„Myndlist er góð fjárfesting sem eykur virði sitt með árunum og auðgar andann,“ segir Ásgerður Júlíusdóttir, verkefnis- og kynningarstjóri hjá Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Ásgerður, ásamt öðru starfsfólki SÍM, er stödd á gamla hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum, í startholunum til að opna Torg Listamessu Reykjavík með pompi og prakt klukkan 18 í kvöld. Listamessan er stærsti sýningar- og söluvettvangur íslenskrar myndlistar til þessa, sannkallað ævintýra- og gósenland fyrir listamenn og listunnendur.

„Listamessur sem þessar hafa lengi tíðkast um allan heim og löngu sannað gildi sitt. Við hjá SÍM fundum fyrir eftirspurn og þörf fyrir listamessu hér heima, en hún er einstætt framtak og sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi,“ upplýsir Ásgerður.

Myndlistarmaðurinn Viktor Pétur Hannesson, hér með stór verk sín í bakgrunni. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Torg Listamessa, sem stofnuð var af Önnu Eyjólfsdóttur myndlistarmanni og formanni SÍM, var fyrst haldin í tengslum við Mánuð myndlistar árið 2018 og fer nú fram í þriðja sinn.

„Tilgangurinn með messunni er fjölþættur; að auka sýnileika myndlistar og gera fólki auðveldara fyrir að kynna sér samtímalist og eignast listaverk eftir íslenska eða erlenda listamenn sem starfa hér á landi. Ætlunin er að veita áhugafólki um myndlist tækifæri til að fjárfesta milliliðalaust í myndlist og eiga um leið persónulegt samtal við listamennina sjálfa,“ greinir Ásgerður frá.

Sýningarstjóri Torgs Listamessu er Annabelle von Girsewald.

„Það er mikill fengur fyrir Torgið að fá Annabelle sem sýningarstjóra því hún hefur unnið með íslenskum myndlistarmönnum síðan 2010 og hefur mikið innsæi inn í íslenskan myndlistarheim,“ segir Ásgerður.

Listakonan Izabella Katarzyna Hadrian sýnir verk sín á Korpúlfsstöðum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Heimili myndlistarinnar

Yfir 70 myndlistarmenn taka þátt í listamessunni á Korpúlfsstöðum.

„Það verður eflaust þrautin þyngri að gera upp á milli heillandi listaverka því það er vel skipað í hvert hólf með flottum listamönnum. Sýningarsalurinn er í skemmtilega hráu og sögulegu rými sem í dag er stærsti sýningarsalur landsins. Hlöðuloftið geymdi áður hey fyrir kýr í fjósi Korpúlfsstaða sem var stærsta býli landsins og byggt af mikilli hugsjón. Korpúlfsstaðir hafa verið heimili myndlistarinnar síðastliðin 50 ár og undanfarin 25 ár hefur SÍM rekið listamiðstöð í þessu glæsilega húsi. Á næstu misserum eru margar sýningar og viðburðir á döfinni á Hlöðuloftinu og er nánast fullbókað til ársins 2024, og komnar nokkrar bókanir árið 2025. Það eru eflaust margir sem hafa ekki komið hingað inn, svo ég hvet alla til að gera sér glaðan dag og koma á Korpúlfsstaði því það er kynngimagnaður staður þar sem hjarta myndlistarinnar slær,“ segir Ásgerður.

Hlynur Helgason sýnir stór verk og smá á Torg Listamessu. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Listaverk og listamenn eru í aðalhlutverki í messunni, en gestir og gangandi geta rætt við listamennina, fræðst um verk þeirra og störf og spjallað um sköpunarkraftinn, lífið og listina.

„Messan er fyrst og fremst hugsuð sem skemmtilegur viðburður sem allir geta sótt og vonandi koma sem flestir til að fá sér kaffi og með því og skoða fjölbreytt listaverk. Listamessan er ekki síður hátíð fyrir listamennina og þá sem gera sér ferð á Korpúlfsstaði því það gefur listafólkinu mikið að hitta listunnendur og aðra listamenn. Árið um kring starfar meirihluti myndlistarmanna einn á vinnustofum sínum og því er kærkomið fyrir þá að hitta kollegana, kynnast nýju fólki og bera saman bækur.“

Martynas Petreikis, verkefnastjóri SÍM Residency. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

List gerir heimilið persónulegt

Listamessan á Korpúlfsstöðum opnar nýja sýn á myndlist. Þar á almenningur stefnumót við listamenn þjóðarinnar, getur átt beint samtal við þá og eignast einstök listaverk.

„Í Covid-ástandinu leitaði fólk í meira mæli eftir því að gera heimili sín hlýlegri og ná fram sínum eigin sérstaka stíl. Það vakti okkur til vitundar um að hafa heimilin ekki bara svört og hvít heldur lífleg, þægileg og heimilisleg. Að eignast listaverk setur persónulegan svip á heimilið og kannski sérðu eitthvað á Hlöðuloftinu sem talar beint til þín og endurspeglar þinn stíl. Þá er ekki amalegt að hitta fyrir listamanninn sem skapaði listaverkið og á jafnvel sitthvað sameiginlegt með þér, svo sem fagurt auga, stíl og fegurðarskyn,“ segir Ásgerður.

Listakonan Bryndís Brynjarsdóttir hengir upp eitt verka sinna með sýningarstjóranum Önnubelle von Girsewald. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Söluverð listaverka rennur að fullu til listafólksins því messan þiggur enga þóknun fyrir sína þjónustu og engir milliliðir taka umboðslaun.

„Á Hlöðuloftinu verður hægt að gera góð kaup en listaverkin þurfa þó að vera áfram til sýnis á Korpúlfsstöðum á meðan á messunni stendur. Boðið er upp á raðgreiðslur og fleiri greiðslumöguleika og því ættu allir að geta fengið eitthvað fallegt fyrir sinn snúð,“ greinir Ásgerður frá.

Jóna Bergdal er ein af fleiri en 70 listamönnum sem sýna verk sín á Torgi Listamessu Reykjavík. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ísland á flesta listamenn í heimi

Íslensk myndlist vekur athygli og aðdáun út fyrir landsteinana.

„Dýnamíkin í myndlistinni hér á landi dregur útlendinga að. SÍM rekur vinnustofur, SÍM Residency, fyrir erlenda myndlistarmenn og við önnum ekki eftirspurn. Það sem af er þessu ári hafa 114 listamenn að komið að utan í residensíuna eða vinnustofurnar hjá okkur, þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Þeir koma til að vinna að myndlist sinni og verða undantekningarlaust fyrir miklum áhrifum af íslenskri náttúru, sem og handbragði og efnistökum íslenskra myndlistarmanna, og það bregst ekki að íslenska náttúran skín í gegn í listaverkum þeirra,“ upplýsir Ásgerður.

Hún segir smæð þjóðfélagsins einkenna íslenska myndlist.

„Styrkur okkar felst einmitt í smæðinni og menningarleg sjálfsmynd þjóðarinnar liggur í listinni. Þrátt fyrir þessa smæð eiga Íslendingar flesta myndlistarmenn í heimi, miðað við höfðatölu. Íslendingar eru einstaklega skapandi og listrænir, hvort sem það er í myndlist, tónlist, leiklist eða bókmenntum, og hér er ólgandi suðupottur þegar kemur að listsköpun. Helsta einkenni íslenskrar myndlistar er náttúran en það má segja að hún hafi verið rauður þráður í gegnum íslenska listasögu og sé enn afar fyrirferðarmikil í myndlistinni í dag, og þó það séu alls ekki allir sem vinna beint með hana þá skín hún oft í gegn á ólíklegasta hátt.“ ■

Torg Listamessa Reykjavík verður haldin dagana 22. til 31. október á Hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Aðgangur er ókeypis og kaffi á staðnum. Sjá nánar á sim.is.

Dagskrá Torgs Listamessu:

22. október – opnun Torgs frá 18-20

Helgin 23.-24. október – opið 12 til 18

28. október - Langur fimmtudagur - opið 18-22

29. október – opið 18-20

Helgin 30.-31. október - opið 12-18