Það hefur færst í vöxt hér á landi að vinir hittist yfir einum köldum á huggulegum bar þar sem er rólegt umhverfi og gott að spjalla saman. Einstök bar er einmitt þannig staður. Björn Jakobsson, eigandi staðarins, fékk brugghús Einstök bjórs í samstarf. Einstök er uppáhaldsbjórtegund Björns og þess vegna vildi hann einungis bjóða upp á bjór frá því brugghúsi. Einstök er fáanleg í fjölda bragðtegunda svo flóran er fjölbreytt. Að auki verður boðið upp á sterka drykki og létta auk freyði- og kampavíns.

Horft yfir Einstök bar. Áður var þarna veitingahúsið Asía og síðan Joe and the Juice.

„Einstök er sá íslenski bjór sem mest er seldur til annarra landa og fæst nú í 26 löndum, þar af í 25 ríkjum í Bandaríkjunum. Bjórinn hefur fengið verðlaun á heimsmarkaði svo margir ferðamenn þekkja hann. Við ætlum að nýta þetta flotta vörumerki,“ segir Björn og segist bjartsýnn fyrir sumrinu því hann sjái út um gluggann á Laugavegi 10 að stöðugt fjölgar fólki á gangstéttinni með ferðatöskur í dragi.

Björn fékk hugmyndina að Einstök bar þegar hann frétti af því að húsnæðið á Laugavegi 10 væri laust. „Þetta er sögufrægt hús og gullfallegt sem allir þekkja og stendur á horni Laugavegar og Bergstaðastrætis. Lengi var hér Asía veitingahús, síðan Joe and the Juice en áður hafa þekktar verslanir verið hér. Húsið er á besta stað í miðbænum og búið að gera mikið fyrir það á undanförnum árum,“ útskýrir Björn. Húsið var friðað árið 2011 en lengi var starfrækt þar raftækjaverslunin Nesco sem margir muna eftir. Húsið var byggt rétt fyrir aldamótin 1900.

Að undanförnu hafa staðið yfir breytingar á jarðhæðinni þar sem Einstök Bar er staðsettur. Björn fékk Kristrúnu Hunter innanhússarkitekt til að hanna barinn. „Mig langaði til að hafa umhverfið notalegt og í anda hússins,“ segir hann. „Ég vildi að þetta væri fallegur staður sem þægilegt er að heimsækja í góðra vina hópi og fá sér góðan drykk. Við verðum með þægilega tónlist svo fólk getur talað saman í rólegheitum.“

Björn Jakobsson er eigandi Einstök bar. Hann er mikill bjóráhugamaður og heldur mikið upp á Einstök. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓTTAR

Björn segir að Einstök bjór sé í stöðugri vöruþróun og fólk geti smakkað allar þessar tegundir á barnum. „Þeir eru til dæmis með White Ale, Arctic Lager, Pale Ale og margt fleira sem hefur vakið athygli erlendis. Mér finnst þetta rétti tíminn til að opna nýjan bar því það er allt að slakna í þjóðfélaginu og hugur í fólki. Ég held að það hafi verið vöntun á svona fallegum bar í miðbænum. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvernig starfið þróast,“ segir Björn, sem er kvæntur og þriggja barna faðir. Hann er mikill bjóráhugamaður og hefur gaman af því að smakka góðan bjór og hlakkar til að þjóna gestum með gæðadrykkjum. „Ég mun standa vaktina og fá gott fólk með mér en um leið er þetta atvinnuskapandi starfsemi.“ ■