Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur við Hagstofu Íslands, gaf út skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi fyrr á þessu ári fyrir Velferðarvaktina. Hann segir að fátækt sé hugtak sem geti verið erfitt að skilgreina en maður þekki hana þegar maður sér hana.

„Fátæktarhugtakið er miklu eldra en félagsvísindin, hugmyndir um fátækt hafa verið til frá örófi alda. En málið er að svo þurfum við einhvern veginn að mæla hana og þá vandast málið, því við höfum enga beina leið til að mæla fátækt,“ segir Kolbeinn. „Almennt séð horfum við á fátækt sem skort sem leiðir af því að hafa ekki nægilega miklar bjargir, fyrst og fremst peninga.“

Þrjár mælingar á fátækt

„Ég nota þrjár mælingar á fátækt í skýrslunni. Sú fyrsta er svokölluð lágtekjumörk, sem áður voru kölluð fátæktarmörk. Hún virkar þannig að við tökum miðgildið í tekjudreifingunni og reiknum hlutfall af því. Almennt er miðað við 60% af miðgildinu og allir sem eru undir því teljast í hættu á fátækt,“ segir Kolbeinn. „Það búa samt ekki allir í þessum hópi við fátækt, hún getur verið tímabundin og fólk getur oft verið fljótt að vinna sig upp.

Önnur mæling er skortur á efnislegum gæðum. Þá er litið til þess hvaða tilteknu efnislegu lífsgæði fólk hefur og ef einhvern vantar þau gæði, hvort það sé vegna þess að það hefur ekki efni á þeim,“ segir Kolbeinn. „Við getum svo sem alltaf neitað okkur um tiltekin gæði af ýmsum ástæðum, en ef þú vilt þau en hefur ekki efni á þeim telst það skortur.

Svo nota ég flókna tölfræðilega aðferð sem tekur upplýsingar úr alls konar mismunandi mælingum sem snerta á fátækt til að fá út nýja mælingu, sem við köllum fjárhagsþrengingar,“ segir Kolbeinn. „Þetta eru þær þrjár ólíku mælingar sem eru notaðar og þær henta til að svara dálítið ólíkum spurningum.“

Ekki hægt að telja fátæka

„Það hversu margir teljast fátækir á Íslandi veltur á skilgreiningunni sem er notuð, en almennt séð er fátækt tiltölulega fágæt á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd,“ segir Kolbeinn. „Hins vegar jókst fátækt áberandi mikið í kjölfar Hrunsins en svo dró úr henni hjá flestum hópum eftir 2011, nema hjá öryrkjum.

En það er ekki hægt að nefna neina tiltekna tölu um hve margir eru fátækir á Íslandi, því við getum ekki mælt það beint,“ segir Kolbeinn.

Börn einstæðra og öryrkja viðkvæm

„Rannsóknir benda til þess að börn einstæðra foreldra og öryrkja séu líklegust til að búa við fátækt,“ segir Kolbeinn. „Í tilfelli einstæðra foreldra er það einfaldlega þannig að það er erfitt að reka heimili á Íslandi með bara eina fyrirvinnu, við þurfum tvær til að komast sæmilega af í þessu samfélagi.

Hjá öryrkjum snýst málið frekar um að annar eða báðir foreldrar eru með langvarandi lágar tekjur. Þá gengur á sparifé og eignir og lánstraust verður hægt og rólega fullnýtt, þannig að svigrúm fólks til að bregðast við verður sífellt minna,“ segir Kolbeinn. „Örorkulífeyrir á Íslandi er heldur ekki sérlega rausnarlegur til að byrja með.“

Meiri vinna, meiri tekjur

„Það veltur mjög mikið á aðstæðunum sem leiða fólk í fátækt hvernig hægt er að vinna sig upp úr henni,“ segir Kolbeinn. „Það getur verið býsna erfitt fyrir örorkulífeyrisþega, því þeir hafa skerta starfsgetu og það getur verið mjög erfitt fyrir þá að afla sér aukatekna.

Það er kannski auðvelt að segja að fyrir einstæða foreldra sé best að finna sér maka, en það er alls konar mannlegur raunveruleiki sem flækir myndina og margir sem geta ekki eða vilja ekki gera það,“ segir Kolbeinn.

Almennt séð er leiðin til að vinna sig úr fátækt á Íslandi sú að vinna meira til að skapa meiri tekjur,“ segir Kolbeinn. „En maður getur líka reynt að skipuleggja líf sitt þannig að maður dragi úr áhættu, til dæmis með því að mennta sig.“

Mætti efla barnabætur

„Þetta verður snúnara þegar við tölum um verst settu hópana,“ segir Kolbeinn. „En það er ýmislegt sem samfélagið getur gert. Til dæmis að auka stuðning við barnafjölskyldur, sem er takmarkaður á Íslandi.

Við erum með tekjutengdar barnabætur en skerðingarmörkin liggja svo lágt að það er mjög auðvelt að fara undir þau ef maður er í fullri vinnu og svo eru skerðingarnar brattar,“ segir Kolbeinn. „Fólk sem er í hjúskap með tvö börn og í fullri vinnu, dæmigerð vísitölufjölskylda, fær til dæmis engar barnabætur ef annað barnið er komið yfir 6 ára aldur.“

Kolbeinn telur því að það sé ástæða til að efla barnabótakerfið, sérstaklega með tilliti til fólks sem hefur lægri tekjur.