Vodafone hefur lagt áherslu á fræðslu í gegnum samstarf við SAFT sem er vakningarátak um jákvæða og örugga tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi sem og með beinni fræðslu til sinna viðskiptavina.

„Möguleikarnir á netinu eru óteljandi og hafa breytt mörgu til hins betra, en það á einnig sínar skuggahliðar sem þarf að varast,“ segir Kristín Björk Bjarnadóttir, forstöðumaður á einstaklingssviði hjá Vodafone. „Mikilvægasti þátturinn í netöryggi er fræðsla og upplýsingagjöf,“ bætir hún við. „Það getur reynst mikil áskorun fyrir fjölskyldur að halda í við þá öru tækniþróun sem er að eiga sér stað og þar skiptir helst máli að foreldrar axli ábyrgð og aðstoði börn og unglinga við að læra á netið, snjalltæki, smáforrit og annað sem fylgir þessari öru þróun“ upplýsir Kristín.

„Fyrir foreldra sem eru smeykir við YouTube notkun ungra barna sinna höfum við bent á áskriftaveituna okkar Hopster, sem er bæði aðgengileg fyrir áskrifendur í Vodafone Sjónvarpi, sem app í snjallsímann eða spjaldtölvuna og er sérsniðið fyrir börn á aldrinum 2 -6 ára,“ segir Kristín.

„Allt efni Hopster er yfirfarið af teymi sérfræðinga, uppeldisfræðinga og sálfræðinga í Bretlandi og þarf að uppfylla strangar reglur áður en það er vottað „KidSAFE“ eða barnvænt og fer í loftið. Hopster er öruggt og auglýsingalaust umhverfi fyrir börn,“ nefnir Kristín.

„Bæði börn og fullorðnir verða að tileinka sér meðvitaða varkárni í umgengni sinni við internetið og í því samhengi viljum við einnig nefna netsvindl í gjafaleikjum þar sem stöðugt er reynt að hafa fé af fólki,“ upplýsir Kristín og nefnir nokkra punkta sem gætu gefið í skyn að um netsvindl sé að ræða.

„Almennt óska fyrirtæki ekki eftir kreditkortaupplýsingum án aðkomu öruggra greiðslusíðna á borð við Valitor og Borgun hér heima á Íslandi. Það er þrautinni þyngra að sporna við svindlpóstum eða vefsíðum eins og þessum á myndinni þar sem klókir svindlarar eiga auðvelt með að setja upp tímabundnar falskar heimasíður og netföng. Hjá Vodafone Ísland erum við í stöðugu samstarfi við Vodafone Global að reyna að uppræta þessa starfsemi,“ segir Kristín.

Hér má sjá nokkra punkta sem geta bent til þess að um netsvindl sé að ræða:

  • Óskað er eftir kreditkortaupplýsingum í gjafaleik
  • Það eru stafsetningar- og málfarsvillur í textanum
  • Verðlaunin í leiknum eru of góð til að geta verið sönn
  • Það er farið fram á að brugðist sé strax við tilboðinu eða gjöfinni sem viðkomandi fær sendar upplýsingar um
  • Almennt gefa fyrirtæki ekki upp IP tölu í samskiptum sínum við viðskiptavini.
Hér er dæmi um hvernig netsvindl getur litið út.

Upptalningin er vissulega ekki tæmandi og hvetur Kristín viðskiptavini Vodafone til að hafa samband ef grunur er um netsvindl í nafni Vodafone. Hægt er að hafa samband við okkur í síma 1414, á netspjalli á vodafone.is eða á samfélagsmiðlum Vodafone,“ segir hún.

„Þrátt fyrir að internetið hafi verið hluti af okkar daglega lífi undanfarna áratugi erum við sem notendur stöðugt að læra að umgangast það, bæði hvað varðar tímann sem fólk notar á internetinu, mörk sem það setur í samskiptum sínum í gegnum internetið og áreiðanleika gagna sem það finnur þar. Internetið er sístækkandi hluti í þeirri þjónustu sem fólk sækir, hvort sem um er að ræða bankaviðskipti, að kaupa í matinn eða horfa á sjónvarpið, það er því mikilvægt að netöryggi og þær leiðir til þess að gera enn betur á því sviði séu ávallt í skoðun og að samtalið við neytendur sé lifandi.“