Frumkvöðlakeppnin Gulleggið hóf göngu sína vorið 2008 og er eitt rótgrónasta verkefni Icelandic Startups. Keppnin er vettvangur fyrir unga frumkvöðla og hugmyndasmiði sem vilja koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækis," segir Edit Ómarsdóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, sem nú heldur keppnina í þrettánda sinn.

„Skráningarfrestur er til og með fimmtudags 3. september, en skráningin tekur einungis nokkrar sekúndur og það geta allir tekið þátt. Hægt er sækja um með eða án hugmyndar, ef sótt er um þátttöku án hugmyndar fá einstaklingar tækifæri á að bjóða fram þekkingu sína og reynslu til annarra teyma.“

Tíu hugmyndir valdar áfram

Þátttakendum keppninnar býðst að sækja þrjár vinnusmiðjur á netinu sem haldnar eru á laugardögum.

„Þar er farið yfir ýmsa nytsamlega hluti sem þarf að hafa í huga þegar viðskiptahugmynd er mótuð og fyrirtæki stofnað, svo sem áætlanagerð, hönnun og markaðsmál. Teymin fá einnig aðstoð við að undirbúa sig fyrir lyftukvöld Gulleggsins, en það er vísan í það að þú eigir að geta sagt skýrt og skilmerkilega frá hugmynd þinni í einni lyftuferð. Að lokum skila þátttakendur viðskiptaáætlun á einu A4-blaði.“

Rýnihópur, sem skipaður er breiðum hópi bakhjarla og samstarfsaðila Gulleggsins, fer yfir viðskiptaáætlanirnar og velur þar úr tíu bestu hugmyndirnar, sem komast svo áfram í keppnina sjálfa.

„Teymin hefja þá strax að undirbúa sig fyrir lokadag Gulleggsins, þar sem þau kynna hugmyndir sínar fyrir dómnefnd. Vinningsteymið hlýtur að launum 1.000.000 kr.“

Alið af sér verðmæti og störf

Gulleggið hefur alið af sér fjöldann allan af sprotafyrirtækjum og eru mörg þeirra orðin að stórum fyrirtækjum á heimsmælikvarða, segir Edit.

„Hugmyndirnar eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar og hafa skilað sér margfalt til baka út í samfélagið í formi atvinnu- og verðmætasköpunar. Sem dæmi má nefna fjártæknifyrirtækið Meniga, sem tók þátt í Gullegginu árið 2009 en í dag starfa hjá þeim um 160 starfsmenn í sjö löndum. Leikjafyrirtækið Solid Clouds tók einnig þátt í Gullegginu sem og fyrirtækið Róró sem framleiðir dúkkuna LullaDoll. Hátæknifyrirtækið Videntifier hóf einnig sín fyrstu skref í Gullegginu, en það sér meðal annars alþjóðalögreglunni Interpol fyrir myndgreiningartækni.“

Breytt skipulag í ár

Gulleggið verður með breyttu sniði í ár vegna COVID-19 en Ice­landic Startups snaraði keppninni yfir á vefform og munu því allar vinnusmiðjur Gulleggsins fara fram á netinu.

„Þetta fyrirkomulag gefur fólki á landsbyggðinni og víðar tækifæri á að taka þátt í Gullegginu í fyrsta sinn, án þess að þurfa að mæta á fýsískan stað, sem eru virkilega jákvæðar fréttir og skref í rétta átt þar sem nýsköpun spyr hvorki um stað né stund.“

Edit segir að þegar staðið er frammi fyrir stórum áskorunum, t.d. heimsfaraldri, kreppum eða loftslagsbreytingum, myndist gjarnan ný tækifæri.

„Á slíkum tímum fer fólk að leita lausna á þeim vandamálum sem koma upp og í þannig aðstæðum blómstrar nýsköpun. Meniga var t.d. stofnað í kjölfar kreppunnar til að aðstoða fólk við að halda utan um fjármál heimilisins. Um þessar mundir sjáum við nýjar lausnir í heilbrigðis- og menntamálum sem og spennandi lausnir í umhverfis- og loftslagsmálum, líkt og staðgengil einnota plasts, rafdrifin farartæki og margt fleira. Hugmyndaflugið er það eina sem stoppar. Ég vil því hvetja alla sem ganga með hugmynd í maganum að sækja um í Gullegginu fyrir miðnætti þann 3. september.“

Nánari upplýsingar um keppnina má finna á gulleggid.is.