Æskilegt er að allir þátttakendur mæti á mótssetninguna og gangi inn á mótssvæðið með öðrum þátttakendum. Á setningunni verður mikið fjör, tónlist og dans. Þeir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, verða viðstaddir setninguna. Allir eru velkomnir á mótssetninguna, þátttakendur, foreldrar, systkini og bara allir sem vilja vera í góðum félagsskap.

Mótinu verður slitið á Selfossvelli 31. júlí, klukkan 23.45. Herlegheitunum lýkur svo með glæsilegri flugeldasýningu.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður viðstaddur setningu mótsins.

Allir með á mótinu

Börn og ungmenni á aldrinum 11 –18 ára geta tekið þátt í keppnisgreinum á Unglingalandsmóti UMFÍ. Skráning er á heimasíðu UMFÍ; umfi.is. Skráningu lýkur mánudaginn 25. júlí. Þátttakendur og allir aðrir mótsgestir geta tekið þátt í afþreyingardagskránni.

Íþróttaveisla í allt sumar

Margt fleira er í gangi hjá UMFÍ en Unglingalandsmót UMFÍ. Í júní var haldið Landsmót UMFÍ 50+ fyrir fimmtíu ára og eldri. Íþróttaveisla UMFÍ verður haldin nú í ágúst og september í samstarfi við Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK). Veislan samanstendur af fjórum skemmtilegum viðburðum sem allir fara fram á höfuðborgarsvæðinu. Við hvetjum alla til að kynna sér viðburðina og taka þátt. Hægt er að fá allar upplýsingar um viðburði á umfi.is