Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja við rannsóknar- og þróunarstarf sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Helsta markmið Enterprise Europe Network er að leita tengsla og aðstoða fyrirtæki sem eru í þróun eða vexti, sérstaklega á erlendum markaði, og aðstoða þau við að finna viðskiptatengsl og koma þeim inn í rannsóknarsamstarf. Markmið Rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópusambandsins er að auka og styðja fjárhagslega og á annan hátt við rannsóknir og nýsköpun í Evrópu.

„Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja við rannsóknar- og þróunarstarf sem miðar að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og er sjóðurinn opinn fyrir nýsköpunarverkefni úr öllum atvinnugreinum,“ segir Rakel Jónsdóttir sérfræðingur. „Tækniþróunarsjóður er hugsaður þannig að það er verið að styrkja fyrirtæki eða verkefni, allt frá því að verkefnin eru svokölluð fræ, eða á hugmyndastigi, og þar til þau komast á markað. Þannig að styrkir sem kallast fræ eru þá fyrir verkefni á hugmyndastigi, sproti fyrir verkefni á frumstigi og svo er það annars vegar vöxtur og svo hins vegar sprettur sem er fyrir framúrskarandi verkefni sem eru komin af frumstigi og eru á vaxtarstigi. Síðan að lokum er markaðsstyrkurinn fyrir verkefni til að komast á markað. Fjölmörg fyrirtæki hafa fengið styrk úr Tækniþróunarsjóði.“

Rakel segir að það sé mikilvægt að huga að öllu landinu. „Þó svo að helstu höfuðstöðvar Rannís séu á höfuðborgarsvæðinu þá er Tækniþróunarsjóður fyrir fyrirtæki úti um allt land og við viljum leita allra ráða til að efla þátttöku allra landsmanna í sjóðnum og þess vegna höfum við tekið til ýmissa ráða og verið að efla tengingu við frumkvöðla og nýsköpunarumhverfið. Dæmi um slíkt er til dæmis að halda vinnustofur á landsbyggðinni sem þá í kjölfarið vekja til gagnvirkrar umræðu og við erum að vonast til að það ýti við fyrirtækjum til að taka þátt. Við viljum eiga í góðu samstarfi við atvinnuþróunarfélögin. Við viljum fá virkt samtal við viðskiptavini okkar og þróa saman næstu skref svo við sjáum okkar hag í þessu. Beggja hag. Það koma hlutfallslega færri umsóknir frá landsbyggðinni en frá höfuðborgarsvæðinu og það er okkur ofarlega í huga að breyta þessu og fjölga umsóknum. Það er líka okkar að vinna með atvinnuþróunarfélögunum og ýta við samstarfi og bregðast við þessari áskorun.“

Markmið Nýsköpunarsjóðs námsmanna er að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni. „Yfir 300 nemar fá árlegan stuðning til að vinna að áhugaverðum verkefnum og árlega tilnefnum við sjö fyrirmyndarfyrirtæki og er þeim verkefnum þá boðið til Bessastaða í lokin og eitt þeirra hlýtur síðan Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.“

Viðskiptatækifæri og rannsóknartækifæri

Enterprise Europe Network er alþjóðlegt tengslanet; evrópskt verkefni sem lagt var af stað með árið 2008 og í dag eru yfir 3.000 sérfræðingar í tengslanetinu í 67 löndum. „Helsta markmið netverksins er að leita tengsla og aðstoða fyrirtæki sem eru í þróun eða vexti og sérstaklega á erlenda markaði og aðstoða þau við að finna viðskiptatengsl og koma þeim inn í rannsóknarsamstarf og aðstoða þau við hinar ýmsu upplýsingar, svo sem upplýsingar um erlenda markaði, lög og reglugerðir og skattamál, sem þarf að þekkja áður en lagt er inn á nýja markaði,“ segir Katrín Jónsdóttir sérfræðingur. „Þjónusta Enterprise Europe Network er fjölbreytt og tengist aðgangi að ýmsum viðskiptatækifærum og rannsóknarsamstarfi sem og tækni og þekkingaryfirfærslu. Til að nefna dæmi um slíkt þá höfum við aðstoðað íslensk fyrirtæki bæði til að fá aðgang að tækniþekkingu erlendis og að miðla þeirra tækniþekkingu héðan og út.

Það er líka mikilvægt að nefna að þjónustan er algerlega sérsniðin að hverju og einu fyrirtæki og fókusinn okkar er klárlega á fyrirtæki sem eru að leita út fyrir landsteinana. Við tökum að sjálfsögðu á móti öllum fyrirtækjum sem eru í vaxtarhugleiðingum og veitum þeim gagnlegar viðskiptaupplýsingar. Við kortleggjum einnig styrki svo sem Evrópustyrki með fyrirtækjum sem eru í þörf fyrir erlent fjármagn. Samhliða því veitum við þeim grunnaðstoð við umsóknarferlið, umsóknarkerfið, hvernig best er að setja upp umsókn, gefum athugasemdir á umsóknarskrifin og við finnum samstarfsaðila ef það vantar inn í rannsóknarsamstarfið og svo bjóðum við einnig upp á fyrirtækjagreiningar.“

Katrín segist fagna því að Enterprise Europe Network sé komið undir hatt Rannís en það var áður undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. „Samstarfið hefur verið gríðarlega gott og við vonumst til þess að í framtíðinni náum við að vinna saman og styrkja þjónustuna.“

Flóknar samfélagslegar áskoranir

Rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, eða Horizon Europe, sem hefur úr að moða 95,5 milljörðum evra, er stærsta rannsóknar- og nýsköpunaráætlun heims og er markmið hennar að auka og styðja við fjárhagslega og á annan hátt rannsóknir og nýsköpun í Evrópu með það að markmiði að gera Evrópu framúrskarandi á heimsvísu í rannsóknum og nýsköpun. Í boði eru ýmiss konar styrkir sem tengjast allt frá grunnrannsóknum til fyrirtækja- og nýsköpunarstyrkja.

Áætlunin skiptist í þrjár stoðir:

Stoð 1: Framúrskarandi vísindi. Markmiðið er að styrkja framúrskarandi vísindamenn til grunnrannsókna á öllum sviðum og auka aðgengi að rannsóknainnviðum.

Stoð 2 : Áskoranir og samkeppnishæfni. Þessi stoð tekst á við helstu áskoranir sem blasa við heiminum, efla samkeppnishæfni Evrópu sem byggir á stefnumótun ESB og markmiðum um sjálfbærni.

Stoð 3: Nýsköpun í Evrópu. Markmiðið er að efla nýsköpun í Evrópu. Stoðin býður upp á fjölmörg tækifæri fyrir fyrirtæki, stofnanir og háskóla í Evrópu til að stunda nýsköpun.

Þverstoð: Víðtækari þátttaka og efling evrópska rannsóknasvæðisins.

„Eitt leiðarstef í þessari áætlun, sem hóf göngu sína 2021, er að nota rannsóknir og nýsköpun til þess að leysa flóknar samfélagslegar áskoranir; þessar stærstu sem við stöndum frammi fyrir, svo sem loftslagsbreytingar, matvælaöryggi, heilbrigðismál, stafrænar breytingar og ýmsar félagslegar áskoranir svo sem lýðræðisógnir,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, sem stýrir Horizon Europe áætluninni hjá Rannís, og bætir við að árangurshlutfall Íslands í rannsóknaráætlunum ESB hafi undanfarin ár verið mjög gott og fyrir ofan meðaltal flestra annarra Evrópuríkja. „Ég held að það megi draga þá ályktun að íslenskt vísindafólk og nýsköpunarfyrirtæki séu enginn eftirbátur stærri þjóða og oft eru þau eftirsóknarverðir samstarfsaðilar.

Þetta er stór og flókin áætlun og í mörgum tilvikum er farið fram á samstarf á milli að minnsta kosti þriggja landa,“ segir Sigrún, en að ekki sé endilega verið einungis að ræða samstarf háskóla heldur til dæmis samstarf stórra rannsóknarháskóla, smærri fyrirtækja og jafnvel sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka frá mörgum löndum. „Þannig að breiddin er mjög stór í hópunum sem sækja um vegna þess að með þeirri nálgun er talið að mestu samfélagslegu og vísindalegu áhrifin verði af verkefnunum. En einnig eru hlutar áætlunarinnar sem krefjast ekki samstarfs og eru ætlaðir litlum og meðalstórum fyrirtækjum.“

Sigrún segir að vonin sé að Ísland haldi áfram að halda þessum markverða árangri og mælir með því að þau sem starfa við rannsóknir og nýsköpun hafi samband við Rannís sem aðstoðar við að finna hugmyndunum réttan farveg. Hún bendir að lokum á smæð Íslands og að ávinningurinn við þátttöku í Horizon Europe skipti miklu máli fyrir svona lítið eyland og fámenna þjóð.