Það hefur sýnt sig að mun færri konur eru í fyrirtækjarekstri en karlar og má t.d. sjá að um fjórðungur kvenna eru framkvæmdastjórar í nýstofnuðum fyrirtækjum samkvæmt Hagstofunni. Markmið með námskeiðinu er að skerpa sýnina á viðskiptaþróun, öðlast hagnýta þekkingu á þeim þáttum sem snúa að stofnun og rekstri fyrirtækja, s.s. vöruaðgreiningu, markaðsmálum, fjármálum, verkefnastjórnun, kynningum, auk þess að efla tengslanet kvennanna og margt fleira.

Námskeiðið Brautargengi skerpti sýnina

Mistur selur umhverfisvænar vörur fyrir heimilið og einstaklinga. Þórunn Björk Pálmadóttir, eigandi verslunarinnar, fékk hugmyndina þegar hún ákvað að byrja að endurvinna vörur úr pappír og tré. „Ég byrjaði að búa til vörur sem ég ákvað að selja og náði að byggja mig hægt og rólega upp. Ég er kannski áhættufælin, en tók þetta með kalda vatninu og byggði verslunina upp eftir efni og aðstæðum.“Þórunn ákvað að fara á brautargengisnámskeið Nýsköpunarmiðstöðvar eftir að hafa rekið verslunina í nokkur ár. „Ég var því komin með smá grunn.“ Þórunn segir að námskeiðið hafi verið frábært. „Með mér var fullt af flottum konum og verkefnum sem þær eru með í gangi. Ég var fyrst tvístígandi um hvort ég ætti að fara á námskeiðið en er þakklát fyrir að hafa drifið mig.“Einkaleiðsögn líkaÁ námskeiðinu er komið inn á mörg atriði sem varða fyrirtækjarekstur. Námskeiðið er ætlað konum sem eru komnar lengra eða styttra með viðskiptahugmyndir. „Þetta nýtist ábyggilega mjög vel konum sem eru að byrja með einhverja hugmynd. Hópurinn sem stendur að baki námskeiðinu veitir mikinn stuðning, líka utan kennslustunda. Það er rosalega gott að geta leitað til þeirra á milli tíma og fá einkaleiðsögn.“Þórunn gat notfært sér kennsluna til að lagfæra viðskiptaáætlunina jafnóðum í tímum. „Ég gat þá unnið hana samhliða námskeiðinu og fengið leiðbeiningar eftir því hvert ég var komin.“Konur þurfa hvatninguÞórunn telur að sams konar námskeið ætti líka að vera í boði fyrir karlmenn. Hún segir að það sé mikilvægt fyrir konur en einnig gæti það verið mikilvægt fyrir karla. Þórunn mælir hiklaust með að skella sér á námskeiðið. „Námskeiðið getur skerpt sýnina á hvað maður er að gera.“Viðskiptavinahópur Misturs er alltaf að stækka en Þórunn leggur mikið upp úr því að vöruúrvalið sé vel ígrundað.Ein af fyrstu vörunum sem voru seldar í netversluninni voru matvælaarkirnar svokölluðu, Bee’s wrap arkir úr bývaxi sem koma í stað nestispoka og plastfilmu. „Mér fannst þær hreinlega algjör snilld. Ég fór með mínar fyrstu út í moltu haustið 2018, þær brotnuðu alveg niður og ég hef ekki séð þær síðan.“ Þórunn segir að það megi nota arkirnar utan um öll matvæli nema hrátt kjöt.„Bývaxið verndar matvælin gegn rotnun líka, sem spornar við matarsóun.“ Því mætti segja að þó bývaxarkir séu dýrari en plastfilmur þá borga þær sig á endanum. Mörgum finnst umhverfisvörur dýrar en þá á alveg eftir að horfa til ýmissa þátta er viðkemur bæði framleiðslu og förgun ódýrari var sem ekki eru jafn umhverfisvænar.“Umhverfisvænar vörurFljótlega eftir að Þórunn byrjaði að selja bývaxarkirnar hóf hún að selja fleiri vörur. Þórunn leitast við að finna vörur sem koma í stað plasts, og að finna vörur sem skaða ekki vistkerfið með einhverjum hætti. „Ef maður er duglegur að flokka sér maður hve mikið safnast fyrir. Það að geta dregið úr því er dásamlegt. Markmiðið er að koma umhverfisvænu vörunum okkar í fleiri verslanir þannig að neytandinn hafi val um umhverfisvænan kost í venjulegum búðum en þurfi ekki að fara í sérverslanir til þess.“

Þótt Helga sé búin að afla sér mikillar reynslu, þá segir hún gott að vita að það sé alltaf hægt að leita til Nýsköpunarmiðstöðvar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Varð meira sjálfbjarga

Helga Magnúsdóttir rekur axarkastsaðstöðu ásamt Elvari, kærasta systur sinnar, í Hafnarfirðinum. Hún segist vera þakklát fyrir það sem hún lærði á námskeiðinu. „Ég er afskaplega ánægð með að hafa drifið mig. Ég hef engan bakgrunn í fyrirtækjarekstri. Ég er miklu meira sjálfbjarga með margt sem tengist rekstrinum. Námskeiðið er frábært fyrir konur sem eru með viðskiptahugmynd og þurfa pepp til að halda áfram að móta hugmyndina.“Helga var farin af stað með rekstur Berserkja axarkasts vorið 2018, en fór á námskeiðið um haustið. „Margir voru með hugmynd á byrjunarstigi sem varð betri og hnitmiðaðri á námskeiðinu.“Helga segir að námskeiðið hafi fyrst og fremst hjálpað henni að átta sig á hvernig markaðurinn væri og hverjir hennar samkeppnisaðilar væru. „Mér var sýnt hverju ég þyrfti að huga að varðandi það, líka með auglýsingar og hvernig ég á að koma mér á framfæri. Ég styrktist í að vita að við værum á réttri leið.“Dýnamík í kvenhópumHelga segir að Brautargengisnámskeiðið geti orðið til þess að konur þori að kýla á hlutina. „Það eru ótrúlega margar konur með einhverja hugmynd sem þær eru kannski búnar að ganga með lengi. Námskeiðið getur gjörsamlega ráðið því hvort þær ráðist í verkefnið eða ekki.“Helgu fannst til bóta að námskeiðið væri einungis fyrir konur. Sjálf kemur hún úr starfsgrein þar sem yfirgnæfandi meirihluti eru karlmenn.Axarkast verði atvinnuíþróttBerserkir axarkast býður hópum og einstaklingum að koma og kasta öxum í afþreyingarskyni. Helga segir að þau stefni að því að gera axarkast að atvinnuíþrótt á Íslandi. Helga og Elvar kenna hópi einstaklinga reglulega og eru að leitast við að stækka þann hóp. „Við kennum þá keppnisfyrirkomulag eftir reglum frá Kanada, svo erum við búin að byggja brautir og fleira. Það er heimsmeistaramót í axarkasti á hverju ári. Við erum þau fyrstu sem bjóðum upp á innanhússaðstöðu sem hentar vel á veturna.“Helga og Elvar eru þó líka búin að smíða sex útiskotmörk sem þau keyra á milli staða á kerru. „Við höfum stundum farið út fyrir bæinn með þau fyrir stærri hópa. Á því eina og hálfa ári sem aðstaðan hefur verið opin hafa yfir 3.000 manns komið þangað. Þá er ég ekki að tala um hópana.“Þó Helga sé búin að afla sér mikillar reynslu og þekkingar á rekstrinum, þá segir hún gott að vita að það sé alltaf hægt að leita til Nýsköpunarmiðstöðvar.„Ef mig langar að breyta einhverju, ef ég er með einhverja aðra hugmynd er alltaf hægt að fá aðstoð. Þau eru öll svo yndisleg og gott að vita af þeim.“

Námskeiðið stendur í 14 vikur og kennt einu sinni í viku. Nánari upplýsingar má finna á nmi.is/brautargengi