Verkefnið Intelligent Instruments felur meðal annars í sér rannsóknarstofu, þar sem allt að átta manns munu starfa ásamt gestarannsakendum og listamönnum, með aðkomu kennara og nema í tónlist og tölvunarfræðum. Dr. Þórhallur svarar hér fáeinum spurningum um þetta áhugaverða verkefni.

Hvað er snjallhljóðfæri?

Öll hljóðfæri eru snjöll á sinn hátt, en orðið snjallhljóðfæri, eins og við notum það, er þýðing á enska orðasambandinu Intelligent Instruments. Við erum að skoða hvernig samband okkar við hljóðfæri breytist þegar þau eru smíðuð með gervigreind. Í raun er þetta heimspekilegt verkefni um samband okkar við tækni á tímum þar margir hlutir í umhverfi okkar eru að breytast í snjallhluti. Í dag er ekki mikið um eiginleg snjallhljóðfæri þar sem gervigreind er partur af viðmóti hljóðfærisins þó að rannsóknir séu hafnar víða um heim. Það er hins vegar gervigreind á mörgum sviðum tónlistariðkunar, frá stafrænum hljóðgervlum til forrita sem notuð eru til tónsmíða.

Er snjallhljóðfæri hugbúnaður eða raunverulegt hljóðfæri?

Við erum að einbeita okkur að raunverulegum hljóðfærum sem við handfjötlum og þróum náið samband við. Gervigreind er á ýmsum stöðum, til dæmis í smátölvum sem eru áfastar eða faldar inni í hljóðfærinu sjálfu (oft kallað embedded computing á ensku). Við sem vinnum í rannsóknarstofunni erum tónlistarmenn og forritarar og höfum skrifað forrit fyrir tónlistarsköpun, en markmið okkar er að þróa raunveruleg hljóðfæri með gervigreind sem við höfum líkamlegt samband við. Þannig að snjallhljóðfæri felur hvort tveggja í sér hugbúnað og hljóðfæri.

Treysta nútímatónskáld á gervigreind til að skapa tónlist?

Það er allur gangur á því, en tæknin er til staðar. Tónlist er stærðfræðileg í eðli sínu, sú hugmynd nær aftur til Pýþagórasar, og þegar maður er með form, þá eru reglur, hvort sem maður brýtur þær eða ekki. Tölvur eru mjög góðar í að fylgja reglum, og nú með vélarnámi (e. machine learning) geta þær lært af endurteknum mynstrum, og tónlist er hér séð sem mynstur. Þannig gætu nemendur í tónsköpun til dæmis fylgt reglum í að skrifa fúgu eins og Bach eða notað forrit sem gerir það fyrir þau. Það er í raun ekki flókið. Það sem er öllu meira spennandi er að skoða í hverju raunveruleg sköpun felst og þar getur gervigreindin ekki staðið sjálf, heldur þarf skapandi manneskju til. Frá sjónarmiði tónskáldsins er gervigreindin verkfæri, líkt og hamar eða skrúfjárn; hún er ekki komin til að taka yfir tónlistarsköpunina.

Hvers vegna hlotnaðist þér þessi heiður og styrkveiting? Eru fáir eins þenkjandi og þú á þessu sviði?

Það er erfitt að spá í það, en það er fólk úti um allan heim að þróa spennandi hljóðfæri og nýta gervigreind í tónlistarsköpun. Ég held að það sem gerir þetta verkefni sérstakt er að við erum að spá í hvernig þessi tækni breytir okkur sem erum að fást við og hlusta á tónlist. Auk þess að þróa nýja tækni þá er mikilvægur hluti verkefnisins að skoða þær hugmyndir og orðræðu sem er hægt og rólega að myndast í kringum þessa nýju tækni. Þetta er því verkefni sem nær út fyrir tónlistina sjálfa og hefur með samband okkar við gervigreind í víðari skilningi að gera. Hvernig tölum við um gervigreind í daglegu lífi? Hvernig hrósum við unglingi sem spilar inn melódíu á símann sinn og fær útsetningu á henni líkt og Mahler hefði verið að verki? Hvar er sköpunin hjá barninu okkar sem teiknar Óla prik á spjaldtölvu sem breytir teikningunni í Van Gogh-málverk? Í þessu verkefni notum við hljóðfæri og tónlistina sem svið fyrir rannsóknir á tengslum okkar við gervigreind, en niðurstöðurnar munu hafa áhrif á önnur svið fræða, vísinda og tækni.

Hvernig fer rannsóknarvinnan fram og við hvaða niðurstöðum býstu?

Við erum teymi sem samanstendur af þremur doktorsnemum, tveimur nýdoktorum, hljóðfærasmið, verkefnisstjóra og mér sem aðalrannsakanda. Okkar vinna felst í að þróa og smíða ný hljóðfæri og gera rannsóknir á þeim í samstarfi við alþjóðlegan hóp vísindamanna. Þar má nefna sálfræðinga, heimspekinga, tölvunarfræðinga, verkfræðinga og sérfræðinga í gervigreind, ásamt auðvitað tónlistarfólki. Við höfum hljóðfærin sem miðpunkt í samræðum okkar um gervigreind almennt og tengsl okkar við hana. Niðurstöðurnar munu koma fram á ýmsu formi, en auk hljóðfæra, nýrra forrita, þekkingar á gervigreind og notkunar hennar, munum við standa að alls kyns viðburðum sem fólk getur mætt á, svo sem tónleikum, málstofum, vinnustofum og öðru. Við hvetjum fólk til að heimsækja okkur í Opna vinnustofu (Open Lab) sem við höldum á föstudögum klukkan tvö í rannsóknarstofunni okkar við Listaháskólann í Þverholti. Í Opnu vinnustofunum fáum við gesti til að kynna verkefni sín og ræðum tækni, tónlist og heimspeki yfir kaffibolla til að loka vinnuvikunni. Það er nefnilega í gegnum samræður sem við náum að þróa það nýja tungumál sem vantar til að geta skilið almennilega hlutverk gervigreindar í nútímaþjóðfélagi.

Má segja að styrkveitingin sýni mikilvægi þess að fá niðurstöður í einmitt þennan málaflokk?

Já, það er gífurleg samkeppni um þessa vísindastyrki Evrópska rannsóknarráðsins. Ráðið styrkir aðeins verkefni sem eru í framlínu nútíma vísinda og þar á meðal má nefna listrannsóknir af því tagi sem við vinnum. Í verkefni okkar skarast listrannsóknir við hugvísindi og tölvuvísindi. Gervigreind er mjög heitt rannsóknarefni úti um allan heim um þessar mundir, og má segja að við séum að stunda hagnýtar gervigreindarrannsóknir út frá sjónarhorni lista og hugvísinda. Ráðið hefur þverfagleika að markmiði og hefur lýst því yfir að framtíð vísinda sé þar sem þau skarist og ný þekking verði til.

Dr. Þórhallur telur ekki hægt að aðskilja manneskjuna frá tölvum og gervigreind, enda sé gervigreind tæki mannsins. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Munið þið skapa ný snjallhljóðfæri sem í framtíðinni gætu leyst hefðbundin hljóðfæri af hólmi?

Nei, ég tel að það sem við gerum verði aðeins viðbót við þá flóru hljóðfæra sem nú þegar er til. Hljóðfæri til tónlistariðkunar hafa alltaf verið þróaðasta tækni hvers tímabils í sögunni, og því er eðlilegt að við séum að rannsaka gervigreind sem hluta af hljóðfærum í dag. Ég er sannfærður um að Guido de Arezzo frá 11. öld, Hildegard von Bingen frá 12. öld eða Bach frá 17. öld væru að fást við þetta í dag ef þau væru uppi núna. Líkt og barokk-fiðlan er enn til og fiðlan er enn að þróast, þá eru okkar snjallhljóðfæri aðeins viðbót í hljóðfærakistuna, en þó með þeim mun að þau hafa atbeini og geta brugðist við því sem við gerum á gjörnýjan hátt.

Getur gervigreind samið frumlega tónlist? Ef svo er, hætta þá mannleg tónskáld að vera mikilvæg, eða þarf alltaf manninn til að leggja í púkkið svo að gervigreind geti verið skapandi?

Þessi spurning er utan við það sem við erum að rannsaka, þar sem við erum að nota gervigreind sem hluta af hljóðfærum okkar, sem við spilum á uppá sviði á tónleikum. En spurningin er áhugaverð og kemur inná eðli sköpunar, mannshugans, menningu, list og hugmyndir okkar um frumleika. Fyrst skulum við athuga að þessi hugtök eru menningarbundin, svo að ólík menningarsamfélög gætu séð þetta á annan hátt en við. Svo getum við spurt okkur hversu mikið af tónlist sem er búin til af fólki í dag sé raunverulega frumleg. Og því næst skoðað hvort að tölvukerfi geti ekki samið tónlist sem er í meðalgæðum. Og ef tölvan getur það ekki í dag, þá getur hún það áræðanlega eftir 10 ár. En hvort tölvan geti samið virkilega frumlega tónlist þá held ég að það sé ansi langt í það, ef það verður einhvern tímann mögulegt. Hvað þyrfti til? Þetta er spurning fyrir sérfræðinga í hugrænum vísindum, heimspeki og tónlist.

Hefur maðurinn roð í gervigreind og tölvutónlist?

Gervigreind er tæki mannsins. Forrit sem semja tónlist eru listaverk í sjálfu sér, bara svona „meta“. Þannig að ég held að það sé ekki hægt að aðskilja manneskjuna frá tölvunni og gervigreindinni, heldur verðum við að sjá allt þetta sem greind okkar og framlengingu á huga og líkama okkar, rétt eins og öll tækni hefur alltaf verið.

Verður frumsköpun tónsmíða bitbein héðan í frá, þegar kemur til dæmis að höfundarréttarstuldi?

Höfundarréttur er gífurlega flókinn í dag og sérstaklega hvað viðkemur gervigreind. Það er ljóst að höfundarréttarlög munu þurfa að aðlagast nýjum veruleika sem gervigreindin býður uppá. Höfundarréttur er hinsvegar utan við mitt sérvið og utan við svið verkefnisins svo að ég tel ekki rétt að ég sé að svara þessu hér.