Framabraut-Netöryggi er ný og öflug námsbraut hjá Promennt sem er ætlað að mæta eftirspurn eftir sérfræðingum í netöryggismálum en hún hefur aukist mjög undanfarin ár. „Við heyrum allt of oft af netárásum sem gerðar eru á fyrirtæki og stofnanir úti um allan heim og því er mikil þörf á að fjölga sérfræðingum í greininni,“ segja aðalkennarar námsins, þeir Sveinbjörn Þormar og Guðmundur Pétur Pálsson.
Mikilvægi námsins sé því nokkuð augljóst. „Í dag ætti netöryggi að vera grunnur fyrir alla sem vinna með tölvur, vélbúnað og hugbúnað því að áhættan er mikil og mun bara aukast,“ segir Sveinbjörn. „Einnig er staðan sú á Íslandi að flest fyrirtæki eru með fáa starfsmenn í tölvudeild og því mikilvægt að þeir hafi þessa þekkingu. Fáir hafa efni á að hafa netöryggisdeild, þannig að við viljum gera alla starfsmenn klára í netöryggi.“
Guðmundur bætir við að öryggi sé nauðsynlegur hlutur til að hafa í huga í öllum störfum og einnig í einkalífinu. „Það líður ekki dagur án þess að við verðum fyrir árásum eða tilraunum til árása, hvort sem það er í pósti, spjalli, eða yfir netið. Óprúttnir aðilar eru fljótir að nýta sér veikleika og nýjar leiðir til árása. Því er nauðsynlegt að vera reiðubúin með varnir og kunnáttu til að aðlaga þær til að bregðast við nýjum ógnum.“
Þægilegt fyrirkomulag
Til að mæta þessari miklu eftirspurn, og um leið að gera fólki kleift að kynnast þessum spennandi tæknigeira, býður Promennt upp á geysilega öfluga tveggja anna námsbraut í Netöryggi sem eru sex lotur í heildina. Námið gerir ekki kröfu um að nemendur hafi víðtæka þekkingu á öryggismálum en reynsla og þekking á virkni upplýsingakerfa hjálpar þó í náminu.
Námskeiðið er kennt hjá Promennt í Skeifunni en hægt er að taka þátt í fjarkennslu í beinni útsendingu. Það þýðir að hægt er að taka þátt í kennslustundinni óháð staðsetningu, hvort sem nemandi býr á höfuðborgarsvæðinu, á landsbyggðinni eða í útlöndum.
Einnig er hægt að stunda bæði staðnám og fjarnám á sama námskeiðinu. Því er hægt að mæta stundum á staðinn og taka hluta námskeiðs í fjarkennslu, allt eftir því hvað hentar hverjum nemanda, sem er frábær kostur.

Reynslumiklir kennarar
Guðmundur og Sveinbjörn eru báðir mjög reyndir á sínu sviði. „Ég hef verið Microsoft-kennari (MCT) í fimmtán ár og er með 30 ára reynslu í tölvubransanum. Síðustu fimmtán árin starfaði ég sem ráðgjafi hjá Opnum kerfum en er núna Microsoft-hönnuður hjá Isavia,“ segir Guðmundur.
Sveinbjörn hefur starfað sem kerfisstjóri í rúm 25 ár og komið að rekstri ýmissa tölvukerfa á þeim tíma. „Ég hef einnig kennt ýmsa tölvuáfanga hjá Promennt síðustu tólf árin. Síðan er ég mjög áhugasamur um öryggismál og raunar dálítill öryggisnörd.“
Sveinbjörn kennir þrjá áfanga í náminu. „Ég kenni fögin Comptia Security+, Comptia CySa+ og NSE(1-2-3) sem spanna grunnatriði netöryggis upp að dýpri þekkingu, svo sem að setja upp búnað fyrir eftirlit og varnir gegn netárásum (atvikum), greining á hættum í nettraffík og hvernig skal bregðast við þeim.“
Einnig er kennt öruggt utanumhald forrita og búnaðar í rekstrarumhverfi fyrirtækja. „Þar má nefna varnir og viðbrögð við mögulegum innbrotum og greining á atburðum, innleiðingu öruggari tölvureksturs fyrirtækja með sterkri fylgni við öryggisstaðla og stefnur og viðeigandi regluverk.“
Guðmundur kennir MS-500 áfangann (Microsoft 365 Security Administration) sem er kenndur á seinni önninni. „Í þessum áfanga er farið yfir þær fjölmörgu lausnir sem Microsoft býður upp á til að styðja okkur í baráttunni að bættu öryggi. Promennt er Microsoft-vottaður fræðsluaðili og um leið eina vottaða Microsoft-fræðslufyrirtækið á Íslandi.“
Mikil eftirspurn eftir netöryggissérfræðingum
Þeir eru sammála um að námið bjóði upp á mjög góða atvinnumöguleika. „Öll fyrirtæki hafa síðustu árin gefið öryggismálunum aukið vægi. Því er mikil eftirspurn eftir starfsmönnum sem hafa öryggisþekkingu, sérstaklega á breiðum grunni,“ segir Guðmundur.
Sveinbjörn tekur undir orð hans. „Þörfin á starfsfólki með þessa þekkingu hefur aukist mikið þar sem fyrirtæki skilja mikilvægi þess að verja sig og reksturinn. Til þess þarftu fólk með svona menntun. Ég sé fyrir mér að þessi þekking verði bráðum talin grunnþekking sem við viljum sjá hjá öllu starfsfólki.“
Stöðug barátta sem klárast aldrei
Netöryggi er stöðug barátta sem verður aldrei fullkomnuð að sögn Guðmundar. Það komi stöðugt upp nýjar ógnir og þar af leiðandi nýjar lausnir til að bregðast við þeim og fyrirbyggja skaða. „Störfum tengdum upplýsingaöryggi mun fjölga á næstu árum ásamt kröfunni um að allt starfsfólk sé með virka öryggishugsun.“
Sveinbjörn segir skort vera á starfsfólki í dag með grunnþekkingu í netöryggi og það gæti tekið mörg ár að ráða í öll þau störf sem verða á lausu. „Verkefnin sem við sinnum í dag verða líklega mikið breytt innan fárra missera. Það koma nýjar þjónustur í umhverfi okkar, nýr búnaður, aðstoð frá gervigreind og annað sem við sjáum ekki einu sinni núna. En við munum alltaf þurfa gott starfsfólk með þekkingu og innsýn til að vinna að þessum mikilvægu verkefnum.“
Nánar á promennt.is.