Félag náms- og starfsráðgjafa hefur stækkað mikið frá stofnun þess fyrir fjörutíu árum. „Í upphafi voru stofnfélagar sjö talsins og hét þá Félag námsráðgjafa. Fjöldi félagsmanna hefur vaxið í takt við aðgengi að menntun á sviði náms- og starfsráðgjafar í gegnum Háskóla Íslands og svo hafa félagar menntað sig erlendis. Til marks um þróun félagsins breytti það nafni sínu í Félag náms- og starfsráðgjafa til að leggja áherslu á heildræna sýn á náms- og starfsferilinn og þau viðfangsefni og verkefni sem einstaklingur fæst við. Það er mikill mannauður fyrir hendi í félaginu, menntaðir sérfræðingar á sviði náms- og starfsráðgjafar, náms- og starfsfræðslu og starfsþróunar einstaklinga,“ útskýrir Jónína en félagsmenn eru um 300 í dag og starfa á mjög fjölbreyttum vettvangi, allt frá því að starfa innan menntakerfisins, þar með talið innan sí- og endurmenntunar, og í opinberum stofnunum, eins og Vinnumálastofnun og VIRK. Þó nokkrir félagsmenn starfa sjálfstætt.

Aðgengi alltaf að verða betra

„Það er mat Félags náms- og starfsráðgjafa að auka verði markvissa náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu innan skólastiganna þriggja og úti á vinnumarkaðnum. Aðgengi að upplýsingum um þróun vinnumarkaðar og framtíðarhorfur samhliða upplýsingum um framboð menntunar er einn af grunnþáttum í náms- og starfsvali einstaklinga. Við horfum með ánægju til vefsins naestaskref.‌is sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þróað og namsogstorf.‌is í umsjón Iðunnar fræðsluseturs. Þeir eru mjög mikið notaðir af bæði almenningi og náms- og starfsráðgjöfum.

Eitt aðalverkfærið okkar er viðtalstækni og að hlusta, hlusta á þá sögu sem ráðþeginn segir, átta sig á hvaða áskoranir viðkomandi er að fást við, fræða og efla færni til að stýra sínu fleyi, ef svo má að orði komast, þannig að þeir séu í stakk búnir til að stjórna náms- og starfsferli sínum,“ segir Jónína en hún hefur lengi verið virk í starfi Félags náms- og starfsráðgjafa. Hefur meðal annars skrifað talsvert um málefni náms- og starfsráðgjafar, tekið þátt í nefndarstörfum vegna siðareglna fyrir félagsmenn og átt faglegt samstarf um málefni stéttarinnar.

Þegar Jónína er spurð hvort félagsmenn séu yfirleitt virkir í starfi félagsins svarar hún: „Enginn maður er eyland og það skiptir mjög miklu máli að eiga faglegan vettvang. Það hefur ekki legið á þeirra liði þegar stjórn hefur kallað eftir áliti á málefnum tengdum náms- og starfsráðgjöf eða kallað eftir þátttöku félagsins í stefnumótandi málum tengdum faginu.“

Afmælisdagskrá 28. október

Hvernig ætlið þið að halda upp á afmælið?

„Félag náms- og starfsráðgjafa mun halda upp á afmæli sitt með því að varpa sterku ljósi á náms- og starfsráðgjöf, hversu mikilvægt það er fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið að hafa aðgang að slíkri þjónustu. Við ætlum að halda upp á afmælið með margvíslegum hætti sem felst í því að gera starf félagsins sýnilegra og þar með náms- og starfsráðgjöf. Við boðum til dagskrár fyrir félagsmenn í tilefni af Degi náms- og starfsráðgjafar 28. október. Dagskráin fyrir hádegi er opin öllum í gegnum streymi. Ég vil sérstaklega benda á lykilfyrirlestur Tristram Hooley, prófessors við Inland Norway University of Applied Sciences, sem fer fram á ensku: Why we need career guidance in the post-pandemic era. Hann fjallar um mikilvægi náms- og starfsráðgjafar alla ævi, sérstaklega á þessum breyttu tímum í kjölfar Covid-19 faraldursins ásamt því að benda á hvernig hægt er að nýta stafrænar og rafrænar leiðir við upplýsingagjöf,“ segir hún.

Mikilvægt starf

Jónína útskrifaðist frá Háskóla Íslands með diplómanám í náms- og starfsráðgjöf 1995 og lauk meistaranámi í ráðgjafarsálfræði frá University of Minnesota. „Ég starfa sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri við Háskóla Íslands. Þegar ég lít um öxl á minn náms- og starfsferil þá sé ég hvernig aðstæður, tækifæri og fyrri menntun mín leiddi mig inn í þetta fag. Ég er með B.Ed.-próf í grunninn og í gegnum kennslureynslu mína sá ég hversu mikilvægt það var fyrir ungmenni að hafa vitneskju um fjölbreytt tækifæri til náms og starfs í gegnum náms- og starfsfræðslu og þar með geta mótað sína lífsstefnu.“

Af hverju valdir þú þetta nám?

„Já, þetta er mjög góð spurning og ein af kjarnaspurningum í náms- og starfsráðgjafarstarfinu. Ég vildi mennta mig betur á þessu fagsviði og öðlast sérfræðiþekkingu. Ég sá þarna tækifæri til að öðlast sérhæfingu á fagsviðinu, koma heim, miðla og taka þátt í að efla fagið og starfið hér heima,“ svarar Jónína.

„Margt hefur breyst frá því ég útskrifaðist. Stærsta breytingin er sú að starfsheitið náms- og starfsráðgjafi hlaut lögverndun árið 2009 og endurspeglar mikilvægi fagþekkingar og þess að tryggja gæði ráðgjafar. Fjölbreytni námsframboðs hefur vaxið til muna og gerðar eru auknar kröfur um að einstaklingar sinni endurmenntun alla ævina. Þessar aðstæður sem felast í síbreytilegum vinnumarkaði, breyttum kröfum atvinnulífsins til hæfni og stafræn bylting kallar á að hver og einn öðlist hæfni til að stjórna náms- og starfsferli sínum. Þá má segja að ævilöng náms- og starfsráðgjöf komi til skjalanna,“ segir hún.

„Margvísleg aðferðafræði hefur þróast til að styðja betur við einstaklinga og horft er meira til menntunar á starfsvettvangi, bæði formlegrar og óformlegrar. Ég vil nefna tilkomu raunfærnimats en það er leið til að meta þá færni og þekkingu sem öðlast má á vinnumarkaði. Það eru náms- og starfsráðgjafar á símenntunarstöðvum sem hafa verið að vinna í þessum málum undir forystu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Aðgengi að náms- og starfsráðgjöf hefur einnig breyst í takt við tæknina og stafræna byltingu. Náms- og starfsráðgjafar, eins og svo margar aðrar fagstéttir, umbyltu starfsháttum sínum á Covid-tíma og nýttu sér stafræna tækni til að styðja við ráðþega sína og færa þjónustuna nær þeim. Aðgengi að upplýsingum hefur breyst til batnaðar til dæmis með vefnum naestaskref.is sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur leitt þróun á og nýtist öllum sem vilja fræðast um nám og störf. Það skiptir mjög miklu máli að hafa aðgengi að vel framsettum upplýsingum og vönduðum um nám og störf, það styður við einstaklinginn í sínum ákvarðanatökum um framtíðarskref.“

Unnið í lausnum

Þegar Jónína er beðin að lýsa starfi náms- og starfsráðgjafa og hvað sé skemmtilegast við það segir hún: „Starf í náms- og starfsráðgöf er jafn fjölbreytt og ráðþegahópurinn. Eðli verkefna í náms- og starfsráðgjöf er mismunandi eftir því á hvaða vettvangi er unnið. Náms- og starfsráðgjafar eru talsmenn sinna ráðþega og styðja þá í að ná markmiðum sínum og árangri í námi og starfi. Í hnotskurn snýst starfið um samskipti, að nálgast einstaklinginn þar sem hann er, hlusta, styðja og vinna að lausnum sem viðkomandi getur fylgt eftir.

Það sem mér finnst skemmtilegast er að fá að hlusta á sögur fólks, það treystir mér fyrir ýmsu er við kemur upplifun þeirra af menntun og starfsreynslu. Það er að reyna að finna svör við stórum spurningum: Hvað á ég að gera núna? Hvað vil ég verða eða gera í framtíðinni? Hvernig kemst ég út á vinnumarkaðinn? Síðan aðstoða ég viðkomandi við að sjá málin út frá ýmsum sjónarhornum, bendi á upplýsingar til stuðnings og viðkomandi fer að vinna í sínum málum og verða sjálfstæðari. Starfsvettvangur náms- og starfsráðgjafa er auk þess fjölbreyttur, innan menntakerfisins, á símenntunarstöðvum, vinnumiðlununum, og í fyrirtækjum.

Mikilvæg samvinna er á milli náms- og starfsráðgjafa og fyrirtækja. Jónína segir hana mikilvæga. „Hún er helst í tengslum við verknám og iðn- og tækninám. Ein grunnstoð í náms- og starfsfræðslu er að vera í samvinnu við vinnumarkaðinn og atvinnulífið þannig að nemendur, hvar sem þeir eru staddir í námi, fái raunhæfa mynd af starfsvettvöngum og hvers konar menntun og hæfni liggur þar að baki. Hér má gera mun betur og það er von mín að það rætist með aðgerðaáætlunum menntastefnu 2030,“ segir hún.

Með brennandi áhuga á faginu

Jónína hefur brennandi áhuga á faginu og áhrifamætti þess. Náms- og starfsráðgjöf hefur svo margvíslega snertifleti hvað samfélagið varðar. Hún segist vera forvitin að eðlisfari og njóta þess að uppgötva nýja hluti, prófa nýjar aðferðir í starfi og ekki síst að nýta tækni í náms- og starfsráðgjöf. „Að sjá hvernig það getur stutt undir framþróun í faginu og þjónustu í náms- og starfsráðgjöf. Ég hef notið þeirrar gæfu að starfa við það sem ég hef menntað mig til og starfa á vinnustað þar sem ég upplifi suðupott fræða og framkvæmda og tengsl við atvinnulífið sterk,“ segir hún.

Jónína er fjölskyldumanneskja, gift og á tvær dætur á framhaldsskólaaldri. „Ég hef mjög gaman af blaki, tók þátt í Öldungablaki. Svo er magnað að ég finn að áherslur hvað áhugamál varðar eru að breytast. Hef mjög gaman af nýjungum eins og hlaðvarpi og hvers konar miðlun,“ segir hún aðspurð um áhugamálin fyrir utan vinnuna.

Þeir sem vilja fræðast nánar um starfið og félagið geta farið inn á heimasíðuna fns.is eða senda fyrirspurn á fns@fns.is

Dagur náms- og starfsráðgjafar er 20. október 2021 Dagur náms- og starfsráðgjafar á Íslandi er nú haldinn í fimmtánda sinn. Til hans var stofnað árið 2006 af Félagi náms- og starfsráðgjafa en tilgangur dagsins er að vekja athygli landsmanna á þessari tegund ráðgjafar og hvar hana er að finna ásamt því að kynna helstu strauma og stefnur í fag- og fræðigreininni. Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að þeir geti notið sín í námi og starfi.

Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að eiga hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi. Náms- og starfsráðgjöf er lögbundin þjónusta og mikilvægt að tryggja aðgengi að henni, hvar sem maður er staddur á sínum náms- og starfsferli. „Að mínu mati er þetta rökrétt því eitt af meginverkefnum einstaklings í lífinu er að taka ákvarðanir um nám og störf og finna sína leið,“ segir Jónína Kardal, formaður félagsins.

Alþjóðasamfélagið leggur mikla áherslu á aðgengi að náms- og starfsráðgjöf og sérhæfða þjónustu er varðar starfsferilsþróun fyrir þegna sína sem leið til að stuðla að því að einstaklingar verði færari í að stjórna náms- og starfsferli sínum auk þess að ýta undir félagslegt réttlæti. Það er fagnaðarefni að í nýrri menntastefnu stjórnvalda til 2030 undir kjörorðinu Framúrskarandi menntun alla ævi er náms- og starfsráðgjöf meðtalin í einni af fimm stoðum sem styðja við framtíðarsýnina, hæfni fyrir framtíðina.