Á hverju ári slasast nokkur fjöldi óvarinna vegfarenda (hjólandi og gangandi) í umferðinni. Í einhverjum tilfellum hefði mátt fyrirbyggja slys með meiri sýnileika, til dæmis með litríkum fatnaði eða endurskini, skýrir Hildur frá.

Sjást fimm sinnum fyrr með endurskin

Afleiðingarnar geta verið afdrifaríkar. „Því fyrr sem ökumenn greina óvarða vegfarendur, því minni líkur eru á að slys verði. Rannsóknir hafa sýnt að óvarðir vegfarendur með endurskin sjást að minnsta kosti fimm sinnum fyrr en ella. Notkun endurskins getur því skilið milli lífs og dauða.“

Samgöngustofa hefur sett upp upplýsingasíðu þar sem má finna upplýsingar um endurskin og sölu- og dreifingaraðila: samgongustofa.is/endurskin. „Oftar en ekki er hægt að finna endurskinsmerki á flestum heimilum. Þau leynast í skúffum og skápum og þá er bara um að gera að nota þau.“

Hægt er að velja úr miklu úrvali endurskinsmerkja. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hildur segir mikið úrval vera í boði og að framboð af sýnileikafatnaði og endurskini hafi aukist mikið síðustu ár. „Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Til eru flíkur úr endurskinsefni, vesti, borðar, endurskinssprey, límmerki, hnappar, nælur, reimar og þræðir sem hægt er að prjóna úr og hangandi fígúrur eða dúskar sem eru um leið endurskin.“

Hildur segist vör við að bæði framleiðendur og fólk almennt átti sig á mikilvægi sýnileikans og að margir framleiðendur sýni ábyrgð og tryggi að útivistarvörur þeirra séu með endurskini. „Fólk er jafnframt orðið meðvitaðra um að velja útivistarfatnað í sterkum litum og með endurskini fyrir sig og börn sín. Best er að staðsetja endurskin fremst á ermum, hangandi meðfram hliðum, á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum.

Svo má ekki gleyma að foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum en þeir þurfa líka að setja gott fordæmi. Svo má vitaskuld ekki gleyma blessuðum málleysingjunum sem, líkt og börnin okkar, eru afar berskjaldaðir í umferðinni.“

Hér má sjá hversu mikil áhrif endurskin hefur á sýnileika.