Birgit Eriksen er eigandi fyrirtækisins hér á landi. „Þetta er alþjóðlegt fyrirtæki sem starfar undir sérleyfi (franchise) og það er komin gríðarleg reynsla á þetta erlendis. Nú þegar hafa meira en 200.000 nemendur um allan heim lokið einu eða fleiri námskeiðum svo þetta er orðið vel gagnreynt. Skólinn starfar í 35 löndum og býður upp á staðkennslu og fjarkennslu.

Dýrmæt þekking

Birgit segir hugmyndina hafa hafa kviknað síðasta vor. „Ég er menntaður viðskiptafræðingur og hefur lengi langað til að vinna með eitthvað sjálfstætt á eigin vegum. Það getur verið erfitt að byrja frá grunni svo ég fór að leita í kringum mig. Ég kem úr mikilli kennarafjölskyldu en tvær systur mínar, pabbi, mamma, frænkur og frændur eru öll kennarar, svo ég hef alist upp í þessu umhverfi og þetta heillaði mig samstundis.“

Þörf sé á að bjóða upp á nám af þessu tagi. „Ég fann hvað þetta skiptir miklu máli og vildi leggja mitt á vogarskálarnar fyrir samfélagið. Það liggur því mikil hugsjón að baki, þessi heimur er í stöðugum vexti og þróun og það er áríðandi að vera tölvulæs og helst kunna eitthvað að forrita,“ segir Birgit.

„Ég fór að skoða þetta, hvort þetta væri kennt í skólum hérna, hvort það væri þörf fyrir þetta og bera saman við önnur lönd, en það veltur á hverjum skóla fyrir sig hvort þetta sé í boði eða ekki, til dæmis út frá þeim kennurum sem þar starfa. Ég byrjaði svo síðastliðið haust að setja þetta upp, finna kennara og senda þá í þjálfun.“

Vel þjálfaðir kennarar

Birgit segir mikilvægt að skoða vel starfsreynslu þegar sóst er eftir starfsfólki. „Það er mikill kostur ef viðkomandi kann eitthvað meira en gengur og gerist, það eflir nemendur, veitir þeim enn frekara forskot og er nauðsynlegt í mörgu samhengi. Kennararnir okkar eru menntaðir í tölvunarfræði, við erum með einn hugbúnaðarverkfræðing og tveir þeirra eru núna að þjálfa sig upp í leikjahönnun,“ segir Birgit. Þeir læra að kenna og þurfa að standast meðal annars verklegt próf til að öðlast réttindi til að starfa hjá skólanum.

„Kennararnir fara í gegnum ákveðið prógramm hjá höfuðstöðvunum þar sem þeir læra að kenna og þurfa að standast meðal annars verklegt próf til að öðlast réttindi til að starfa hjá skólanum. Það er einnig mikið lagt upp úr því að þeir búi yfir hæfni til þess að starfa með krökkum, en allir kennararnir hjá okkur búa yfir góðri reynslu á því sviði. Það er gaman að segja frá því að allir kennararnir okkar fengu mjög góðar umsagnir að utan.“

Einar Lúðvík Ólafsson er kennari í Algorithmics Reykjavík. Einar er menntaður tölvunarfræðingur og myndlistamaður og segir kennsluna og myndlistina eiga vel saman. MYND/AÐSEND

Yfirgripsmikið ferli

Einar Lúðvík Ólafsson er einn þriggja kennara í Algorithmics Reykjavík. „Ég er tölvunarfræðingur, útskrifaðist úr HÍ, og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá LHÍ í sumar, í miðjum heimsfaraldri. Ég var að leita mér að starfi þar sem ég gæti unnið að hluta og líka sinnt myndlistinni, sá þetta auglýst sem nýtt fyrirtæki sem var að byrja og sótti um.“

Hnn segir ferlið hafa verið afar lærdómsríkt. „Þetta er mjög yfirgripsmikið ferli og skilvirkur vettvangur sem námsefnið er unnið út frá sem við þurfum að læra á. Mér þótti mikið til koma hvernig þau halda utan um námskeiðið og að læra um allt sem við getum gert, til dæmis í Python og leikjagerð.“

Einar, sem áður hefur unnið með börnum, meðal annars á tækniverkstæði á bókasafni og sem frístundaleiðbeinandi, segir starfið bæði skemmtilegt og gefandi. „Ég var nýlega með fyrsta staðtímann þar sem ég tók á móti nemendum í persónu og það var mikið fjör og ærslagangur. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað börn í dag eru fljót að tileinka sér þessa tækni og tölvukunnáttu.“

Stúlkurnar sem voru í 1. sæti á Íslandi í forritunarkeppni Algorithmics í aldursflokknum 12-15 ára. Frá vinstri: Snæfríður Edda Thoroddsen, Líf Young og Lóa Margrét Hauksdóttir. MYND/RAGNARJÓNRAGNARSSON

Einstaklingsmiðað nám

Námsefni er þróað af alþjóðlegu teymi sérfræðinga og námsframboð er fjölbreytt. „Það er hægt er að velja á milli mismunandi námsleiða innan hvers náms. Þetta er einstaklingsmiðað nám, nemendur staldra þá aðeins við ef þeim þykir efnið flókið og svo geta kennarar lagt fyrir flóknari verkefni fyrir lengra komna. Það eru ekki allir á sama stað, rétt eins og í venjulegum skóla, en við höfum meiri tækifæri til þess að einstaklingsmiða námið fyrir hvern nemanda.“

Áhersla er lögð á sveigjanleika. „Kennslugrunnurinn er alltaf aðgengilegur, nemendur geta nálgast verkefnin allan sólarhringinn og ef eitthvað næst ekki í tíma er hægt að fara í kennslugrunninn, reyna aftur við verkefnin eða halda áfram. Það er mikið efni í boði og undir hverjum og einum komið hversu miklum tíma viðkomandi vill eyða, eða leggja sig fram. Grunnurinn er í boði fyrir bæði staðnemendur og fjarnemendur,“ segir Birgit.

„Þetta er sjónræn kennslustofa (visual classroom) og hámarksfjöldi nemenda er sex, en yfirleitt eru 4-5 í hóp og kennari. Kennslan fer fram eins og á fjarfundum almennt, kennarar og nemendur deila skjá og verkefni eru unnin í tímanum. Kennarinn sér hvað hver og einn er að gera, hvar viðkomandi er staddur og leiðbeinir út frá því.“

Fjölbreytt námskeið

„Í Mars Academy námskeiðinu eru nemendur á bilinu 8-12 ára en það er góður aldur til að byrja. Námið er mjög sjónrænt og þau eru ekki að skrifa kóða en eru samt að forrita með því að búa til leiki og teiknimyndir. Þau læra þannig að búa til sjálf og eru ekki bara að leika sér. Þau forrita á sjónrænan hátt og geta sýnt fram á færni sína í lok námskeiðs,“ útskýrir Birgit.

„Við erum svo með Python fyrir byrjendur sem eru 11-13 ára, en það er með vinsælustu forritunarmálum í heiminum og hægt að nýta það í margt. Þetta er sveigjanlegt mál sem hægt er að beita í ýmsu samhengi en þar má til dæmis nefna tölvuleikinn Eve online sem er forritaður með Python og var upphaflega búinn til sem kennsluefni í forritunarmáli. Python náði svo mikilli útbreiðslu einfaldlega vegna þess hvað það er gott, en grunnhugsunin þar er að nemendur læri frá grunni og kennslunálgunin er öll mjög rökrétt. Við bjóðum líka upp á framhaldsnám í Python fyrir 14-17 ára.“

„Síðan bjóðum við upp á Tölvulæsi fyrir yngstu krakkana sem eru á bilinu 7-9 ára. Það er dálítið öðruvísi námskeið þar sem er mikið unnið með grunnfærni í notkun á tölvum. Það þarf að kenna þeim um hluti eins og pixla og línurit. Sumir skilja forritun og eru eldfljótir að átta sig, en kunna kannski ekki alveg að lesa skjáinn og vantar þessa grunnfærni til að skilja umhverfið, ýta á rétta takka og svo framvegis.“

Algóritminn er víða

Birgit segir námið styrkja börn á marga vegu. „Þetta er í raun 21. aldar grunnkunnátta sem er orðin öllum nauðsynleg og það er misjafnt hversu mikinn aðgang krakkar hafa að svona námi. Við sjáum að þeir sem hafa sótt svona námskeið pluma sig betur. Þetta er þjálfun í rökhugsun og sköpun, nemendur læra að hugsa út fyrir boxið og þetta er krefjandi en skemmtilegt. Þetta gefur krökkum mikið og þau hugsa með sér: ég lærði þetta og gat búið þetta til. Það þarf aldrei að spyrja hvers vegna er ég að læra þetta vegna þess að þetta leiðir alltaf eitthvað af sér.“

Þá nefnir hún dæmi um algóritma sem kennarar nota gjarnan í kennslu. „Það má líka sjá algoritma í svo mörgu, eins og að fara á fætur morgnanna, klæða sig og bursta tennur. Eða að baka köku, þá finnur þú uppskrift, tekur til hráefni, ferð eftir uppskriftinni og úr verður kaka. Þetta er röð atburða og krakkarnir eru fljótir að átta sig á því.“

Frír kynningartími og hægt að nota frístundastyrk

„Við erum ákaflega stolt af námsefninu okkar og bjóðum upp á frían kynningartíma sem er um klukkutími að lengd. Þar segir kennarinn frá náminu og svo er farið í praktísk atriði í lokin. Við viljum endilega að foreldrar séu með ef það skyldi vera vafi um hvaða námskeið henti.“

Námskeiðin eru mislöng og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Við bjóðum upp á að kaupa 4 vikur sem er lágmarksskuldbinding, 8 vikur, 12 vikur og svo 16 vikur, sem er ein skólaönn. Þá er tekið hlé og svo bjóðum við einnig upp á sumarnámskeið. Einnig er hægt að fara í nám sem spannar tvö ár,“ segir Birgit.

„Það er hægt að nota frístundastyrkinn og við erum búin að semja við flest stærstu sveitarfélögin. Foreldrar geta skráð börnin sín í gegnum skráningar- og greiðslukerfið NORA og svo er 10% systkinaafsláttur og 10% afsláttur ef keyptar eru 12 vikur eða fleiri.“

Sjá nánar á: http://www.reykjavik.alg.academy