiðbeinandi var Martin Ingi Sigurðsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og kennari við Háskóla Íslands.

Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir og Þórdís Rögn Jónsdóttir, nemar í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, og Ísól Sigurðardóttur, nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi. Leiðbeinendur voru Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, og Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi.