Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. „Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og vinnur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Um þjónustuna gildir þjónustusamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjalundar,“ segir Helgi Kristjónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Í rekstri heilbrigðisstofnana á borð við Reykjalund eru margar áskoranir sem þarf að takast á við. Helgi segir að helsta áskorunin í rekstrinum sé að þróa og viðhalda þeim stöðuga kjarnarekstri endurhæfingarstarfseminnar sem einkennt hefur starfsemi Reykjalundar undanfarin ár.

Með fjármögnun og viðhaldi bygginga og lóðar á Reykjalundi hefur happdrætti SÍBS auðveldað heilbrigðisstarfsfólkinu að einbeita sér að meðferðarstarfseminni.

„Rekstrarumhverfið er að breytast þessi misserin, vegna krafna um útboðsskyldu á kaupum á endurhæfingarþjónustu, sem koma fram í lögum um opinber innkaup og einnig vegna þess að samningstími þjónustusamnings um endurhæfingarstarfsemina hefur verið styttur í tvö ár með heimild um að framlengja hann tvisvar sinnum um eitt ár í senn,“ segir Helgi.

„Af þessu má ljóst vera að endurhæfingarstarfsemin á Reykjalundi þarf að vera mjög sveigjanleg til þess að uppfylla kröfur kaupandans og líka til að geta brugðist við fyrirsjáanlegri aukinni samkeppni um það fjármagn sem ríkið ákveður að setja í endurhæfingarstarfsemi,“ bætir hann við.

Meðferð skilar sér áttfalt til baka

Samhliða auknum sveigjanleika þarf Reykjalundur einnig að halda áfram þróun núverandi meðferðasviða, efla og viðhalda menntun starfsfólksins, sinna kennslustarfi nema í heilbrigðisvísindum, ásamt því að sinna og efla rannsóknir á sviði endurhæfingar. „Í því samhengi má nefna að rannsóknin „Heilsuhagfræðilegt mat á þverfaglegri verkjameðferð á Reykjalundi“, sem birt var í Læknablaðinu 1.tbl. 106. árg. 2020, sýnir að kostnaður af meðferðinni skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins,“ segir Helgi, sem hlýtur að teljast afar góður árangur.

Húsakostur í endurskoðun

Reykjalundur á sér marga velunnara og ber Happdrætti SÍBS þar einna hæst. „Happdrætti SÍBS hefur reynst Reykjalundi ómetanlegur bakhjarl í gegnum tíðina. Það hefur séð starfseminni fyrir góðum húsakosti, ásamt fallegu og gróðursælu umhverfi í gegnum tíðina, húsakosti sem hefur verið aðlagaður að meðferðarstarfinu fyrir tilstilli happdrættisins eftir því sem þörf hefur verið á. Með fjármögnun og viðhaldi bygginga sem telja nú 20.659 fermetra og lóðar á Reykjalundi sem er 433.720 fermetrar hefur happdrætti SÍBS auðveldað heilbrigðisstarfsfólkinu okkar að einbeita sér að meðferðarstarfseminni, íþróttahúsið okkar og sundlaugin eru gott dæmi um það“ segir Helgi.

„Þó að húsakostinum hafi verið vel viðhaldið í gegnum tíðina fer að koma sá tími að skoða þarf hvort efla megi meðferðarstarfið enn frekar með nýjum byggingum á Reykjalundarlóðinni ásamt því að breyta þeim sem fyrir eru, sérstaklega er orðið brýnt að skoða möguleikann á byggingu nútímalegs sjúkrahótels fyrir sjúklinga Reykjalundar,“ segir Helgi.