„SÓNÓ var upphaflega hugarfóstur okkar Hildigunnar Einarsdóttur, sem varð til í fyrstu bylgju Covid, þegar öll okkar listræna vinna hvarf út í veður og vind. Þetta hófst sem samverustund okkar vinkvennanna í eldhúsinu þar sem við þjónuðum nokkrum vinum, en vatt fljótt upp á sig,“ segir Sigurlaug Knudsen Stefánsdóttir, sem er ávallt kölluð Silla. „Okkur gafst tækifæri til að hafa „pop up“ veitingastað á Vagninum á Flateyri sumarið 2020, en þá dró Hildigunnur sig úr þessu að mestu og ég hef sinnt þessu linnulaust síðan með hjálp frábærs fólks. Við höfum svo verið hér í Norræna húsinu í rúmt ár.

Við erum grænmetis- og veganveitingastaður og bjóðum upp á árstíðabundinn mat, ávallt með jurtum nærumhverfisins í einhvers konar mynd,“ segir Silla. „Við leggjum áherslu á grænmeti, því það er vitað að aukin neysla grænmetis er ein besta leið einstaklingsins að hafa áhrif á umhverfi sitt til góðs, bæta heilsu sína og lífsgæði milljóna dýra sem þurfa annars að lifa við hörmulegar aðstæður í verksmiðjubúskap. Vonandi getum við verið hvati þess að einhverjir hugi að breytingum til batnaðar og sýnt þeim að grænmeti getur verið afskaplega góður matur.“

Vilja bjóða nýja upplifun

„Hér getur fólk uppgötvað eitthvað nýtt, kynnst nýjum bragðtegundum og jafnvel áttað sig á að skógarkerfill er bara ansi góður á bragðið, að fíflablöð eru margfalt hollari en spínat og að illgresi er alls ekkert illt og ætti jafnvel bara að heita góðgresi.

Svo er húsið og staðsetningin okkar einstök. Norræna húsið er falinn gimsteinn í allra manna ásýnd, því fæstir átta sig á fjársjóðnum sem þetta hús og þetta svæði er, en það gerir heimsókn hingað enn skemmtilegri,“ segir Silla. „Við vonum að okkur takist að gera daginn eilítið betri hjá gestum, þó ekki sé nema bara um stund.

Til þessa hefur verið vegan möguleiki fyrir næstum allt á matseðlinum, en í tilefni veganúars ákváðum við að fara alla leið og hafa allt á matseðlinum einvörðungu vegan út mánuðinn,“ segir Silla. „Við erum líka að hefja samstarf við Bjórland og Berjamó sem ætla að vera birgjar okkar og para vínin og bjórinn okkar alfarið með matnum. Þetta eru spennandi fyrirtæki rekin af frábæru fólki og við erum ákaflega spennt fyrir samstarfinu.“