Fyrst vann ég í verkefninu Opið hús, en sá viðburður er haldinn tvisvar í viku fyrir innflytjendur og flóttafólk á Íslandi. Þar fær fólk upplýsingar og ráðgjöf, meðal annars um sína stöðu og réttindi á Íslandi. Við svörum því sem við getum en beinum í réttan farveg því sem er ekki á okkar færi að leysa. Þá beinum við fólki til ýmiss konar stofnana, eins og Félagsþjónustunnar, Vinnumálastofnunar, eða annarra samtaka. Það getur enda ýmislegt komið upp og það verður að vera til staður þar sem fólk getur leitað til að fá svör og leiðbeiningar um næstu skref,“ segir Sóley.

Félagsleg aðlögun

Leiðsöguvinir og Tölum saman eru bæði verkefni starfrækt til hálfs árs í senn. „Leiðsöguvinir byggir á gagnkvæmri aðlögun fólks sem hefur hlotið alþjóðega vernd á Íslandi og heimamanna og stuðlar að félagslegum stuðningi. Við pörum skjólstæðinga og íslenska sjálfboðaliða saman og þau einfaldlega eyða tíma saman. Það er ómetanlegt að kynnast nýju heimalandi gegnum heimamenn og hafa einhvern sem þau geta leitað til. Í Tölum saman verkefninu fær fólkið tækifæri til þess að æfa sig vikulega í íslensku, klukkutíma í senn, með sjálfboðaliða.

Þar fyrir utan sinnum við einnig hagsmunagæslu og málsvarastarfi fyrir innflytjendur og flóttafólk. Við bendum á brotalamir sem við finnum í kerfinu og sinnum málsvarastarfinu sem fylgir. Þá er líka algengt að innflytjendur og flóttafólk þekki ekki réttindi sín.“ Félagsstarfið er mikilvægt Starf Rauða krossins með flóttafólki byrjar nánast strax er flóttamaður sækir um vernd hér á landi, en Rauði krossinn sinnir réttaraðstoð og talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Rauði krossinn starfrækir einnig félagsstarf fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og svo er þjónustuteymi með opna viðtalstíma. Félagsstarfið er stór þáttur í lífi umsækjenda enda getur tekið allt frá einum mánuði upp í tvö ár að fá endanlegt svar við umsókninni.

Næstu skref

Þegar fólk fær alþjóðlega vernd á Íslandi er mikilvægt að það fái leiðbeiningar um fyrstu skrefin því lífið breytist afar hratt þegar fólk fær kennitölu. „Fólk þarf að flytja úr sínu búsetuúrræði, finna húsnæði, skrifa undir leigusamning, opna bankareikning og fleira. Aðgengi að upplýsingum getur verið flókið vegna tungumálaörðugleika og margar stofnanir eru eingöngu með upplýsingar og eyðublöð á íslensku. Þessar fyrstu vikur eftir stöðuveitingu geta verið mjög stressandi.“

Faraldur

Fram að faraldrinum mældist þátttaka innflytjenda á atvinnumarkaðnum meiri en hjá heimamönnum. Nú hefur staðan breyst og mörg störf innflytjenda eru horfin. „Hafi fólk ekki unnið hér nógu lengi fær það ekki atvinnuleysisbætur. En það er heldur ekki auðvelt að flytja til baka, því að mögulega á fólkið heldur ekki bótarétt þar. Í tilfelli flóttafólks er það einfaldlega ekki í boði að snúa aftur.“

Á tímum heimsfaraldurs verður enn brýnna en áður að upplýsingar komist skýrt til skila. „Vandamálið eykst þegar stofnanir loka og starfsemi færist yfir á netið. Það getur flækt málin fyrir innflytjendur að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og fylla út eyðublöð á ókunnugu tungumáli. Þar eru Almannavarnir til fyrirmyndar, en á covid.is er að finna upplýsingar á fjölda tungumálum.“

Tökum þátt

Starf Rauða krossins felst að stórum hluta í sálrænum stuðningi, sem fæst með því að hlusta og tala saman. „Rauði krossinn er alltaf á höttunum eftir fleiri sjálfboðaliðum. Starfið er allt í senn skemmtilegt, lærdómsríkt og afar gefandi og ég veit ekki um sjálfboðaliða hjá okkur sem hefur séð eftir sínum tíma. Fólk áttar sig líka fljótt á því að hver sem er getur orðið flóttamaður. Það tekur enginn þá ákvörðun að flýja nema í neyð, og sú neyð getur skapast hvar sem er í heiminum. Við hvetjum áhugasama til þess að fara inn á vefsíðu okkar, raudikrossinn.‌is og skrá sig sem sjálfboðaliða.“