„Það hvarflaði fyrst að mér að verða múrari þegar ég sá hvað ég þyrfti að láta gera mikið múrverk fyrir húsið mitt. Þegar ég fór að reikna dæmið til enda sá ég í hendi mér að ég hefði aldrei efni á því nema að læra hreinlega til múrara sjálf,“ segir Halla sem nú er nemi á samningi í múraraiðn.

Halla er sveitastúlka úr Flóanum og hafði lokið háskólagráðu í náttúrufræði við Landbúnaðarháskóla Íslands áður en hún vatt kvæði sínu í kross og ákvað að gerast múrari.

„Eftir á að hyggja hefði ég átt að sleppa háskólanum og fara beint í múrarann, en ég fattaði ekki þá að það hentaði mér. Það vantar líka fagfólk í flestar iðngreinar og ef fólk ætlar sér að byggja hús eða eignast húsnæði einhvern tímann á ævinni, myndi ég alltaf mæla með námi í húsasmíði, múrverki, pípulögnum eða rafvirkjun því það er hægt að gera svo margt sjálfur ef maður kann grunnatriðin.

Frábært starf fyrir konur

Halla lærði bókleg og verkleg fög í múraranáminu við Tækniskólann á Skólavörðuholtinu og er nú á samningi hjá múrarameistara á Selfossi.

„Eftir að ég byrjaði í náminu var ég strax komin í ýmis verkefni við múrverk, aðallega við að flísaleggja og múra kanta, tröppur og steypuvinnu. Það virðist enginn skortur á verkefnum fyrir múrara og alltaf þörf fyrir góða múrara,“ segir Halla sem hefur líka nýtt námið við múrverkefni heima í Flóanum.

„Þegar ég var búin að kynnast efniviðnum og verkfærunum, og verklaginu við starfið, lék þetta ágætlega í höndunum á mér. Ég hafði aldrei komið nálægt múrverki áður svo það var ótalmargt að læra en þetta kom fljótt og gekk vel,“ segir Halla.

Henni finnst alltaf gaman í múrvinnunni.

„Já, þetta skemmtilegt starf og algjörlega frábært fyrir konur, bæði fjölbreytt vinna og hægt að velja um verkefni sem hæfa áhugasviði manns. Maður þarf heldur ekkert frekar að fara í ræktina því vinna múrarans er líkamleg og gerir mann hraustan. Það eru þó engin rosaleg átök og ætti alls ekki að vaxa konum í augum þótt stöku sinnum þurfi að rogast með 25 kílóa sementspoka. Maður lærir fljótt réttu vinnubrögðin í faginu og að beita líkamanum rétt, en það hjálpar auðvitað að vera alin upp í sveit við hey- og skítmokstur,“ segir Halla og hlær.

Alls ekki groddaralegt starf

Halla múraði nýlega tröppur hjá vinkonu sinni í sveitinni.

„Það er óneitanlega gaman að kunna á þessu tökin og geta farið í múrverk með fagkunnáttu. Maður lærir enda mest á því að vinna við fagið, þótt maður læri líka fullt í skólanum, svosem að tileinka sér efnisnotkun og vinnubrögð, aðferðir og verkfæri til að nota við mismunandi verkefni.“

Múrarar fást við hvers kyns steypuvinnu og múrverk, járnabindingu, steypu- og múrviðgerðir, flotun og flísalagningu.

„Margir gera sér í hugarlund að múrverk sé groddaralegt starf og auðvitað eru verk þar sem maður þarf að nota kraftana, en það er margt annað sem starfið snýst um. Ég hvet því konur til að fara í múraranám og iðngreinar almennt, ekki síður en karla, því verknám er svo ótrúlega praktískt.“

Með Höllu í múraranáminu eru að minnsta kosti tvær konur til og hún þekkir tvær í viðbót sem vinna sem fagmenn í múrverki.

„Meirihluti múrara eru karlar en þeir taka mjög vel á móti á konum í sína stétt og eru afar hjálplegir við að kenna þeim réttu handtökin við verkin. Það hef ég margoft reynt og notið frábærrar leiðsagnar við fyrstu skrefin í ýmsu sem ég hef unnið.“

Það erfiðasta við múrverkið segir Halla að vilja helst hafa eigin verk óaðfinnanleg.

„Ég vil gera hlutina mjög vel og faglega og mér finnst pínu erfitt ef það tekst ekki 150 prósent. Mögulega er ég of smámunasöm á eigin verk. Í þessu eins og öðru þarf auðvitað að byrja einhvers staðar, öðlast reynslu og góða færni. Það er ekki hægt að ætlast til sömu útkomu hjá þeim sem eru að læra fagið og þeim sem hafa unnið við það árum saman. Því á það alltaf við að æfingin skapar meistarann.“ ■