„Ég lærði líffræði í Háskóla Íslands, fór í meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði sjávar í háskólanum í York í Bretlandi og vann svo eitt sumar að loftslagstengdum rannsóknum við Háskólann í Alaska Fairbanks, þar sem við skoðuðum áhrif bráðnunar jökla á strandvistkerfi. Þar byrjaði loftslagstengingin mín,“ segir Ragnhildur. „Eftir það fór ég að vinna fyrir World Wildlife Fund í Þýskalandi, stærstu umhverfisverndarsamtök í heimi, og vann þar í nokkurn tíma áður en ég flutti heim, en þá ég störf hjá Matís.“

Sífellt fleiri loftslagstengd verkefni

„Á síðustu árum hefur Matís verið að ráðast í fleiri loftslagstengd rannsóknar- og þróunarverkefni. Við höfum lengi verið með ríka áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og stefnum nú á að gera okkur gildandi í baráttunni við loftslagsbreytingar,“ segir Ragnhildur. „Minn bakgrunnur liggur í umhverfi hafsins og mín verkefni hafa því að mestu verið á því sviði. Við vorum til að mynda að klára Evrópuverkefnið ClimeFish, sem snerist um að skoða áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi í Evrópu,“ segir Ragnhildur. „Verkefninu var stýrt af Háskólanum í Tromsø og það voru samstarfsaðilar um alla Evrópu. Okkar hlutverk var að greina og kortleggja áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi víðs vegar í Evrópu og við þróuðum aðferðarfræði til að gera aðlögunaráætlanir sem var birt í vísindatímaritinu Climatic Change fyrr á þessu ári, en hún var líka nýtt í rafrænt námskeið hjá Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).

Við vonumst til að fá fjármagn til að hefja þessa aðlögunarvinnu hérlendis. Fyrir nokkrum vikum var fyrsta stefna íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum birt og þar komu fram skýr markmið fyrir sjávarútveginn,“ segir Ragnhildur. „Eitt þeirra er að meta og kortleggja möguleg áhrif loftslagsbreytinga og greina út frá því aðlögunarþörf greinarinnar. Við erum sannfærð um að aðferðarfræðin sem varð til í ClimeFish-verkefninu geti nýst til að búa til aðlögunaráætlun fyrir sjávarútveg og fiskeldi á Íslandi.“

Vilja auka nýtingu lífræns áburðar

„Það eru fjölmörg önnur verkefni í gangi hjá Matís sem snúa að matvælaframleiðslu en hafa sterkan loftslagsvinkil. Ég get til dæmis nefnt verkefnið Sjálfbær áburðarvinnsla sem styrkt er af Markáætlun um samfélagslegar áskoranir, en þar erum við meðal annars að kortleggja magn lífrænna aukahráefna og úrgangs á Íslandi, svo sem kúamykju og moltu, til að geta nýtt þetta sem lífrænan áburð,“ segir Ragnhildur. „Við erum að skoða hvernig hægt sé að bæta þenna úrgang með íblöndun næringarefna, líkt og köfnunarefnis og niturs frá sprotafyrirtækinu Atmonia, þannig að hann nýtist sem best sem áburður. Landbúnaðarháskólinn og Landgræðslan eru svo að prófa þessar blöndur. Aukin nýting á lífrænum, innlendum áburði gæti haft mikil áhrif á kolefnisspor íslensks landbúnaðar, en bæði innflutningur og framleiðsla tilbúins áburðar valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda.“

Skoða nýja próteingjafa

„Við erum líka að vinna að verkefnum sem snúa að því að þróa og framleiða næstu kynslóðir af matvæla- og fóðurpróteinum með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Ákveðin umbylting þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu á komandi árum til að hægt verði að fullnægja aukinni próteinþörf heimsbyggðarinnar á umhverfisvænan hátt,“ segir Ragnhildur. „Við erum að stýra stóru evrópsku verkefni þar sem við erum að þróa próteinvinnslu úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum og sannreyna notagildi þeirra í ýmsum matvælum og dýrafóðri. Þetta er fjögurra ára verkefni sem við leiðum, en það eru hátt í 25 þátttakendur víðs vegar um Evrópu sem taka þátt í verkefninu, en það eru líka fleiri verkefni í pípunum sem snúa að þessu.

Það eru fjöldamörg önnur rannsóknar- og nýsköpunarverkefni í gangi hjá okkur sem snúa að umhverfis- og loftslagsmálum og miða að því auka sjálfbærni innan sjávarútvegs og landbúnaðar. Við erum til að mynda að skoða áhrif endurnýjunar íslenska fiskiskipaflotans á kolefnisspor afurða og með fjölmörg verkefni er snúa að því að bæta vinnsluaðferðir og geymsluþol afurða, sem getur haft mikil áhrif á kolefnisfótspor þeirra,“ segir Ragnhildur.

Beitir sér fyrir fræðslu um loftslagsmál í grunnskólum

„Persónulega finnst mér mjög mikilvægt að vísindafólk beiti sér líka í miðlun á upplýsingum um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, sérstaklega þegar kemur að unga fólkinu okkar. Ég fékk nýlega styrk úr Loftslagssjóði fyrir fræðsluverkefni sem miðar að því að búa til aðgengilegt námsefni til að fræða bæði kennara og nemendur um loftslagsmál,“ útskýrir Ragnhildur, sem segir að um sé að ræða kennsluefni auk fjölda skemmtilegra verkefna, leikja og tilrauna. „Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Við leggjum líka mikið upp úr þessari valdeflingu unga fólksins, meðal annars með því að leyfa þeim að kynnast heimi loftslagsaktívistans og frumkvöðulsins og virkja þau þannig til baráttunnar.“