Það er skemmtileg og notaleg náttúruupplifun að baða sig í Gömlu lauginni, eða The Secret Lagoon, sem er elsta sundlaug landsins. „Laugin var byggð árið 1891 en líklega hefur verið baðstaður á þessum slóðum um aldir, enda hverir með heitu vatni allt um kring. Hún var notuð fyrir kennslu allt til ársins 1947 en þá lagðist starfsemin af. Eigendur laugarinnar ákváðu að endurbyggja hana í sinni upprunalegu mynd fyrir nokkrum árum og tóku hana algjörlega í gegn. Öllu grjóti var raðað upp á nýtt og ný möl sett í botninn. Jafnframt var byggð flott búningsaðstaða með skápum og sturtum, og göngustígar lagðir í kringum laugina. Náttúrulegt hveravatn rennur í hana og hitar hana upp,“ segir Agnes Szwaja, rekstrarstjóri The Secret Lagoon.

Laugin var opnuð á ný 2014 og hefur öðlast miklar vinsældir, ekki síst meðal erlendra ferðamanna. Sífellt fleiri landsmenn hafa uppgötvað þessa einstöku laug.

„Það tekur aðeins um 90 mínútur að keyra frá höfuðborgarsvæðinu í Gömlu laugina. Á Flúðum eru spennandi veitingastaðir og margs konar afþreying, svo auðvelt er að búa til spennandi dagsferð hingað úr borginni og annað hvort byrja eða enda í Gömlu lauginni,“ segir Agnes og bætir við að margir flétti ferð í laugina saman við ferð til Þingvalla, að Geysi og Gullfossi og gisti jafnvel í nágrenninu. „Hér í kring er margt sem gaman er að skoða,“ segir hún.

Gamla laugin var byggð árið 1891 og er elsta sundlaug landsins.

Hagstætt verð

Eigendur Gömlu laugarinnar vilja að allir geti komið og dýft sér í vatnið, óháð fjárhag og því er verðinu stillt í hóf. „Við bjóðum upp á sérlega hagstætt verð, eða 3.000 kr. í aðgangseyri fyrir fullorðna. Það er frítt fyrir börn, 14 ára og yngri, sem koma í fylgd foreldra eða forráðamanna. Vegna öryggismála má hvert foreldri eða forráðamaður ekki vera með fleiri en þrjú börn með sér. Í sumar stefnum við á að hafa opið frá klukkan 12-20 alla daga. Mesti annatíminn er yfirleitt frá klukkan 15.30-17.30 svo ég mæli með að koma fyrir eða eftir þann tíma, ef fólk hefur tök á því,“ segir Agnes og bætir við að hægt sé bóka tíma á vefsíðunni, www.secretlagoon.is.

Þegar Agnes er spurð hvað geri Gömlu laugina svona sérstaka segir hún að það sé einstakt að eigendurnir hafi fengið þá hugmynd að gera hana upp og lagt mikið á sig til að hún heppnaðist eins vel og raun ber vitni. „Laugin er eitthvað svo ekta. Fjölskyldan sem á hana býr hér á svæðinu og vildi leggja sitt af mörkum til að byggja upp samfélagið.“

Nánari upplýsingar secretlagoon.is