Innréttingar og tæki selja afar vandaða sérvöru fyrir baðherbergi. Til að mynda fást þar baðinnréttingar, sturtuklefar, hreinlætisvörur og blöndunartæki. „Við erum í raun með allt fyrir baðherbergið nema vegg- og gólfefni. Við viljum vera sérvöruverslun, en ekki þessi dæmigerða byggingarvöruverslun. Við leggjum metnað okkar í vandaðar vörur og persónulega þjónustu. Við viljum líka vera með puttann á púlsinum þegar kemur að nýjungum á markaðnum,“ segir Íris Jensen, eigandi fyrirtækisins.

Fjölskyldufyrirtæki

Innréttingar og tæki eru eitt af rótgrónustu fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Sagan nær aftur til ársins 1945 þegar amma Írisar stofnaði heildsöluna. Íris Jensen tók við rekstri fyrirtækisins ásamt eiginmanni sínum Grétari Þór Grétarssyni árið 2014. En áður höfðu foreldrar Írisar rekið fyrirtækið farsællega frá árinu 1993. „Þetta er algjört fjölskyldufyrirtæki. Maðurinn minn er í annarri vinnu, en kemur svo alltaf upp í búð að vinnudegi loknum. Og ef foreldrar mínir eru ekki á staðnum, þá eru börnin hérna. Svo bíð ég bara eftir að ömmubörnin mæti á vaktina,“ segir Íris og hlær.

Sólgulur mosaveggur

Þegar ljósmyndara bar að garði var Íris að ljúka við að setja upp fallegan sólgulan mosa frá Benettimoss á Ítalíu. „Benettimoss framleiðir gullfallegar mosaplötur í mörgum litum úr náttúrulegum mosa. Mosinn er bæði hljóðeinangrandi og safnar ekki í sig ryki og hentar því sérlega vel inn á baðherbergi, sem eiga það til að bergmála.“

Íris Jensen stendur hér fyrir framan sólgulan og bjartan mosavegg sem hægt er að nálgast í versluninni.
Valgarður Gíslason

Loksins getum við svo boðið upp á svört blöndunartæki með ömmustöng til þess að hafa í baðkarinu. Þetta hefur sárvantað en nú geta þeir sem eru ekki með sturtu tollað í tískunni.

Áhrifamikil lituð blöndunartæki

Orðið blöndunartæki verður seint kosið mest eggjandi orð íslenskrar tungu, en markaðurinn hefur heldur betur tekið við sér þegar kemur að því að bjóða upp á eitthvað annað en burstað stál eða glansandi króm. „Krómið fer náttúrulega aldrei úr tísku. Þetta er alger standardvara sem við munum alltaf bjóða upp á. En í dag eru komnir svo margir aðrir möguleikar sem gaman er að leika sér með í hönnun baðherbergja. Svörtu möttu blöndunartækin frá FIMA Carlo Frattini eru áfram mjög vinsæl, sem og gylltu og koparlituðu. Þá erum við einnig með svart króm sem er glansandi og ótrúlega smart inn á stílhrein baðherbergi. Einnig erum við með svart og matt burstað stál sem einnig sómir sér vel inni á baðherbergi nútímans.

Það er mjög vinsælt að skipta út blöndunartækjunum þegar fólk langar til að fríkka upp á baðherbergið, hvort sem það er að breyta til eða til að auka söluverð íbúða. Þetta er sáraeinföld aðgerð og hefur ótrúlega mikil áhrif.

Loksins getum við svo boðið upp á svört blöndunartæki með ömmustöng til þess að hafa í baðkarinu. Þetta hefur sárvantað en nú geta þeir sem eru ekki með sturtu tollað í tískunni,“ segir Íris og hlær.

Blöndunartæki geta vel verið æsandi fögur. Fréttablaðið/Ernir

Fólk er farið að þyrsta í eitthvað annað en ríkisbaðherbergið þar sem allt er hvítt, háglans, króm og kalt.

Mattur heillar landann

Innréttingarnar frá Elita hafa verið mjög vinsælar hjá Innréttingum og tækjum. „Nú erum við að taka inn virkilega fallegar nýjungar í þessum innréttingum en þar er matta áferðin í algleymingi. Möttu litirnir eru svartur, grár, ljósgrár og hvítur. Hér áður fyrr voru baðherbergisinnréttingar alltaf í háglans, líklega upp á þrif að gera, en það er vissulega auðveldara að þrífa háglans en matt. Hins vegar þróast smekkur manna með tímanum og fólk er farið að þyrsta í eitthvað annað en ríkisbaðherbergið þar sem allt er hvítt, háglans, króm og kalt. Svo er staðreyndin einfaldlega sú að maður setur það varla fyrir sig að taka upp tuskuna fyrir eitthvað sem maður lagði tíma og metnað í að velja saman.

Möttu innréttingarnar frá Elita seljast í dag eins og heitar lummur og þá er mattur svartur þar allra vinsælastur. Þá kemur líka mörgum á óvart hvað mattur ljósgrár kemur skemmtilega út með hvítri handlaug. Það er ekki mikill litamunur, en þó nægur til að skapa heillandi dýpt.“

Möttu innréttingarnar frá Elita eru stílhreinar og fallegar.Fréttablaðið/Valli
Baðherbergi nútímans eru litrík, persónuleg og með spennandi áferð. Fréttablaðið/Valli

Litagleði í fyrirrúmi

„Enn fremur bjóðum við upp á falleg salerni frá Globo á Ítalíu í öllum regnbogans litum. Lituðu salernin eru mött og fást í gulum, grænum, bláum, bleikum, rauðbrúnum og mörgum fleirum. Svörtu og hvítu möttu eru þó langvinsælust eins og vera ber. Hver klósettskál og handlaug er framleidd eftir pöntun og velur viðskiptavinurinn litinn og lagið eftir því sem hentar. Innanhússhönnuðir og arkitektar eru mjög ánægðir með þessa nýju möguleika og leika sér óspart með litaðar handlaugar og salerni, blöndunartæki í ýmsum litum og útfærslum og fleira og útkoman eru skemmtileg og persónuleg baðherbergi.“

Salerni og handlaugar fást í fjölda fallegum litum sem poppa upp á baðherbergið.Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Hver segir að vaskurinn þurfi endilega að vera úr postulíni?

Glæsilegir og hagkvæmir sturtubotnar fyrir nútímaheimili

Sturtubotnarnir frá spænska merkinu Gala eru sívinsælir enda sameinast þar gæði og fagurfræði í einni heilli flís. Botnarnir eru afar sterkbyggðir og endingargóðir og ekki hálir þar sem á er borin stöm gelkvoða sem gerir botninn að stöðugu undirlagi. Þeir koma í fimmtán litum, einnig með innbyggðum halla sem einfaldar uppsetningu til muna.

Sturtubotnarnir frá Gala eru hin fullkomna lausn fyrir þau sem langar í geggjaða „walk-in“-sturtu. Fréttablaðið/Valli

„Þessir botnar eru líklega það allra vinsælasta sem við höfum boði upp á enda eru þeir bæði hentugir og ódýrari kostur en hinn valkosturinn. Það er nefnilega töluvert dýrara og flóknara að flísaleggja sturtubotn með halla, heldur en að fá sér Gala sturtubotn með innbyggðum halla. Margar íbúðir, sérstaklega í eldri húsum, eru líka þannig að það er ekki hægt að byggja inn halla í gólfið, þar sem niðurfallið er oft of djúpt. Enn fremur er það jafnvel bannað í eldri blokkaríbúðum. Þá þarf að byggja upp botninn og svo halla sem kostar enn meira. Gala sturtubotninn hentar líka fullkomlega í sumarbústaðinn, en flísina má leggja beint ofan á hvaða gólfefni sem er, jafnvel timbur. Þá ertu kominn með æðislega „walk-in“ sturtu með lítilli fyrirhöfn,“ segir Íris að lokum.

Innréttingar og tæki eru í Ármúla 31 Sími 588 7332. Sjá nánar á i-t.is.