Innréttingar og Tæki er rótgróin fjölskylduverslun og þar hefur safnast mikil reynsla um það nýjasta í baðherbergisinnréttingum, blöndunartækjum, salernum og sturtuklefum. Íris Jensen rekur fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum, Grétari Þór Grétarssyni, en fyrirtækið var stofnað af ömmu Írisar árið 1945 svo sagan spannar langt aftur í tíma.

Þannig lítur hinn vinsæli sturtuklefi út. Nútímalegur og flottur.

Íris segist finna mikið fyrir því að sumarhúsaeigendur séu að endurnýja bústaðina sína, sérstaklega baðherbergið og sturtuna. Líftími sturtuklefa er ekki eins langur í bústöðum og á heimilum. „Sérstaklega á það við um bústaði sem eru í útleigu, til dæmis í eigu félagasamtaka. Yfirleitt voru settir staðlaðir sturtuklefar í bústaðina sem ekki voru neitt sérstaklega fyrir augað,“ segir hún. „Nú er þetta að breytast og fólk vill hafa baðherbergin notaleg og falleg,“ bætir hún við. „Til að koma til móts við óskir fólks höfum við verið að flytja inn sturtuklefa frá Noregi sem eru með svörtum römmum sem gerir þá mjög smart og setur skemmtilegan svip á baðherbergið. Þeir líta út eins og þeir séu með frönskum gluggum. Svörtu klefarnir hafa verið mjög vinsælir hjá okkur í sumar og margir virðast hafa verið að bíða eftir nýrri útfærslu á sturtuklefum. Yfirleitt eru baðherbergi í sumarbústöðum lítil og þá er lokaður sturtuklefi langbesta lausnin. Einnig hafa margir verið að taka þessa sturtuklefa í gestahús við sumarbústaði,“ segir Íris. „Eða bara vegna þess að endurnýjunar er þörf.“

Fallegt baðherbergi með sturtubotni og -vegg frá Innréttingum og Tækjum auk baðinnréttingar og fleiri hreinlætistækja.

Rétta lausnin

Innréttingar og Tæki reyna ávallt að vera með réttu lausnina fyrir baðherbergið, hvort sem þau eru lítil eða stór. „Þegar fólk er að byggja vaxa peningatrén ekki við gluggann og oft eru keyptir ódýrari hlutir til að byrja með. Síðan kemur sá tími að nauðsynlegt er að endurnýja og maður finnur fyrir því að margir standa í því núna. Eflaust hjálpar endurgreiðsla af virðisaukaskatti sem verður í gildi út ágúst. Ég vona innilega að hún haldi áfram því þetta hefur hvatt fólk til að fara í nauðsynlegar endurbætur,“ segir Íris. „Fólk er að gera umhverfi sitt fallegra og það á ekki síst við um baðherbergi heima sem og í bústaðnum,“ bætir hún við. „Við fáum mikið af fyrirspurnum um sturtuklefa og hreinlætistæki um þessar mundir. Fólk fer orðið í sumarbústaði árið um kring og vill hafa fallega hluti í kringum sig.“

Sturtubotninn frá Gala á Spáni sem hefur rokið út hjá versluninni enda er hann stílhreinn og sterkbyggður.

Sterkbyggðir sturtubotnar

Íris segir að nokkuð sé um að fólk sé að skipta út gömlu baðkari fyrir svokallaða „Walk In“ sturtu. Barnafólkið vill hafa baðkar en hinir kjósa fremur sturtuna,“ segir hún. „Við erum með geysivinsæla sturtubotna frá Gala á Spáni. Í þeim sameinast gæði og fagurfræði en botninn lítur út eins og ein heil flís. Þeir eru sterkbyggðir og endingargóðir og henta hvort sem er í stein- eða timburhús. Einnig henta þeir vel í sumarbústaði. Flísina má leggja ofan á hvaða gólfefni sem er, líka timbur. Þetta er ódýr kostur en samt mikil gæði,“ segir Íris og bendir á að hægt sé að fá sturtubotnana í 26 stærðum og 15 litum. „Stærsti botninn er 90x2 m,“ útskýrir hún. „Við fáum sendingar frá Spáni í hverri viku því þessir sturtubotnar hafa alveg slegið í gegn hjá okkur.“

Hér sést hvernig hægt er að setja upp baðherbergi með sturtu á tvo vegu í sýningarsalnum í Ármúla.

Íris bendir á að hægt sé að fá sturtuhorn og sturtuhurðir í mismunandi stærðum. „Margir vilja hafa sturtuna í horni og við reynum að þjóna sem flestum hugmyndum. Viðskiptavinir koma gjarnan með eigin óskir um hvað þeir vilja, hafa velt hlutunum fyrir sér. Aðrir koma með arkitekt með sér. Það eru ekki allir sem vilja flísar á veggina, margir velja alls konar veggþiljar og ég vissi um einn um daginn sem notaði bárujárn þannig að hugmyndaflugið er vítt og breitt,“ segir hún.

„Við erum með handklæðaofna í ýmsum litum og sömuleiðis innréttingar í margs konar stærðum og útfærslum. Baðherbergin eru orðin heimilislegri með notalegum litum og endalausum lausnum. Meira að segja blöndunartækin er hægt að fá í fallegum litum. Það ætti því að vera auðvelt að gera andrúmsloftið á baðherberginu aðlaðandi og notalegt.“

Innréttingar og Tæki eru í Ármúla 3, sími 588 7332. Nánar má kynna sér vörurnar inn á i-t.is.