Stefán Örn Gíslason, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi, segir að eins og fyrir undanfarin jól verði Sannar gjafir í boði fyrir fyrirtæki sem vilja gleðja starfsmenn sína með góðum verkum. „Þetta eru gjafabréf sem fyrirtæki kaupa í nafni starfsmanns og við sjáum um að gjöfin komist þangað sem þörfin er mest hverju sinni. Dæmi um Sannar gjafir eru bóluefni, jarðhnetumauk fyrir vannærð börn og hlífðarbúnaður á borð við grímur fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem er að glíma við COVID-19 í efnalitlum samfélögum. Gjafirnar eru á mismunandi verði og við getum sett saman sérstaka pakka fyrir hvert og eitt fyrirtæki,“ útskýrir Stefán. „Sum fyrirtæki hafa gefið tíu bólusetningar á hvern starfsmann og sett miða þess efnis á aðra gjöf. Hvert bóluefni gegn mislingum kostar ekki nema 57 krónur,“ segir hann. „Vítamínbætt jarðhnetumauk sem er nauðsynlegt í baráttunni gegn vannæringu kostar 50 krónur pokinn. Það er hægt að setja saman í pakka bóluefni og jarðhnetumauk, grímur, moskítónet og hvað sem fyrirtæki óska eftir.“

Leynivinagjöf með fallegri hugsun

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum, berst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnir bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. Stefán segir að UNICEF sjái árangur af starfinu á hverjum degi. Það hefur aukist mjög mikið undanfarin ár að fyrirtæki kaupi Sannar gjafir handa starfsmönnum og sleppi því að kaupa óþarfa. Það getur líka verið vandasamt að velja einhvern hlut sem hentar mismunandi smekk hvers og eins starfsmanns, en þó vilja allir láta gott af sér leiða.

„Það sem skilgreinir Sannar gjafir er hversu gjöfin kemur að góðum notum hjá þeim sem þurfa á henni að halda. Sannar gjafir eru lífsnauðsynleg hjálpargögn. Þeir sem kaupa gjafirnar fá í hendur gjafabréf en einnig er hægt að útbúa það rafrænt. Sumir vilja gera sérstaklega merkt jólakort sem við getum sérhannað eftir óskum hvers og eins,“ segir Stefán og bætir við að Sannar gjafir séu líka frábær leynivinagjöf en oft eru slíkir leikir á vinnustöðum fyrir jólin. „Það er hægt að kaupa gjöfina á netinu og þarf ekki einu sinni að fara af vinnustaðnum til að redda gjöf,“ segir hann. „Þetta er falleg hugsun í pakkann, hjálpargögn sem koma sér vel. UNICEF sér svo um að koma gjöfunum þangað sem neyðin er mest.“

Það eru margir sem leggja hönd á plóg við að koma hjálpargögnum á rétta staði í heiminum.

Mikilvægt starf

UNICEF hefur einnig komið að hjálparstarfi í flóttamannabúðum og hefur haldið uppi menntun barna í mörgum af stærstu flóttamannabúðum í heimi. Þar fá börn námsgögn og nauðsynlega kennslu. „Við erum á vissum svæðum að sjá heila kynslóð alast upp í flóttamannabúðum og það er mjög mikilvægt að þessi börn fái menntun, en hægt er að styðja við þá vinnu með því að kaupa námsgögn í gegnum Sannar gjafir,“ segir Stefán.

„Það er mikil þörf fyrir Sannar gjafir í heiminum og það er ákaflega ánægjulegt þegar fólk vill láta gott af sér leiða með því að veita öðrum aðstoð.“

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni sannargjafir.is en einnig má hafa samband við Stefán í gegnum netfangið stefang@unicef.is

Svona pakki getur bjargað barni í neyð. Þetta er vítamínbætt jarðhnetumauk sem UNICEF sendir og getur bjargað lífi vannærðra barna.