Þessa dagana er verið að byggja nýtt hverfi á Svalbarðseyri og þar eru til sölu lóðir þaðan sem fallegt útsýni er yfir fjörðinn. Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi, segist vonast til að fá þangað fólk sem sér kosti þess að búa á þessum fallega stað.

„Hér er þétt og gott samfélag. Við erum beint á móti Akureyri, austan megin við Eyjafjörðinn. Hér er leikskóli sem tekur við börnum frá 9 mánaða aldri og góður grunnskóli,“ segir Björg.

„Eldri krakkar fara til Akureyrar í Menntaskólann eða Verkmenntaskólann. Það tekur enga stund að fara þangað og sennilega fljótlegra en að fara milli hverfa innan Reykjavíkur. Okkur finnst við bara vera eins og úthverfi frá Akureyri. Það tekur 10 mínútur að keyra að flugvellinum, það er örstutt til Akureyrar og engin umferðarljós að stoppa mann á leiðinni.“

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi.

Opið og bjart umhverfi

Björg segir sveitarfélagið víðlent. Þar er fullt af gönguleiðum og fjölbreyttir möguleikar til útivistar og fjörðurinn ævintýraheimur kajakræðara.

„Svalbarðseyri er frábær kostur fyrir fólk sem vill flytja í rólegt umhverfi sem er samt stutt frá allri þjónustu. Það er auðvitað líka gott að búa á Akureyri, Grindavík, í Reykjavík eða annars staðar. Allir staðir hafa eitthvað gott fram að færa. Það sem við höfum er rólegt samfélag og nándina við náttúruna um leið og stutt er í alla þjónustu og fjölbreytt menningarlíf,“ útskýrir Björg.

„Auk nýrra lóða er sveitarfélagið að byggja tvö parhús sem verða seld. Við erum reyndar nú þegar búin að selja eina íbúð. Sveitarfélagið hefur byggt fleiri parhús og einkaaðilar hafa verið að byggja myndarleg einbýlishús. Gatan sem verið er að klára núna stendur hátt og þar eru stórar einbýlishúsalóðir með fallegu útsýni yfir fjörðinn. Fallegt útsýni er yfir Eyjafjörðinn, út fjörðinn eða í suður til Akureyrar. Skip og bátar sigla reglulega fram hjá og fyrir neðan nýja hverfið eru fallegar tjarnir og mikið fuglalíf. Þetta er mjög fallegt svæði.“

Björg útskýrir að gert sé ráð fyrir því að allar lóðirnar hafi eina hlið sem snýr að óbyggðu svæði og lóðirnar rúmgóðar.

„Það er frekar rúmt á milli húsanna og verið er að búa til göngustíga svo krakkarnir geti gengið í skólann. Það verður aldrei meira en fimm mínútna ganga milli heimilis og skóla. Við erum að byggja þetta upp sem opið og bjart hverfi og brekkan tryggir fallegt útsýni yfir fjörðinn okkar.“

Svalbarðsstrandarhreppur auglýsir nýjar lóðir til sölu á Svalbarðseyri.