Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands. Þessir aðilar vinna að sameiginlegum hagsmunum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðla að uppbyggilegum, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi.

„Það sem við leggjum áherslu á er að þeir sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvitaðir um sínar skyldur og ábyrgð svo umhverfið sé sem öruggast,“ segir Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins. „Bæði svo hægt sé að reyna að koma í veg fyrir mál sem kunna að koma upp, svo sem einelti, kynferðisbrot, agabrot og fleira, og líka svo að það séu leiðir til að fá úrlausn mála með einföldum hætti þegar slík atvik koma upp.

Við gerum þetta með fræðslu fyrir þá sem starfa með börnum og ungmennum um birtingarmyndir ofbeldis, eineltis og vanrækslu og leggjum mikla áherslu á að fólk geti borið kennsl á vísbendingarnar og þekki leiðir til úrlausnar,“ segir Sema. „Við leggjum einnig áherslu á hvernig á að hátta samskiptum milli ungra iðkenda og fullorðinna, en samskiptaleiðir hafa breyst og það virðist hafa færst í aukana að þau séu óviðeigandi eða að minnsta kosti á gráu svæði. Við bregðumst við því með skýrum siðareglum um samskipti.

Við höfum líka þróað netnámskeið í barnavernd í samstarfi við fagaðila,“ segir Sema. „Það er mikilvægt að nýta það og það er öllum aðgengilegt ókeypis á vefnum okkar.“

Koma málum í farveg

„Í frítímastarfi geta komið upp ýmis atvik og börn geta líka komið inn í slíkt starf sem þolendur ofbeldis,“ segir Sema. „Stundum greina börn frá ofbeldi og þá skiptir sköpum að rétt sé brugðist við, annars er hætta á að barnið vilji ekki segja aftur frá.

Við erum með mjög vandaða viðbragðsáætlun með mjög skýrum ferlum,“ segir Sema. „Við komum inn sem óháður aðili og aðstoðum við að leysa úr málum. Stundum er nóg að ræða við fólk, en stundum þarf að tilkynna mál til barnaverndar og jafnvel lögreglu. Við komum málum þá í ferli hjá yfirvöldum og höfum svo ekki frekari afskipti nema þess sé óskað af hálfu yfirvalda og til þess að hlúa að aðilum máls.“

Á heimasíðu Æskulýðsvettvangsins, www.aev.is, eru alls kyns upplýsingar og verkfæri og hægt að tilkynna óæskilega hegðun. Netnámskeiðið í barnavernd er aðgengilegt hér: https://namskeid.aev.is/.